Haraldur Þorleifsson, stofnandi hugvitsfyrirtækisins Ueno, tilkynnti á Twitter að allir skattar vegna sölu fyrirtækisins til Twitter yrðu greiddir á Íslandi.

Í Kastljósi Ríkisútvarpsins sagði Haraldur að þegar hann hefði áttað sig á því að mögulegt væri að greiða skatta af sölunni á Íslandi þá hafi hann átt tíu sekúndna samtal við eiginkonu sína „þar sem ég sagði – heyrðu ég var að komast að því að við getum borgað alla skatta á Íslandi, eigum við ekki að gera það? og hún sagði jú.“

Óðinn gleðst yfir því að hann skuli heldur kjósa að greiða skatta á Íslandi en í Bandaríkjunum. Ekki síst vegna þess að íslenskt efnahagslíf hefur ítrekað verið lamað af embættismönnum í nafni Covid-19. Nú síðast í hinni svokölluðu fjórðu bylgju, sem er reyndar sú þriðja því önnur bylgjan var ekki bylgja – en fjórða bylgjan virðist ætla að vera jafn lítil og önnur – og telst því heldur ekki bylgja. Sjúkrahúsin eru yfirfull af Covid sjúklingi. Einum sjúklingi sem sagður er vera af farskipi frá Brasilíu og hefur því ekkert með samkomutakmarkanir á Íslandi að gera.

* * *

Þórður Snær Júlíusson, hinn bitri ritstjóri vefritsins Kjarnans, fjallar um þetta í leiðara 13. mars. Þar hrósar hann Haraldi mikið fyrir að velja að greiða skatta á Íslandi.

* * *

Skattalegt heimilisfesti
Staðreyndin er sú að einstaklingar geta ekki valið hvar þeir greiða skatta. Um það gilda lög, reglur og samningar milli landa. Þar er litið til margra þátta. Lögheimili er eitt. En tengsl við landið skipta líka miklu, búseta fjölskyldu, eignarhald á íbúðarhúsnæði og auðvitað hversu marga daga viðkomandi dvelur í landinu.

Til að teljast ekki vera með skattalegt heimilisfesti á Íslandi er nauðsynlegt að geta sýnt fram á að maður dvelji utan landssteinanna fleiri en 183 daga á ári. Skattyfirvöld ganga mjög langt í að afla gagna um það, til dæmis notkun á kreditkortum, símnotkun og flugferðir, og sækja þessar upplýsingar beint til þeirra sem veita þjónustuna – banka, símfyrirtækja og flugfélaga.

Svo er hitt að jafnvel þótt þú dveljir lengur en 183 daga fjarri Fróni þá kunna skattyfirvöld að líta til fleiri þátta. Býr maki á Íslandi? Á viðkomandi hús á Íslandi? Eru börn í skóla? Er tekjur frá íslenskum fyrirtækjum og margt fleira.

* * *

Hvað vitum við um skattalega stöðu Haraldar?
Það hefur ekki komið fram opinberlega hvort Haraldur átti hlut sinn í gegnum eignarhaldsfélag eða persónulega, en það er grundvallaratriði.

Hafi hann átt hann persónulega og verið með skattalegt heimilisfesti í Bandaríkjunum þá hefur hann þurft að greiða fjármagnstekjuskatt (e. capital gains) sem er í þremur þrepum, 0, 15% og 20%, og hefði langstærstur hluti skattsins verið 20%. Á Íslandi er fjármagnstekjuskattur 22%.

Hafi hann átt hlutinn í gegnum íslenskt eignarhaldsfélag þá var söluhagnaðurinn skattfrjáls. Líklega einnig ef hann átti hlutinn í gegnum bandarískt félag.

Í leiðara Þórðar frá 13. mars segir hann m.a.:

„Samandregið þá er það einhverskonar þjóðaríþrótt á Íslandi að líta framhjá stórfelldum skattsvikum, og hjá fjármagnseigendum er ákvörðun um að stunda „skattahagræði“ jafn eðlileg og morgunsturtan. Það að nýta sér ekki glufur og hugsa samfélagslega er talið vera veikleiki. Hlægileg og barnaleg afstaða í darwinískum hugarheimi einstaklingshyggjunnar.

Kerfin okkar sveigjast mun frekar í átt að umbera þetta atferli. Stefnan virðist vera sú að ef eitthvað er ekki skoðað, þá á það sér ekki stað. Því virðist fátt rata í rannsóknir annað en það sem kerfisbundið fjársveltir fjölmiðlar opinbera.“

* * *

Þórður Snær virðist skilja fátt í skattarétti. Hvernig getur hann fullyrt út frá mjög takmörkuðum upplýsingum að Haraldur hafi ekki sniðgengið bandarísk skattalög? Það er í það minnsta ljóst í málinu, þar sem Haraldur segir það, að hann hafi ákveðið að greiða skatta á Íslandi. Var það ekki skattasniðganga í Bandaríkjunum?

Það liggur ekki fyrir hvort hann hefði greitt lægri eða hærri skatta á Íslandi. Ef þeir væru lægri væri um skattahagræði að ræða. Sem Þórður Snær er þá að dásama óafvitandi!

* * *

Háir skattar
Eftir því sem skattar hækka, og þeir hafa hækkað og hækkað síðustu 100 árin frá því að skattkerfið sem við þekkjum fór að taka á sig mynd, þá eykur það hvata fólks til að flýja þessu háu skatta. Um þetta getur Þórður Snær rætt við Tortólu-Villa sem situr einmitt í stjórn Kjarnans og er næststærsti eigandi bloggsíðunnar með 17,21% hlut.

Alla daga skrifar Þórður Snær um mál sem honum eru hugleikin og finnst að skattgreiðendur eigi að taka þátt í. Eitt þeirra er rekstur einkarekinna fjölmiðla.

Í tilvitnuninni hér að ofan segir hann að fjölmiðlar séu kerfisbundið fjársveltir. Þvílík della! Fjölmiðlar reka þjónustu fyrir lesendur sína. Ef enginn hefur áhuga á þeirri þjónustu þá fá þeir ekki tekjur.

* * *

Ástæðan fyrir því að einkareknum fjölmiðlum gengur illa á Íslandi er aðallega sú að framlög til Ríkisútvarpsins hafa aldrei verið hærri og umsvif þeirrar ríkisstofnunar eru að eyðileggja fjölmiðlamarkaðinn. En Þórður Snær er fylgjandi þeim ríkisumsvifum eins og öðrum.

Ísland og heimurinn allur þarf fleiri menn eins og Harald Þorleifsson sem skapa verðmæti. Þórður Snær ætti að velta fyrir sér næst þegar hann skrifar leiðara hvaða verðmæti hann er að skapa.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .