*

mánudagur, 19. apríl 2021
Óðinn
3. mars 2021 07:20

Harðbrjósta heilbrigðisráðherra

Óðinn ræðir þá ákvörðun heilbrigðisráðherra að Landspítalinn og heilsugæslustöðvar sjái nú um krabbameinsskimanir.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Allir þeir sem trúa á kerfið - en ekki manninn - ættu í það minnsta að efast þegar rekstur heilbrigðiskerfisins er skoðaður undanfarin misseri.

Heilbrigðisráðherra og heilbrigðisyfirvöld hafa fullkomlega brugðist við að afla okkur bóluefna gegn Covid 19. Af einhverri óskiljanlegri ástæðu ákváðu íslenskir kommissarar að treysta á kommissara Evrópusambandsins. Afleiðingin er sú að við erum langt á eftir löndum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi í bólusetningunni - svo ekki sé minnst á fyrirheitna landið Ísrael.

* * *

Landspítalinn tók nýlega yfir skimun fyrir krabbameini í brjóstum og heilsugæslustöðvar tóku yfir krabbameinsleit í leghálsi.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið en um 50 konur deyja vegna brjóstakrabbameins á hverju ári á Íslandi.

* * *

31 greinast á ári

Af einhverjum óútskýrðum og óskiljanlegum ástæðum var ákveðið að hækka aldurshóp þeirra sem boðið er upp á skimun á brjóstakrabbameini úr 40 árum í 50 ár. Þetta er gert þrátt fyrir að árin 2015-2019 greindust árlega að meðaltali 31 brjóstakrabbamein hjá konum á aldrinum 40- 49 ára.

* * *

Skimunarráð reyndi að verja þessa ákvörðun í grein á visi.is þann 14. janúar. Í greininni segir að „eiginlega allar þjóðir miði við að hefja skipulega skimun fyrir brjóstakrabbameinum hjá einkennalausum konum við 50 ára aldur." Þar sagði svo:

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) gefur út viðmið um krabbameinsskimanir. Sérfræðingahópurinn er skipaður vísindafólki víðs vegar frá Evrópu og telur um 60 manns. Niðurstaðan í dag er að framkvæmdastjórnin mælir  ekki  með skimun fyrir brjóstakrabbameini hjá einkennalausum konum á aldrinum 40-44 ára. Fyrir aldurinn 45-49 er skimun á 2 til 3 ára fresti einungis lögð fram sem tillaga. Notað er orðalagið „suggest." Um vísindalegan bakgrunn þessarar tillögu er sagt: „Moderate certainty of the evidence". Um aldurinn 50-69 er mælt með skimun á 2 ára fresti. Notað er orðalagið „Strong recommendation."

Þetta er allt saman ágætt hjá Evrópusambandinu og skimunarráði - en hvar eru rökin? Þau er ekki að finna í þessari grein á sama tíma og Krabbameinsfélag Íslands og læknar þess hafa ítrekað fullyrt að það sé rétt að skima frá 40 ára aldri.

* * *

Evrópusambandið og evrópskar leiðbeiningar

En það sem meira er, þá er vikið frá evrópskum leiðbeiningum um skimanir. Á þetta er bent í fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélaginu frá 11. janúar. Þar segir:

Landlæknir hafði lagt til að farið yrði eftir evrópskum leiðbeiningum við skipulag skimana fyrir krabbameinum - en þar er mælt með skimun 45-49 ára kvenna. Fagráð um brjóstakrabbamein mælti einnig með því að hefja skimun við 45 ára aldur. Með nýju fyrirkomulagi víkja landlæknir og skimunarráð frá evrópsku leiðbeiningunum og áliti fagráðs um brjóstakrabbamein án þess að það sé rökstutt sérstaklega.

Þetta mál er allt með ólíkindum. Það er enn óskiljanlegra hvers vegna þetta gerist án þess að útskýra þessa ákvörðun vel og vandlega fyrir almenningi - þá ekki síst konum. Það er þekkt í læknavísindum að sjúkdómar séu ofgreindir. En hver er raunveruleg áhættan á því með brjóstakrabbamein. Óþarfa áhyggjur og angist þeirra sem greindar eru? Óþarfa aðgerðir? Varla ótímabær dauði, eða hvað?

* * *

Óðinn skilur reiði og gremju fólks vegna þessa máls. En það sem það sem Óðinn hefur ekki síður áhyggjur af að þetta valdi andvaraleysi hjá konum sem eru ekki á skimunaraldri og hreinlega að hið opinbera stofnanakerfi, sem heilbrigðiskerfið er svo sannarlega, sýni tregðu þegar konur undir ríkisskimunaraldri óska eftir skimun.

Það er einmitt staðan þegar kemur skimun fyrir krabbameini í ristli. Heilsugæslulæknar horfa sumir hverjir stórum augum á þá sem óska eftir að fara í ristilspeglun í kringum fertugt. Jú, því að meðaltalið sýnir að þeir eru alltof ungir.

* * *

Meðaltal sem mælikvarði

Ristilkrabbamein er annað algengasta krabbameinið sem greinist á Íslandi og er einnig í öðru sæti þegar kemur að krabbameinum sem dánarorsök. Meðalaldur við greiningu er 68 ár hjá körlum og 71 ár hjá konum en sjaldgæft er að fólk greinist fyrir fimmtugt.

* * *

En það greinist fólk fyrir fimmtugt og það deyr fólk fyrir fimmtugt. Skimunarráð lagði til að hafin verði frumskimun fyrir ristilkrabbameini í aldurshópnum 50-74 ára, samkvæmt evrópskum ráðleggingum, þrátt fyrir að nýgengni ristilkrabbameins vaxi hratt upp úr fertugu.

* * *

Ofgreining er nánast útilokuð í ristilkrabbameini. Í áliti skimunarráðs á skimun fyrir krabbameini í brjóstum, leghálsi, ristli og endaþarmi frá því í október 2020 er fjallað um hættuna samfara ristilspeglun.

Skaði vegna skimunar á krabbameini í ristli og endaþarmi er bundinn við áhættu vegna ristilspeglana og við aðgerðir sem gerðar eru til að fjarlægja sepa í ristli. Getur það falist í blæðingum og áverkum á ristli.

Ekkert kemur fram um hversu algengt þetta er í álitinu og leyfir Óðinn sér að efast um að þetta sé algengt vandamál. En hvers vegna fjallar skimunarráð ekki um tölfræðina?

* * *

Ristilkrabbamein er lengi að koma fram. Frá því að sepa verður vart þar til að illkynja krabbamein verður til líður um það bil áratugur. Hvers vegna í ósköpunum er fólki undir fimmtugu ekki gefinn kostur á að fara í skimun, jafnvel þó að það sé á þeirra kostnað?

* * *

Forsjárhyggjan

Vandi íslenska heilbrigðiskerfisins eru mikill. Einn er sá að það er lítið valfrelsi í kerfinu. Ríkisvaldið ákveður allt of mikið hvað fólk gerir. Það er eðlilegt að stjórnvöld ákveði hvaða þjónustu ríkisvaldið kostar og kostar ekki. En einstaklingurinn á að geta valið sjálfur að verða sér úti um þjónustu ef hann vill og þá er lækna að upplýsa um hugsanlegar áhættu því samfara.

* * *

Ef þrítug kona vill fara í ristilspeglun, til dæmis vegna þess að vinkona hennar á sama aldri lést af völdum krabbameins í ristli, þá er það hennar ákvörðun.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.