*

laugardagur, 18. september 2021
Óðinn
23. júní 2021 07:04

Háskattalandið Ísland og prófkjör Sjálfstæðisflokks

„Þetta er skelfileg staða. Ekki fyrir þá ríku og tekjuháu, heldur þá sem eru með lágar og meðaltekjur.“

Bergþór Ólason og Bjarni Benediktsson skrifuðu greinar í Morgunblaðið á laugardag.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, skrifaði aðsenda grein í Morgunblaðið á þriðjudag með fyrirsögninni Lækkum skatta!

Tilefni greinar Bergþórs er grein Bjarna Benediktssonar frá því á laugardag í sama blaði þar sem Bjarni fór yfir skattalækkanir á þessu kjörtímabili.

Óðinn verður að viðurkenna að hann hefði nú ekki skrifað þá grein því uppskeran er ansi rýr, svo ekki sé fastar að orðið kveðið. Á því kunna hins vegar að vera margar skýringar og kannski einna helst sú að bílstjórinn í ríkisstjórnarsamstarfinu, sá Vinstri græni, vill hækka skatta en ekki lækka.

Til að bæta upp fyrir það hefði formaður Sjálfstæðisflokksins hins vegar mátt tala meira fyrir stefnu flokksins í samstarfinu svona til þess að kjósendur hans gleymi ekki fyrir hvað hann stendur. Hugsanlega telur formaðurinn rétt að gera það ekki í miðjum klíðum á kjörtímabilinu en hann hefur núna tækifæri til þess fyrir kosningarnar í haust. Það eru nefnilega töluverðar líkur á að Sjálfstæðisflokknum geti vegnað vel í kosningum ef talað er af festu fyrir hugsjónum flokksins, ekki síst um lægri skatta.

* * *

Bergþór Ólason, sem er nú sjálfstæðismaður þótt í röngum flokki sé, nefnir tvö atriði í grein sinni sem skipta miklu. Eftir að hafa farið yfir helstu skattalækkanir á kjörtímabilinu í stuttu máli, enda lítið að tala um, segir hann í grein sinni:

En vandinn er að þetta er fjarri því nóg að gert – fólkið og fyrirtækin þurfa lægri álögur og svigrúm til að vaxa, dafna og skapa ný tækifæri.

Staðreyndin er sú að Ísland mælist í 2. sæti á skattalista OECD sem þýðir að íslensk þjóð er sú næstskattpíndasta af þeim 37 ríkjum sem mynda OECD. Mælingin tekur tillit til mismunandi fjármögnunar lífeyriskerfa en eftir stendur að Ísland er háskattaland.

Þetta er skelfileg staða. Ekki fyrir þá ríku og tekjuháu, heldur þá sem eru með lágar og meðaltekjur. Þeir ríku og tekjuháu geta flutt sig um set og gera það ef það er skattalega hagkvæmt. Ekki hinir.

Sameiginlegi reksturinn kostar of mikið og sóunin er of mikil, rétt eins og Bjarni Benediktsson hefur bent á. En hvað hefur verið gert í því? Fátt og lítið.

* * *

Framboðslistarnir
Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið stór prófkjör víða um land og er í raun eini flokkurinn sem fer þessa lýðræðislegu leið við val á framboðslistum. Þá telur Óðinn ekki með prófkjör sem einhverjir tugir manna taka þátt í – sem virkar á allt venjulegt fólk eins og eitthvert grín.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík var sérstaklega vel heppnað hvað varðar þátttöku enda tveir sterkir frambjóðendur að berjast um fyrsta sætið. Flestir áttu erfitt með að spá fyrir um úrslitin og voru þau jafnari en flestir bjuggust við.

Það var óheppilegt, svo ekki sé meira sagt, að sá sem vann prófkjörið skyldi missa stjórn á tungu sinni þegar leið á kvöldið fyrir framan síma stuðningsmanna sinna. Kenning hans um að einhver öfl hafi verið á móti honum stenst ekki og ekki eru nokkrar líkur á öðru en að það verði hrakið við ágætt tækifæri. Staðreyndin er sú að sá sem keppti um sætið við hann naut einfaldlega mikils fylgis. Ekki vegna þess að hún er kona, ekki vegna þess að hún er ung, heldur vegna þess að fólk hefur trú á henni og hún hefur staðið sig vel – það staðfestir niðurstaða prófkjörsins.

Hún er nefnilega komin á villigötur umræðan um karla og konur í Sjálfstæðisflokknum. Flestum er alveg innilega sama um kyn frambjóðenda og þingmanna svo lengi sem þeir tala fyrir stefnu flokksins þannig að sómi er að. Slakur árangur karla og kvenna í einstaka prófkjörum verður nær alltaf útskýrður með öðrum hætti en kyni þeirra. Oftast eru þeir einfaldlega ekki nægilega þekktir, umdeildir eða einfaldlega slakir frambjóðendur. Í prófkjörinu í Reykjavík voru konurnar flestar mjög frambærilegar sem skýrir árangur þeirra.

* * *

Í Suðvesturkjördæmi var prófkjörinu varla lokið þegar heyrðust þær raddir að það vantaði konur á listann. Auðvitað vantar konur á listann. Þingmenn hafa mikið forskot á þá sem nýir eru og það kom og í ljós. Einn karl og ein kona komu þar á eftir og má segja að þau hafi verið helsta nýjabrumið á listanum.

Það vekur þó alveg sérstaka athygli hvað sá sem endaði í 2. sæti listans fékk slaka útkomu í sætið. Jón Gunnarsson hefur verið alþingismaður í 14 ár, verið ráðherra fyrir flokkinn og er ritari hans. Hann fékk aðeins 24% atkvæða uppsafnað í sætið. Vissulega voru margir um sætið en það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni fyrir þingmanninn svo slakt gengi.

Sú sem er í öðru sæti á listanum í dag og endaði í þriðja sæti í prófkjörinu er Bryndís Haraldsdóttir. Hún fékk 23,8% atkvæða í 2. sætið og 34,3% í þriðja sætið.

* * *

Baráttan í Norðaustur
Mikið var rætt um það í aðdraganda prófkjöra að Þórdís Kolbrún Gylfadóttir varaformaður, sem nú er búsett í Kópavogi, myndi flytja sig milli kjördæma og fara fram í Suðvesturkjördæmi. Ekki veit Óðinn hvort Þórdís velti þessu alvarlega fyrir sér en það hefði getað komið flokknum til góða.

Í fyrsta lagi var engin sterk kona í þessu sterkasta kjördæmi Sjálfstæðisflokksins. Í kosningum 2017 fékk flokkurinn 30,9% atkvæða og fjóra menn kjörna. Tíu árum áður, árið 2007, fékk flokkurinn 42,6% atkvæða og sex menn kjörna. Þarna er því mikið sóknarfæri.

Í öðru lagi hefði varaformaðurinn getað leyst erfitt mál sem virðist vera stækkandi í Norðvesturkjördæmi. Að fara gegn sitjandi oddvita. Varaformaðurinn gat ekki með góðu móti verið á eftir óbreyttum þingmanni á listanum en hefði hann flutt sig í Suðvesturkjördæmi hefði formaðurinn einn verið á undan.

* * *

Haraldur sagði í fyrradag að hann tæki ekki sæti á listanum ef hann ynni ekki prófkjörið. Þetta hefur hann víst sagt síðan í febrúar. Rök hans eru þau að ef hann er felldur þá eigi hann að gefa nýjum oddvita svigrúm. Verður ekki annað sagt en þetta séu málefnaleg rök þó þau sé ef til vill ekki skynsamleg á síðustu dögum prófkjörsbaráttunnar.

Þessum orðum reiddust margir, þó aðallega konur innan Sjálfstæðisflokksins, og Edda Björgvinsdóttir. Þær segja þetta hótun. Það kann að hafa hljómað þannig en var það þannig?

Óðinn hallast að sjónarmiði Brynjars Níelssonar um leið og hann vill nefna að það er mikilvægt fyrir Sjálfstæðisfólk að standa þétt að baki þeim sem tala fyrir hugsjónum hægri manna og berjast við kommúnistana, hvar í flokki sem þeir standa. Mönnum eins og Brynjari, og er rétt að nota tækifærið og hvetja Brynjar eindregið til að hætta við að hætta.

Ég undrast mjög ofsafengin viðbrögð nokkurra flokkssystkina minna við heiðarlegu svari Haraldar Benediktssonar um að hann léti gott heita ef honum yrði hafnað í prófkjöri sem áframhaldandi oddvita sjálfstæðismanna í Norðvestur kjördæmi. Þetta hefur legið fyrir í marga mánuði og verið á flestra vitorði. Þessi upphlaup núna eru augljóslega til þess að hafa áhrif á niðurstöðu prófkjörsins. Freki kallinn í þessari sögu er ekki Haraldur Benediktsson. Hann gerði ekkert annað en að segja satt aðspurður. Það er allur glæpurinn.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.