Talsmenn Viðskiptaráðs skrifuðu greinina „Reiðir pennar sem svar við grein minni „Þá sjaldan Viðskiptaráð Íslands segir rétt frá“, en sú grein mín hafði einmitt verið svar við grein Viðskiptaráðs „Viljandi misskilningur“. Þar áður hafði Oddný G. Harðardóttir skrifað greinina „Forréttindi útvalinna“ sem að ég taldi að Viðskiptaráð væri að að svara með greininni „Viljandi misskilningur“. Það er þó mögulega misskilningur hjá mér. Nú eða um einn annan viljandi misskilning er að ræða hjá Viðskiptaráði. Skoðum á hverju það byggist:

Greinin „Viljandi misskilningur“ hefst á þessari beinu tilvitnun úr grein Oddnýjar „Þeir sem fá fjármagnstekjur greiða því lægri skatta en launamenn“. Full tilvitnun úr grein Oddnýjar væri hinsvegar:

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Skattinum hagnast flestir af tekjuhæsta eina prósentinu af auðlindum þjóðarinnar og allir þeir sem greiða meira en 300 milljónir króna í fjármagnstekjuskatt eru útgerðarmenn – nema einn. Skattur af fjármagnstekjum er 22% og ekkert útsvar rennur af þeim tekjum til sveitarfélaga. Þeir sem fá fjármagnstekjur greiða því lægri skatta en launamenn.

Auðséð er að Oddný beinir orðum sínum að ríkasta fólki landsins. Því ætlaði ég að grein Viðskiptaráðs, sem hefst jú á beinni tilvitnun í Oddnýju, væri einnig að ræða um þær fjármagnstekjur og gagnrýndi Viðskiptaráð fyrir slakan samanburðar hóp í umfjöllun sinni. Það sem hefur ef till vill ruglað mig enn frekar er að almenna umræðan um fjármagnstekjuskatt fjallar um hvernig þeir sem hafa háar fjármagnstekjur eru skattlagðir lágt, kannski vegna þess að 81% fjármagnstekna á Íslandi renna til tíu prósent tekjuhæstu íslendinganna (og enginn yrði hissa ef mestmegnið af því færi til ríkasta 1 og 0,1 prósentsins). Hinsvegar virðist Viðskiptaráð ekki hafa verið að ræða um fjármagnstekjuskatt í sama samhengi og Oddný heldur í 100% almennu tilfelli fyrir eina handahófskennda krónu fjármagnstekna. Í öllu falli held ég að Viðskiptaráð hafi ekki lesið grein Oddnýjar því þau segja í nýjustu grein sinni (Reiðir pennar):

Doktorsneminn finnur að því að Viðskiptaráð hafi ekki skoðað sérstaklega skattbyrði tekjuhæsta eins prósents Íslendinga. Hann vísar til greinar Oddnýjar G. Harðardóttur um fjármagnstekjur. Oddný fjallar ekki um þetta í tilvitnaðri grein.

Íslenska skattkerfið

Til að allir séu á sömu blaðsíðu er einfaldast að fara yfir skattkerfið okkar frá grunni. Á Íslandi er skattað af nafnfjárhæðum. Það gildir bæði um launatekjur og fjármagnstekjur.

Tekjuskattur launatekna hefur þrjú þrep: 31,45% ; 37,95% og 46,25%. Þess til viðbótar er 53.916kr mánaðarlegur skattaafsláttur, nefndur persónuafsláttur, sem hver einstaklingur fær. Því kann að vera að launatekjur séu ekkert skattaðar ef skattgreiðslan væri lægri en persónuafslátturinn, en kann einnig að vera upp í 46,25%.

Fjármagntekjur hafa hinsvegar flatan 22% skatt (nema t.d. leigutekjur sem fá 50% afslátt) til viðbótar við 5.500kr skattaafslátt á mánuði (22% af 300.000kr frítekjumörkum á ári). Þess til viðbótar er almennur tekjuskattur lögaðila (fyrirtækja) 20%. Því kann hámarksskattur á eina krónu af tekjum sem fyrirtæki fær í hendurnar og endar svo í vasa fjárfestis að vera 37,6%. Líkt og með launatekjur gæti skattheimtan líka verið engin, t.d. ef um væri að ræða söluhagnað fjárfestis vegna fjárfestingar þegar um er að ræða verðhækkun sem hafði ekki raungerst á fyrirtækjastiginu en þó það lítill að hann er innan skattleysismarka ársins. Dæmi: Þú færð að kaupa í Íslandsbanka á afslætti því þú átt rétta vini, skömmu síðar selur þú bréfin aftur með hagnaði. Þessi hagnaður hafði aldrei komið sem tekjur inn í Íslandsbanka og enn síður verið skattlagður þar. Því er skattlagningin 22% mínus skattaafsláttur ársins, sem gæti verið núll.

Ef við erum að ræða um algjörlega fræðilega og handahófskennda eina krónu sem á að skattleggja þá er ekki hægt að segja að hún sé alltaf skattlögð hærra eða lægra með öðrum skattinum. Það er alveg rétt hjá Viðskiptaráði. Hinsvegar getum við alveg fullyrt að fjármagnstekjur geta aldrei verið skattlagðar jafn hátt og launatekjur geta verið. Í umræðunni um skilvirkt og gott skattkerfi er það vandamál því það ýtir undir það að þeir sem hafa háar tekjur eru betur settir ef þær eru fjármagnstekjur en ef þær eru launatekjur (að ógleymdu hagræðinu að losna við launatengd gjöld!). Það þýðir þar með að margir þeirra sem hafa tækifæri til þess að færa hluta tekna sinni frá launatekjum yfir í fjármagnstekjur gera það. Viðskiptaráð þykist þó ekki kannast við að þetta sé stórt vandamál og að telur fullyrðinguna órökstudda. Nú veit ég ekki hvort að Viðskiptaráð telji mig eiga að færa sér öll gögn um skattheimtu áður en þau tjá sig en ljóst er að skýrsla ASÍ frá 2021 mat svo að íslenska þjóðin verði af þrem til átta milljörðum króna árlega í skatttekjum vegna þessara áhrifa, svo rökstuðningurinn er sannanlega til staðar[1]. Þá er rétt að leggja áherslu á að líkt og í Íslandsbanka dæminu að ofan þá verða oft miklar sviptingar á fjármálamörkuðum vegna breytinga á skynjuðum markaðsaðstæðum sem valda því fjárfestar geta raungert hagnað sem hefur aldrei raungerst innan fyrirtækis. Það þýðir að hámarks skattbyrði á slíkum hagnaði væri 22% og því langt fyrir neðan skatt á launatekjur, sem er raunin fyrir marga fjárfesta.

Hér er vert að bæta við að umræða um hina algjörlega fræðilegu krónu tekna er ekki til þess fallin að bæta umræðuna eða koma henni á hærra plan. Við lifum nefninlega á Íslandi þar sem það er alveg ljóst að lang stærsti hluti fjármagnstekna fellur til lítils hóps fólks. Sá hópur hefur slíkar tekjur að ef tekjurnar væru launatekjur væru þær mun hærra skattlagðar. Það er umræðan. Það er það sem Oddný var að tala um, nú og allir aðrir nema tveir pennar hjá Viðskiptaráði.

Svo í stuttu máli þá er skattað á Íslandi af nafnfjárhæðum, samanburður á fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti sýnir að það veldur oft óhagræði að þessir skattar endi ekki í sömu skattlagningu og að kerfið er í reynd fjármagnstekjum í hag, þá sér í lagi fyrir þá sem eru efnamiklir.

En hvað með virka skatta?

Virkir skattar eru nafn á raunverulega greiddan skatt. T.d. er virkt skatthlutfall þess sem hefur 100.000kr í launatekjur á mánuði 0% því persónuafslátturinn er nógu hár til að dekka allar skattgreiðslur. Í umræðunni um fjármagnstekjuskatta er stundum farið að blanda verðbólgu inn í umræðuna og reynt að færa fyrir því rök að skattar á fjármagn eigi að vera lágir því annars væri heildarskattgreiðsla af fjármagninu svo hátt hlutfall af ágóðanum umfram verðbólgu. Eins og að verðbólga hafi áhrif á raunverulega greiddan skatt, sem hún gerir ekki. Viðskiptaráð vitnar tengt þessu sérstaklega í skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðuneytis svo að ég má til með að vitna í þessu samhengi í sömu skýrslu:

„... þar eð hluti afgjaldsins af notkun fjármuna er í eðli sínu greiðsla til að virði fjármuna haldist fast og sá hluti er í eðli sínu ekki tekjur.“

Hér eru rökin að þær tekjur sem þarf til þess að fjármunir haldi virði sínu séu ekki tekjur og ætti því ekki að skattleggja þær. Ef ég ætti að réttlæta þessa fullyrðingu þá væri það á þeirri forsendu að við verðum að gefa fjárfestum hvata til að fjárfesta en ekki að breyta öllum fjármunum sínum strax (eða óæskilega hratt) í neyslu. Það væri gert með því að leyfa fjármunum að sleppa við skattlagningu að því marki sem þeir haldi virði sínu á milli tímabila. Það kann að vera nokkuð til í því hvað hvatana varðar en er það einhver grundvöllur fyrir beinharðann samanburð á skatthlutfalli, virku eða ekki? Með sömu rökum má segja að virk skattbyrði á launatekjur sé verulega ýkt þar sem launamaður sem hefur laun sem eingöngu duga til þess að kaupa nauðsynjar og húsaskjól fær enga virðisaukningu á milli mánaða. Hann er einfaldlega mánuði eldri en engu betur settur. Þar með ætti skattbyrði hans að vera engin en eru þó alveg himin há samkvæmt „virkt skatthlutfall“ greiningu. En slík rök eru ekki vinsæl hjá Viðskiptaráði, þar er nefninlega flakkað svoldið á milli hvort við erum að tala um hina fræðilegu krónu, hver virk skattbyrði sé eða hvort við erum að ræða um hvatana sem stýra skattkerfinu (það þarf sem sagt enga hvata fyrir launamanninn, hann vinnur sama hvað).

Það er því ansi skrítið að koma fram og tala um einhverju ímyndaða virka skattbyrði á fjármagn og bera þá tölur við tekjuskatt launa án þess að minnast á annmarka á þeim samanburði eða þá að gera tilraun til að leiðrétta tekjuskatt launa um sömu neysluvísitölu eða, mun raunhæfar, horfa á „skatta af sannri virðisaukningu“ beggja. Munum nú að á Íslandi er skattað af nafnfjárhæðum, og af þessari stuttu umræðu má strax sjá að það er gert af ágætum ástæðum, t.d. að halda skattkerfinu sem einföldustu.

Skattkerfi heimsins, hvatar, vandamál og allt klabbið

Vandamál skattheimtu er ekki að erfitt sé að búa til skattkerfi sem skatti allar tekjur jafnt eða neitt slíkt. Vandinn felst í því að erfitt er að búa til skattkerfi sem þjóðir sjái sér hag í að taka upp. Grunnurinn að núverandi skattkerfi fyrirtækja í heiminum er um aldar gamall, byggir á því sem stundum er kallað „The 1920‘s compromise“. Kerfið var smíðað fyrir aðra tíð, tíð þar sem milli landa viðskipti voru umtalsvert minni, virðiskeðjur fjölþjóðlegra fyrirtækja voru langt um einfaldari og flest öll viðskipti áttu sér stað í vörum en ekki þjónustu eða óefnislegum gæðum (e. Intangibles). Kerfið hefur vissulega verið uppfært í tímans rás en þó eru umtalsverð vandamál til staðar. Til að mynda vakna flóknar spurningar eins og hvar verður virði til? Ef við vitum ekki hvar virði verður raunverulega til getum við illa ákvarðað hvar rétt sé að skattleggja. Tökum Iphone sem dæmi. Verður virðið til þar sem síminn er settur saman? Eða kannski þar sem hugbúnaðurinn var hannaður? Nú eða þar sem kúnninn er, því án hans raungerist virðið jú ekki, síminn situr bara eins og hver annar steinn inni á lager. Skattkerfið okkar ræður einfaldlega illa við þessa og fjölda annarra spurninga. Því fylgja stór vandamál. Fyrirtæki geta því auðveldlega flutt skattgrunna sína á milli landa. Íslenskt dæmi er hvernig álverin nota vaxtatekjur til að flytja hagnað héðan og til lágskatta svæða. Aðrir setja himinháar upphæðir á hugbúnað sem er framleiddur á lágskattasvæðum svo þeir þurfi ekki að greiða skatta þar sem varan er samsett eða seld.

Svo hvert liggja hvatarnir? Jú þessir vankantar skattkerfisins hafa valdið því sem er kallað kapphlaupið á botninn. Í því felst að land A lækkar skatta til að laða að fjármagn / skattgrunn fyrirtækja. Þá bregst land B við með að lækka sína skatta niðurfyrir A, og svo koll af kolli. Endinn er svo botninn, enginn skattlagning. Vegna þessara áhrifa hefur skattlagning á fyrirtæki fallið um 15% að meðaltali á seinustu þrem áratugum, en eftirfarandi mynd sem rænt er úr bókinni „Taxing profit in a global economy“ sýnir fallið.

Þrátt fyrir þennan lækkunarspíral er hálf kaldhæðnislegt að ekki er einséð með að löndum takist almennt að auka vöxt sinn (e. Economic growth) þrátt fyrir lækkunina[1], en auðséð er að til langs tíma hagnast enginn nema fjármagnseigendur.

En hvað er þá til ráðs? Ef marka má tal frá hagsmuna aðilum eins og Viðskiptaráði er svarið alltaf að hækka alls ekki skatta á fjármagn, helst lækka þá til að fá hingað meira fjármagn og hugsa svo ekki um það meir. Ef þeim væri hinsvegar sannanlega annt um langtíma hagræði og góðar lausnir væru þau að mæla með að við tækjum virkan þátt með Evrópusambandinu í að þróa skattabandalag og samstíga skattgrunn eins og verið er að gera (Ath, slíkt felur ekki í sér að hvert land ráði ekki eigin skattlagningu, heldur eingöngu að loka glufum sem er ekki hægt nema það sé gert samstíga). Eða þá að leggja áherslu á mikilvægi OECD/G20 skattaverkefnisins (Ísland er vissulega eitt þeirra 135 landa sem standa að því, en það fer ekki mikið fyrir því í umræðunni) og frekari þróanna á því sviði.

Hvert Viðskiptaráð talar kristallast ágætlega í umræðu þeirra um afhverju við búum við það skattkerfi sem við höfum (sjá „Til hvers erum við að þessu?“ í „Reiðir pennar“, sem byggir vissulega á umræðu frá Sørensen / fjármála- og efnahagsráðuneytisins). Þar eru rökin öll á þá leið að segja „Því við verðum að gera vel við fjármagnseigendur því annars fara þeir. Það þýðir ekkert að reyna gera betur“[2].

Samkvæmt Viðskiptaráði hafi þó öll rök mín verið hrakin. Nafnsköttun segir nefninlega ranga sögu, samanburður á virkum sköttum eins þáttar á móti eitthvað minna virkum sköttum annars þáttar er nefninlega mun betri mælikvarði, ASÍ veit ekkert hvað það syngur, að gera beinan samanburð á

greiddum sköttum sama hópsins m.v. almennan tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt er heldur ekki rétt, það er vitleysa að taka tillit til frestunar á skattlagningu fjárfesta (sem og eyðingu grunnsins innan fyrirtækis), Oddný var ekkert að tala um ríkasta fólk landsins o.fl. Þetta er allt bara spurning um einhverja fræðilega krónu sem fellur handahófskennt til, það er það sem allir eru alltaf að ræða ekki satt?

En það verðu ekki tekið af þeim, baraáttuþrek Viðskiptaráðs er jafnvel meira en Svarta riddarans í bíómyndinni „The Holy Grail“!

[1] Raunar sagði Sørensen sjálfur, sem skýrsla starfshóps fjármála- og efnahagsráðuneytisins vitnar til, að þetta væri helsti vandi þessa tvíþætta skattkerfis.

[2] Sjá t.d. Gechert, S. & Heimberger, P. (2021). Do corporate tax cuts boost economic growth?

[3] Ef við brjótum rökin hratt niður þá eru punktarnir : 1) Arður af fjárfestingu minnkar hvata til fjárfestingar. Það sjá allir að það á líka við laun en ennfremur á það bara við þar sem fjármagn getur leitað í lægra skattumhverfi til að ná hærri ávöxtun. S.s. „gefið okkur lága skatta eða við förum“. 2) Fjármagnstekjuskattur leggst á nafnávöxtun. Það á líka við um launatekjur, alveg þó það sé eitthvað sem skipti Viðskiptaráð litlu. 3) Fjármagn er hreyfanlega en vinnuafl. Jébb, bingó. Akkílesarhæll skattkerfisins sem á að leysa en ekki gefast upp fyrir. 4) Háir skattar valda bjaga. Það á bara við ef það eru veittar undanþágur og skattkerfið er heilt yfir ekki jafnt (e. Uniform). Svo bara meira tal um að gefast upp frammi fyrir fjármagnseigendum heldur en að skapa alvöru skilvirkt kerfi. 5) Háir fjármagnstekjuskattar leiða til allra taps. Þeir leiddu réttar reyndar til þess að meira var komið undan skatti, svo með lækkun skatta var aftur kjóað með þeim ríku til að þeir væru til í að borga. Enn á ný, þetta er staðan en að talandinn sé að við eigum bara að halda að þetta sé gott er fáránlegt.