*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Leiðari
19. nóvember 2021 11:59

Haustkosningar og þingskjal nr. 1

Með hliðsjón af vályndum veðrum, ríkisstjórnarmyndunum og fjárlögum er slæm hugmynd að kjósa að hausti.

Haraldur Guðjónsson

Að öðrum lögum ólöstuðum þá eru fjárlög hvers árs ein mikilvægustu lög sem Alþingi samþykkir. Endurspeglast það meðal annars í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands en þar er neglt í stein að fjárlagafrumvarp hvers árs skuli vera fyrsta þingskjalið sem lagt er fyrir nýtt þing þegar það kemur saman.

Grundvallarlögin mæla einnig fyrir um að þingið skuli koma saman fyrsta dag októbermánaðar en heimild veitt til að breyta því fyrirkomulagi með almennum lögum. Síðast þegar þingsköp Alþingis voru tekin til skoðunar sagði í nefndaráliti þingskapanefndar að eitt stærsta málið, sem varðaði skipulag og umgjörð þingstarfa ásamt ásýnd þingsins, væri samkomudagur og starfstími þingsins. Sumarfrí þingmanna var þá stytt og lagt til að þing kæmi saman annan þriðjudag septembermánaðar. Stærsti kosturinn við það fyrirkomulag var „vafalaust sá að þá kemur fjárlagafrumvarpið fyrr fram en nú er og þinginu gefast mun betri tími til“ að fjalla um frumvarpið.

Þegar þetta er ritað eru tæplega tveir mánuðir liðnir frá þingkosningum en sökum klaufagangsins í Norðvesturkjördæmi er ekkert fast í hendi um hverjir eru þingmenn, hvenær þing mun koma saman og hvenær fjárlagafrumvarpið birtist. Síðari tvö atriðin má að vísu rekja til þess fyrsta enda ekki legið á að skipta stólum milli flokka í ljósi tíðra vettvangsferða í blíðviðrisbæinn Borgarnes.

Þótt skiljanlegt sé í ljósi aðstæðna að menn flýti sér hægt, þá er rétt að minnast þess að varað var við áþekkri stöðu þegar ákveðið var að hafa kjördag að hausti til. Í kosningunum 2016 og 2017 var kjördagur síðla í október en í bæði skiptin var talað um fyrstu fjárlög eftir kosningar sem „embættismannafjárlög“. Átti það sérstaklega við í fyrra skiptið þegar ekki tókst að mynda stjórn fyrr en eftir áramót.

Þar er á ferð aðeins einn ókostur þess að halda kosningar að hausti. Sá augljósasti er að sjálfsögðu veðrið – þótt vorlægðir séu ekkert til að hrópa húrra yfir þá eru þær umtalsvert skárri en frænkur þeirra að hausti – og þá ennþá frekar ef undirbúningskjörbréfanefnd leggur til uppkosningu í Norðvesturkjördæmi. Samþykki þingheimur slíkt þarf ekki svartsýnismann til að ímynda sér að veður og færð geti spillt uppkosningu. Afleiðingin? Jú, uppkosning í kjölfar uppkosningarinnar á stöku kjörstöðum!

Við það bætist að kosningabaráttan nú var ein sú rólegasta í manna minnum, lítið fór fyrir málefnunum og sigurvegari kosninganna var slagorð sem beindist að kjósendum sem nenntu varla að kynna sér áherslur og áhersluleysi framboðanna. Umdeilanlegt er hvort kjördagur að hausti sé þar sökudólgur eða hvort áhugaleysi megi skrifa á fjölda örframboða – sem ekkert hafa fram að færa annað en að drepa umræðunni á dreif – en ljóst er að tímasetningin hefur ekki hjálpað.

Vonir kjörbréfanefndar standa til að niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en í næstu viku og formenn stjórnarflokkanna búast við því að nýr stjórnarsáttmáli verði kunngjörður um svipað leyti. Þá fyrst mun ekkert standa í vegi fyrir fjárlagafrumvarpi og hægt að taka það til meðferðar.

Miðað við það verður allt komið á fullt um mánaðamót nóvember og desember. Á þeim tíma er fyrstu umræðu vanalega löngu lokið, tugir umsagna hafa borist fjárlaganefnd og hún fjallað um frumvarpið í tæp tuttugu skipti á fundum sínum. Nú verður staðan aftur á móti sú að fjármálaráðherra mun mæla fyrir frumvarpinu þegar venjan er að nefndarálit og breytingatillögur liggi fyrir og stutt í að framsögumenn meiri- og minnihluta ýti annarri umræðu úr vör.

Með kosningum að hausti er hættunni á slíku boðið í kaffi fjórða hvert ár og þarf ekki klúður í framkvæmd kosninga til. Nægir þar að kjósendur gefi sitjandi stjórn rauða spjaldið, nýtt stjórnarmynstur blasi ekki við að kosningum loknum eða að erfiðlega gangi að ná saman um málefni til að setja í öndvegi.

Alkunna er að þegar fólk kemst í valdastöður þá gengur því misvel að stytta tíma sinn þar sjálfviljugt. Nú blasir þó við að slíkt er rétt að gera. Þingheimur, sama hvernig hann verður samsettur, ætti að sammælast um að treysta ekki veðurguðunum og láta kosningar fara fram að vori árið 2025. Fjárlög eiga betra skilið en að vera afgreidd líkt og hlutaverkefni sem eingöngu er skilað til að tryggja próftökurétt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.