Fréttablaðið birti forsíðufrétt í síðustu viku um þá staðreynd að Lyfjagreiðslunefnd getur að óbreyttu ekki samþykkt umsóknir vegna nýrra lyfjameðferða sökum þess að fjárheimildir eru ekki til staðar. Í kjölfarið var fréttin tekin upp af öðrum fjölmiðlum og umræður spruttu á samfélagsmiðlunum. Þegar um flókið mál er að ræða þarf ekki að koma á óvart að rökræða um staðreyndir getur fljótt farið á hinar mestu villigötur. En hreinskiptin umræða er nauðsynleg og til þess fallin að koma hreyfingu á mikilvæg mál.

Viðbrögð fjármálaráðherra við umfjölluninni eru til fyrirmyndar. Hann fór yfir þá staðreynd að hann og heilbrigðisráðherra hefðu í byrjun árs beitt sér fyrir því að tryggja viðbótarfjármagn við þá nýsamþykkt, en greinilega vanáætluð fjárlög til þess að fjármagna forgangslista Landspítalans.

Á þeim lista var þá fjöldi lyfja sem ekki stóð íslenskum sjúklingum til boða en var í notkun í samanburðarlöndum okkar. Þessi viðbót kom með öðrum orðum til móts við uppsafnaðan vanda, því hér hafði um árabil í raun verið lokað á ný sjúkrahúslyf sökum fjárskorts. En viðbótin sem slík virðist hafa dugað skammt og að miklu leyti farið í að fjármagna notkun sem var umfram áætlanir sjúkratrygginga. Sú staðreynd  segir okkur að áætlanagerð hins opinbera er ekki nægilega vönduð.

Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun eru heilbrigðismálin, nú í aðdraganda alþingiskosninga, mál málanna hjá kjósendum. Og það er að heyra á velflestum frambjóðendum að heilbrigðismálin verði tekin föstum tökum. Þess vegna skiptir yfirlýsing fjármálaráðherra á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins síðasta laugardag þess efnis að auka verði aðgengi að nýjum lyfjum miklu máli. En fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sem og aðrir frambjóðendur, þurfa að tala skýrt. Hvað felst t.d. í þeim orðum að auka aðgengi að nýjum lyfjum? Að við viljum tryggja fjármögnun nýrra lyfjameðferða til jafns við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum? Heilbrigð umræða kallar á skýr skilaboð sem þessi.