*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Óðinn
8. september 2021 07:04

Heilbrigðiskerfi á hausnum og Fréttablað

Óðinn skrifar um mismunun sem á sér stað milli rekstrarforma í heilsugæslu og Fréttablaðið.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Haraldur Jónasson

„Það hefur verið tilhneiging núverandi stjórnvalda að grafa undan fjármálalíkaninu en þegar fjármagn er veitt framhjá líkani í einstakar rekstrareiningar er verið að brjóta á jafnræði þegnanna til þjónustu. Sumir fá þá meira fjármagn en aðrir. Ekkert gagnsæi er í meðferð þeirra fjármuna. Heilsugæslan er grunnur heilbrigðiskerfisins og allir vita hvað gerist með hús sem byggir á sandi.“

Gunnlaugur Sigurjónsson, læknir og stofnandi Heilsugæslunnar Höfða

Samtök atvinnulífsins héldu ágætan fund í síðustu viku þar sem heilbrigðiskerfið var umfjöllunarefnið. Einn þeirra sem fluttu erindi var Gunnlaugur Sigurjónsson, einn stofnenda   Heilsugæslunnar Höfða sem er í dag stærsta heilsugæslustöðin á Íslandi með 22.500 skjólstæðinga. Heilsugæslustöðvar á Íslandi eru 19 í dag, þar af 15 ríkisreknar.

* * *

Á Norðurlöndunum er heilsugæslan að miklu leyti einkarekin. Í Noregi eru hún einkarekin að hluta og hluta í rekstri sveitarfélaga. Í Svíþjóð er vaxandi hluti heilsugæslunnar einkarekinn. Í Danmörku, Bretlandi og Hollandi er heilsugæslan einkarekin. Í öllum þessum löndum greiðir hið opinbera að mestu fyrir reksturinn.

* * *

Frá árinu 2017 hafa bæði opinberar og einkareknar heilsugæslustöðvar verið reknar eftir fjármögnunarlíkani þar sem markmiðið er að greiða sama verð fyrir sömu þjónustu. Þetta líkan á sér fyrirmynd frá Johns Hopkins spítalanum í Baltimore. Litið er til aldurs þess sem sækir þjónustu heilsugæslustöðvar, kyns, sjúkdómsbyrði og félagsstöðu.

Afköst heilsugæslunnar jukust mjög mikið við tilkomu fjármögnunarlíkansins eða um 10% árið 2018 og 18% árið 2019.

* * *

Sambærileg líkön hafa verið tekin upp víða í sænska heilbrigðiskerfinu. Á þetta benti Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi, m.a. annars á í erindi sínu á fundinum, en spítalinn starfar eftir líkani sem er sniðið að sjúkrahússrekstri.

* * *

En rekstrarformunum er mismunað í ríkisapparatinu. Gunnlaugur benti á að Landspítalinn seldi ríkisreknum heilsugæslustöðvum þjónustu vegna rannsókna á mun lægra verði en þeim einkareknu. Rannsóknir eru annar stærsti kostnaðarliður heilsugæslustöðvar, á eftir launakostnaði.

* * *

Þegar Heilsugæslan Höfða sóttist eftir samningi árið 2017 við Landspítala var henni boðið að greiða 165 krónur á rannsóknareiningu meðan ríkisreknu stöðvarnar greiddu 110 krónur á einingu. Að sögn Gunnlaugs gæti munurinn á rannsóknarkostnaði milli þeirra og ríkisreknu heilsugæslustöðvanna dugað til að fjölga læknum á stöðinni um 10%.

* * *

Einkareknum heilsugæslustöðvum er skylt að kaupa tryggingar vegna mistaka en ríkissjóður greiðir bætur vegna mistaka í ríkisreknu stöðvunum. Einnig fá ríkisreknu heilsugæslustöðvarnar virðisaukaskatt af þjónustuþáttum endurgreiddan, en þær einkareknu ekki.

* * *

Það sem var einna merkilegast í erindi Gunnlaugs er að aðeins 6 milljarðar króna af 12 milljarða króna framlögum til heilsugæslunnar fara inn í fjármögnunarlíkanið. Miklu fjármagni er veitt í miðlæga þjónustu og ekkert gagnsæi er í meðferð þeirra fjármuna. Má þar nefna Geðheilsuteymi, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og Þroska- og hegðunarstöð. Ekki var hægt að skilja Gunnlaug á annan veg en að menn hefðu áhyggjur af því að hluti þess fjármagns væri notaður til að greiða niður slakan rekstur ríkisheilsugæslustöðvanna , framhjá fjármögnunarlíkaninu. Þetta hljóta stjórnvöld að skoða.

* * *

Það er augljóst að skynsamlegt var að auka einkarekstur í heilsugæslu. Einkareksturinn hefur gert heilsugæslurnar hagkvæmari og þar með sparað skattgreiðendum verulega fjármuni. Nauðsynlegt er að jafna þann ábata nákvæmlega út. Og jafnframt að setja upp svipuð líkön á öllum heilbrigðisstofnunum um allt land þannig að hægt sé að bera saman rekstur þeirra byggðan á raunverulegum tölum.

Fréttablað í skurði

Þær eru dapurlegar fréttirnar af Fréttablaðinu þessa dagana. Þeir sem til þekkja segja að rekstrartapið á síðasta ári hafi numið tæpum hálfum milljarði á Torgi, útgáfufélagi Fréttablaðs, DV og Hringbrautar. Væri það tvöfalt verri afkoma en árið 2019, þegar tapið nam 212 m.kr.

* * *

Ritstjóraskipti voru á dögunum þegar Sigmundur Ernir Rúnarsson tók við af Jóni Þórissyni. Sigmundur er afbragðs sjónvarpsmaður og þættir hans á Hringbraut margir hverjir hið besta efni.

* * *

En Sigmundur Ernir virðist ekki skilja hugtakið fullveldi. Í leiðara í síðustu viku sagði Sigmundur Ernir:

Mikilvægasta fullveldisafsal hverrar þjóðar er að taka höndum saman við aðrar þjóðir í verslun og viðskiptum til að efla atvinnustig og afkomu almennings svo samfélagsþjónustan geti verið eins þróttmikil og kostur er. Fullveldi, eitt og sér, án þátttöku í milliríkjasamningum og alþjóðlegu samstarfi, ber í besta falli stöðnunina í sjálfu sér, en þó líklega miklu fremur afturför, jafnt fyrir almenning og atvinnugreinar í hvaða landi sem er. Því er nefnilega svo farið að fullveldi er nafnið tómt nema því fylgi efnahagslegt sjálfstæði.

Þetta er allt saman meiriháttar misskilningur. Þjóðir gefa ekki eftir fullveldi með viðskiptum og verslun. Miklu fremur að ef báðir aðilar hafa hag af viðskiptunum styrkir verslun og viðskipti og hvaða samvinna sem er fullveldi þjóða. Þá verður mesta framþróunin og framfarirnar.

* * *

Þjóðir glata fullveldi með þrennum hætti. Þær eru herteknar af öðru ríki. Þær missa stjórn á efnahag sínum og lenda undir hælnum á kröfuhöfunum. Eða þær gefa það frá sér með því að ganga í ríkjabandalag, á borð við Evrópusambandið. Allt eru þetta skelfileg örlög, misjafnlega þó.

* * *

Sigmundur Ernir telur að þrjár verst settu þjóðir heims séu helstu fullveldisþjóðir í heimi:

Þrjár helstu fullveldisþjóðir í heiminum eru líklega Kúba, Norður-Kórea og Venesúela. Þær eru einangraðar og efnahagslega afskiptar. Fullveldi þeirra er óumdeilt. En það er innantómt. Þær geta ekki séð fólki sínu farborða.

Fullveldi þessara þjóða er hreint ekki óumdeilt. Allar hafa þær þurft að treysta á önnur ríki við að halda þeim uppi. Sovétríkin sálugu héldu Kúbu uppi. Eftir fall Sovétríkjanna hefur ástandið á Kúbu verið skelfilegt. Það er rétt að þessar þjóðir geta ekki séð fólki sínu farborða. En það sem verra er, þær beita allar hermönnum til að halda þegnunum niðri. Mjög sennilegt er að einn daginn missi öll þessi ríki stjórnina. Þá teljast þau ekki fullvalda.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.