*

laugardagur, 26. september 2020
Óðinn
18. febrúar 2020 18:13

Heimasmíðuð kreppa og sveifluaukar

Sömu flónin og halda að fjármálaeftirlit geti komið í veg fyrir kreppur og gjaldþrot banka, hindra erlenda lántöku fyrirtækja.

Rannveig Sigurardóttir aðstoðarseðlabankastjóri og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sitja saman í Fjármálastöðugleikaráði Seðlabankans.
Gígja Einars

Ísland er í niðursveiflu. Það vefst ekki fyrir neinum, ekki einu sinni leikskólabörnunum sem hafa aðeins fengið að fara til útlanda einu sinni á ári síðustu tvö árin.

                                                                ***

Allar helstu hagstærðir líta hins vegar betur út en nokkru sinni áður. Íslendingar eiga meira að segja eignir umfram skuldir í útlöndum, en þær námu 650 milljörðum króna nettó um áramótin.

                                                                ***

En á sama tíma er atvinnulífið nánast frosið. Óðinn telur að aðallega séu þrjár ástæður fyrir því.

                                                                ***

Í fyrsta lagi eru opinberar álögur á atvinnulífið allt of háar. Tryggingagjald er enn hátt og er fimmtungi hærra en það var upp úr aldamótum. Fasteignagjöld sveitarfélaganna eru farin að bíta hressilega eftir að hafa tvöfaldast að meðaltali á fáeinum árum. Engu skiptir hvort fyrirtækin eiga húsnæði sitt eða leigja, gjöldin enda á þeim. Svo ekki sé minnst á reglugerðarríkið Ísland og útþenslu eftirlitsiðnaðarins.

                                                                ***

Í öðru lagi hafa kjarasamningar síðustu ára með gríðarlegum launahækkunum haft mjög slæm áhrif á rekstur flestra fyrirtækja á Íslandi. Ekki síst ferðaþjónustuna, sem er í eðli sínu láglaunagrein. Þar ber þó ríkisvaldið ekki minnsta sök með ofrausn, að ekki sé sagt mistökum, í samningum við starfsmenn í hinum ofvaxna opinbera geira, sem óhjákvæmilega hefur áhrif á launakröfur í einkageiranum.

                                                                ***

Í þriðja lagi er það aðgangur að lánsfjármagni og vaxtastigið. Óðinn hefur ítrekað varað Seðlabankann við því á undanförnum mánuðum að skortur á lausafé og lítið framboð af lánsfé, til dæmis vegna þess að Arion banki ætlar að minnka lánasafn sitt um 80 m.kr. á næstu misserum, geri þjóðarskútunni afar erfitt að komast upp úr núverandi öldudal.

                                                                ***

Vaxtalækkanir Seðlabankans hafa lítil sem engin áhrif á vexti á markaði vegna lausafjárskortsins, sem aftur hefur valdið lánsfjárskorti. Lánsfjárskortinn má meðal annars rekja til galinna hugmynda möppudýra um að hér fari aldrei aftur banki á hausinn ef aðeins eru lagðir á nægilega miklir eiginfjáraukar, sveiflujöfnunaraukar og verndunaraukar á bankana. Og þjóðinni er selt það falska öryggi.

                                                                ***

Allir þessir aukar þýða að fyrirtækin í landinu - rétt eins og almenningur (nema þeir sem fá að taka lán hjá lífeyrissjóðunum) - greiða hærri vexti.

                                                                ***

Þá eru vextirnir ekki aðeins að endurspegla áhættu tengda lántökunni og raunhagkerfinu, heldur ekki síður sköttum og tilbúnum byrðum, sem beinlínis eru til þess fallnar að sóa verðmætum en engin vissa er fyrir að nái uppgefnum markmiðum. Til þess að gera illt verra er kostnaðurinn að miklu leyti dulinn og raunar veit enginn hver hann er.

                                                                ***

Jú, það er kannski gaman að státa af því 12 árum eftir bankahrun að íslenska fjármálakerfið sé hið best fjármagnaða í heimi, en það kostar og bindingin öll tryggir að fjármunirnir nýtast ekki sem skyldi; það er innbyggt í hið nýja fjármálakerfi að það sé óhagkvæmt. Það er slæmt út af fyrir sig, en hitt þó hálfu verra, beinlínis skaðvænlegt, þegar verð peninga er af ásettu ráð bjagað, nei rangt.

                                                                ***

Eiginfjárkrafan sem stjórnvöld gera til stóru bankanna þriggja er frá 9,7%-11,4%. Að auki bætast eiginfjáraukarnir við sem eru 9,5%. Það fór að örla á krónuskorti árið 2017 sem hefur aukist. Á þessum tíma hafa eiginfjáraukarnir hækkað um 4,5 prósentustig, eða um þriðjung.

                                                                ***

Þetta eru miklu hærri og ríkari kröfur en almennt er gerðar til banka í Evrópu þrátt fyrir að margir þeirra, til dæmis í Þýskalandi og á Ítalíu, standi á brauðfótum og evrukreppa yfirvofandi.

                                                                ***

Þess utan er íslensku bönkunum óheimilt að notast við svokallaða innri matsaðferð (e. internal ratings-based approach) en samkvæmt henni metur lánastofnunin sjálf marga lykilþætti í lánsáhættu svo sem líkur á vanskilum lántakenda. Þetta þýðir að jafnaði að bankar geta nýtt eigið féð betur til útlána. Því er samanburður við evrópska banka jafnvel enn óhagstæðari en hinar formlegu eiginfjárkröfur segja til um.

                                                                ***

Með þessum gríðarlegu kröfum er verið að taka völdin og ábyrgðina af stjórnendum viðskiptabankanna og færa þá til Seðlabankans, sem nú hýsir fjármálaeftirlitið. Þar á bæ hafa menn hvorki hag né ástæðu til að taka neinar ákvarðanir nema hafa belti, axlabönd og fallhlíf og vera staddur í kjallara, svo vitnað sé í einn ágætan fyrrverandi seðlabankastjóra. Allir aukarnir eru til marks um einmitt þetta.

                                                                ***

Seðlabankastjórinn okkar, hinn ágæti Ásgeir Jónsson, varð kindarlegur þegar hann var spurður um þessi afturhaldstól, sem stjórnvöld hafa, á vaxtaákvörðunarfundi í síðustu viku. Þá sagði Ásgeir að hann gæti nú ekki svarað fyrir þetta, það væri sérstök nefnd sem ákvæði þetta. Hann gæti ekki svarað fyrir þetta á þessum vettvangi, þó hann, og reyndar aðstoðarseðlabankastjórinn einnig, sitji í nefndinni sérsöku og taki ákvörðun um þetta á öðrum vettvangi.

                                                                ***

Það er þó ekki aðeins svo að aukarnir allir bjagi gervallan fjármálamarkaðinn, leiði til rangra ákvarðana og sóunar, og grafi undan íslensku peningakerfi, sem flestum ætti þó að þykja nóg um.

                                                                ***

Þessir handaflsaukar geta einir og sér dýpkað kreppuna. Síðasta hækkun sveiflujöfnunarauka tók gildi í byrjun febrúar, en hún var ákveðin 19. desember 2018, fyrir rúmu ári síðan! Síðan þá hafa aðstæður í hagkerfinu hins vegar gjörbreyst til hins verra, eins og jafnvel starfsmönnum Seðlabanka Íslands ætti að vera kunnugt um.

                                                                ***

Í Peningamálum, sem Seðlabankinn gaf út 7. febrúar 2018 eða rúmum mánuði eftir að sveiflujöfnunaraukinn var ákveðinn, gerði Seðlabankinn ráð fyrir að hagvöxtur í fyrra yrði 3% og 2,7% á árinu 2020. Í nýjasta tölublaði Peningamála, sem gefið var út hinn 5. febrúar síðastliðinn, gerir Seðlabankinn ráð fyrir að hagvöxtur hafi verið 0,6% árið 2019 og verði 0,8% árið 2020. Það munar um minna!

                                                                ***

Þrátt fyrir það hafa þessar miklu breytingar á ytra umhverfi ekki haft minnstu áhrif á ákvarðanir Fjármálastöðugleikaráðs. Nefndin sérstaka, sem er svo hárnákvæm og vísindaleg að á fundum sínum ákvarðar hún hæfilegt eigin fé banka tólf mánuði fram í tímann með einum til tveimur aukastöfum, er með öðrum orðum fullkomlega ónæm fyrir raunstærðum úr hagkerfinu. Hún er mjög sérstök, þessi nefnd.

                                                                ***

Seðlabankinn hefur í dag áhyggjur af litlum útlánum til fyrirtækja, en hækkun sveiflujöfnunaraukans dregur einmitt úr útlánagetu bankanna. Það væri því nær að kalla þetta tæki nefndarinnar út í bæ, eins og seðlabankastjórinn virtist líta á nefndina, sveifluauka.

                                                                ***

Samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja versnar og versnar, en sömu flónin og halda að fjármálaeftirlit geti komið í veg fyrir kreppur og gjaldþrot banka, hafa komið í veg fyrir erlenda lántöku íslenskra fyrirtækja nema þau hafi tekjur í erlendri mynt. Íslensku bankarnir eru stútfullir af erlendri mynt sem þeir mega ekki lána út, eða öllu heldur fyrirtækin mega ekki fá lánaða.

                                                                ***

Helsta ólánið við bankahrunið er að sumir trúa því að embættismönnum sé betur treystandi til að reka fyrirtækin í landinu heldur en eigendum þeirra og stjórnendum. Að þeir, sem hvorki hafa vit né reynslu, séu betur til þess fallnir að reka fyrirtæki sem þeir þó aldrei koma nálægt, en hinir, sem lifa og hrærast í fyrirtækjunum, hætta peningum sínum og lífsafkomu til að standa í atvinnurekstri.

                                                                ***

Þetta er allt saman enn undarlegra í ljósi þess að verðbólgudraugurinn hefur ekkert látið sjá sig. Þvert á móti er verðbólgan innan markmiða Seðlabankans og líklegt að hún haldist þar næstu misseri. Og ef draugurinn myndi láta á sér kræla, þá hafa Seðlabankinn og stjórnvöld líklega aldrei verið í betri stöðu til að fást við verðbólgu og niðursveiflu.

                                                                ***

Gjaldeyrisvaraforðinn var 822 milljarðar króna þegar Óðinn gat auga að honum um áramótin og hefur aldrei verið stærri. Ríkissjóður er skuldléttur og því væri hægt að ráðast í verulegar innviðaframkvæmdir án þess að blása úr nös.

                                                                ***

Það er reyndar rannsóknarefni að raunvextir á 10 ára íslenskt ríkisskuldabréf séu 1,5%, en aðeins 0,1% á portúgalskt. Skuldir ríkissjóðs Íslands eru 18% af vergri landsframleiðslu en 123% í Portúgal. Ekki verður þó séð af lykiltölum að áhætta sé meiri hér en þar. En það er nú önnur saga, sem ef til vill verður sögð síðar.

                                                                ***

Það er vonandi að embættismennirnir og jafnvel ráðherrar efnahagsmála vakni til lífsins áður en þeir stranda þjóðarskútunni með því að hafa allt of mikla ballest og leggja hlekki og lóð á ræðarana. Það væri skipbrot, enn óskemmtilegra en samnefndir þættir á Ríkisútvarpinu þar sem ljúfmennið Sigurður Sigurjónsson, af öllum mönnum, reyndist vera skúrkurinn.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu þann 20. febrúar 2020. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.