Af öllum fríðindum sem bandarísk fyrirtæki bjóða upp á; ótakmarkaða frídaga, fúsballborðin, meistarakokkinn eða herðanuddið hefur mesta aukningin orðið í sporslum sem snúa að því að þurfa að mæta sjaldnar í vinnuna. Ekki af því vinnudagurinn hefur styst eða um hlutastörf er að ræða heldur einfaldlega eru starfsmenn farnir að sinna vinnunni heima við að minnsta kosti svona annað slagið.

Enda er auðvelt að ímynda sér rómansinn. Sitja í höfuðstað norðursins með útsýni austur í Vaðlaheiði, geta skroppið í Kristjánsbakarí um helgar en á sama tíma vinna fyrir stærsta tæknirisa í heimi. Fyrirtæki sem starfa fimm sinnum fleiri hjá í Sílíkondalnum en allir íbúar við Pollinn í Eyjafirði til samans. Þetta er raunveruleiki Theodórs Kr. Gunnarssonar sem samkvæmt frétt Verkmenntaskólans á Akureyri vinnur að uppbyggingu gagnavera Google í Evrópu, allt frá neðri hæðinni á heimili sínu á Akureyri.

Þótt okkur kunni að finnast saga Theodórs fjarstæðukennd eða fjarvinna eitthvað sem eingöngu nokkrir útvaldir á Vinnustofu Kjarvals geta leyft sér svona fyrir utan þá sem hreinlega neyðast til þess vegna sóttkvíar er fjarvinna ekki ný af nálinni.  Frá 1970 hefur hægt og rólega bæst í hóp þeirra sem vinna að heiman eða hafa tök á því.

Kostir fjarvinnu virðast nefnilega nokkuð ótvíræðir. Eitt eru þær 15.000 klukkustundir sem við og þjáningarbræður okkar verjum í umferðinni á hverju ári samkvæmt Samtökum iðnaðarins. Hitt eru svo jákvæðu áhrifin sem fjarvinnan hefur á sjálfa vinnuna. Rannsóknir hafa sýnt að allt að tvær og hálf klukkustund fara til spillis daglega hjá hefðbundnum kontóristum vegna truflunar á skrifstofunni. Tvær af hverjum þremur konum í rannsókn ritrýnda fræðiritsins „Konur í stjórnun“ segjast jafnframt vera minna frá vinnu vegna sveigjanleikans sem fjarvinna býður upp á og háskólinn í Manchester segir starfsfólk þrisvar sinnum líklegra til að starfa lengur en fimm ár hjá sama fyrirtækinu hafi það kost á fjarvinnu.

En fjarvinnan hefur auðvitað líka sína vankanta. Starfsfólk sem eingöngu sinnir starfi sínu í fjarvinnu er helmingi ólíklegra til að fá stöðuhækkun en þeir sem sitja alla daga á kontórnum. Jafnframt, þrátt fyrir alla truflunina, kýs meirihluti þeirra sem vinna bara fjarvinnu að snúa aftur á skrifstofuna. Ræðst það bæði af því hve erfitt getur reynst að aðskilja vinnu og einkalíf en hitt er svo kofaveikin, þessi einsemd að vinna bara heima með sjálfum sér allan daginn alla daga.

Þegar Marissa Mayer, þáverandi forstjóri Yahoo, stýrði fyrirtækinu í gegnum ólgusjó var eitt af hennar verkum að kalla fjarvinnufólkið aftur á skrifstofuna. Vildi hún meina, sem sannað þykir, að margar bestu hugmyndirnar í vinnunni kviknuðu við samkurl fólks hjá kaffivélinni. Það væru erfiðir tímar hjá Yahoo og nú þyrfti fólk að standa saman, sko bókstaflega. Þessa leið hafa svo fleiri stórfyrirtæki farið. Má þar nefna IBM sem sögðu að þótt fjarvinnufólkinu yrði bæði meira úr verki og klukkuðu inn fleiri vinnustundir en fólkið í básunum væri það fórnarkostnaður sem þau væru tilbúin að greiða. Þeirra stærsta áskorun væri nýsköpun og hún gerðist ekki öðruvísi en með núningi manna á milli.

Hvernig ætla ég núna að draga þetta saman eiginlega? Er þetta frábært eða er þetta glatað? Kannski leynist svarið í einhverju meðalhófi? Það er óþarfi að finnast maður vera jafn einangraður og Matt Damon í hlutverki Marsbúans í samnefndri kvikmynd eða með 365 daga skrifstofu-„streak“ eins og krakkarnir á Snapchat. Kannski er bara hvort tveggja betra. Dýnamíkin á kontórnum og kyrrðin heima fyrir. Því verkföllin ganga yfir og það mun veiran líka en vonandi er fjölgun í fjarvinnu komin til að vera.

Höfundur er markaðsstjóri Skeljungs.