*

laugardagur, 6. júní 2020
Týr
10. maí 2020 09:08

Heimsfaraldur og alþjóðamál

Þjóðríkið vaknaði sem aldrei fyrr við fyrsta Covid-hósta, hvað sem líður öllum Evrópusamruna.

epa

Menn hafa skeggrætt eitt og annað um hvað taki við eftir pláguna. Sumir tala af mikilli alvöru um það að mannlegt samfélag hafi tekið varanlegri breytingu, það verði ekki samt áður. Týr er svo sem ekki trúaður á það, þó vel megi vera að fólk fari gætilegar næstu mánuði; forðist mannþröng, þvoi hendurnar oftar og reyni að forðast annarra manna hnerra.

                                                                     ***

En það má hins vegar vel greina ýmsar breytingar í alþjóðasamfélaginu. Bandaríkin hafa um margt einangrað sig enn frekar en fyrr og ýmislegt bendir til þess að það kunni að vara lengur en margur hugði. Og hvað má þá segja um Kína? Það er hreint ekki ósennilegt að landið muni sæta verulegri einangrun af hálfu umheimsins þegar heimsfaraldurinn er genginn hjá.

Jafnvel þótt kommúnistastjórnin í Kína sætti ekki alþjóðlegri fordæmingu, þá má öruggt heita að ríki heims vilji ekki reiða sig jafnmikið á aðföng frá Kína og verið hefur undanfarin ár, þau hafa velflest brennt sig illa á því. Það mun valda öðru bakslagi í kínversku efnahagslífi, sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif á heimsbúskapinn allan. Má hann þó ekki við miklu.

                                                                     ***

Það er þó kannski ekki síður athyglisvert að horfa á atburðarásina á meginlandi Evrópu. Hvað sem líður Evrópusamrunanum öllum, þá gerðist hið sama þar og annars staðar í heimsþorpinu, að þjóðríkið vaknaði sem aldrei fyrr við fyrsta Covid-hósta. Á daginn kom að fjórfrelsið var hreint ekki sá heilagi bókstafur og öllum hafði verið sagt, þegar Þýskaland lagði blátt bann við útflutningi á heilbrigðisvöru og riðlaði þannig öllum aðföngum og aðdrætti í Evrópusambandinu.

Síðastliðnar sex vikur hafa svo reynst hinum sameinaða markaði ESB ákaflega erfiðar, þar sem öllum boðorðum um sameiginlegar leikreglur og hömlur á ríkisstuðning við atvinnugreinar hefur verið hent út um gluggann af ríkjum þvert og kruss um álfuna. Um það hefur Brussel ekki fengið neitt að segja. Bjargi sér hver sem betur getur.

                                                                     ***

Hitt er kannski verra að við þetta hafa sumir gengið á lagið. Þjóðverjar geta styrkt stórfyrirtæki í plágunni eins og þeim sýnist, en Miðjarðarhafslöndin ekki. Þar syðra hrynja nú fyrirtæki eins og spilaborgir, en þýsk fyrirtæki geta hirt þau og eignir þeirra á hrakvirði. Það mun ekki auka stöðugleikann í álfunni eða styrkja Evrópusambandið.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.