*

mánudagur, 25. október 2021
Thelma Kristín Kvaran
3. október 2021 13:02

Heimsmeistarar í jafnrétti

Það er enginn skortur á hæfum konum í íslensku viðskiptalífi. Þó er aðeins ein kona forstjóri félags í Kauphöllinni.

Haraldur Guðjónsson

Við þurfum ekki að líta mörg ár aftur í tímann til þess að sjá að eitt sinn var það stórfrétt þegar kona tók við starfi forstjóra hjá stórfyrirtæki, eins og þegar Rannveig Rist tók við starfi forstjóra Álversins í Straumsvík, árið 1996, 35 ára að aldri. Í fréttatilkynningunni, sem birt var um ráðningu hennar á sínum tíma, kom sérstaklega fram að ráðningin hefði ekki haft neitt með kynferði að gera heldur var Rannveig ráðin í starfið einfaldlega vegna þess að hún var hæfust! Síðan þá eru liðin 25 ár og á þeim tíma hafa konur barist fyrir því að vera jafnar körlum í stjórnum og framkvæmdastjórnum, með misgóðum árangri. Í dag er staðan enn langt frá því að vera ásættanleg.

Tólfta árið í röð er Ísland efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum, um kynjajafnrétti, samkvæmt árlegri skýrslu. Það má því segja að Ísland sé heimsmeistari í jafnrétti – en er það rétt?

Langt í land í átt að fullkomnu jafnrétti

Þrátt fyrir lög um jafnan rétt karla og kvenna og lög um kynjakvóta í stjórnum, hefur staða kvenna lítið breyst. Samkvæmt mælaborði Jafnvægisvogar FKA er hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja á Íslandi 26,5% og hlutfall kvenkyns forstjóra/framkvæmdastjóra 23,4%. Þess má geta að hlutfall kvenna í stjórnum hefur hækkað um 2% á síðustu 10 árum og á jafn mörgum árum hefur hlutfall kvenkyns forstjóra/framkvæmdastjóra hækkað um 3%. Á meðal þeirra 20 fyrirtækja sem eru skráð á íslenska hlutabréfamarkaðinum er eingöngu einn kvenkyns forstjóri. Það er ekki nóg að vera heimsmeistarar í jafnrétti ef munurinn á stöðu kvenna og karla er enn svona mikill.

Jafnrétti er mikilvægt samfélagsmál og ávinningurinn augljós, bæði fyrir vinnumarkaðinn og samfélagið. Rannsóknir hafa sýnt fram á að aukið jafnvægi kynja í stjórnendahópnum leiði til betri ákvarðanatöku og bæti efnahagslega afkomu fyrirtækja. Slíkar niðurstöður má m.a. sjá í rannsókn McKinsey & Company, þar sem rekstur yfir 1.000 fyrirtækja á heimsvísu var greindur. Niðurstöðurnar sýndu fram á að fyrirtæki með kynjajafnvægi í framkvæmdastjórn skiluðu meiri hagnaði. Þá geta fyrirtæki orðið eftirsóttir vinnustaðir fyrir framsækið fólk því rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að aukið jafnrétti eykur starfsánægju hjá báðum kynjum.

Vitundarvakning um kynjajafnvægi

Undirrituð starfar sem verkefnastjóri Jafnvægisvogarinnar samhliða starfi sérfræðings í ráðningum hjá Intellecta, þar sem ég sinni ráðningum æðstu stjórnenda og lykilstarfsmanna fyrir fyrirtæki og opinberar stofnanir. Í starfi mínu hef ég tekið eftir vitundarvakningu meðal viðskiptavina varðandi mikilvægi kynjajafnvægis og fjölbreytileika. Við fáum mun oftar beiðnir um að útvega stjórnendur af ákveðnu kyni til þess að bæta kynjajafnvægið innan fyrirtækis eða stofnunar.

Líkur sækir líkan heim

Undanfarin ár hafa verið forstjóraskipti í nokkrum stórfyrirtækjum, sem skráð eru í Kauphöllina. Í öllum tilfellum var karl ráðinn og starfið ekki auglýst. Í nýlegri rannsókn Ástu Dísar Óladóttur, Gylfa Dalmanns og Þóru H. Christiansen, þar sem tekin voru viðtöl við stjórnarkonur í skráðum félögum, kom fram að margar þeirra töldu ráðningarferlin vera of lokuð, ógagnsæ, óformleg og oft útilokandi fyrir konur. Þær bentu á að oft hafi fá eða jafnvel engin kvenmannsnöfn verið á lista þeirra ráðningarfyrirtækja sem fengin voru í verkefnið. Viðmælendur bentu einnig á að karlar tækju flestar ákvarðanir um ráðningarnar og að aðgengi kvenna að ráðningarferlinu hefði oftar en ekki verið takmarkað.

Líkur sækir líkan heim – karlar tóku flestar ákvarðanir þegar karlar voru ráðnir til starfa! Því er augljóst að mikilvægt er að huga að fjölbreytni í þeim hópi sem kemur til með að velja nýjan forstjóra, bæði í kyni og aldri. Þá er einnig mikilvægt að þær ráðningarstofur, sem fengnar eru til verksins, kynni sterka umsækjendur af báðum kynjum. Þá getur einnig verið vænlegt til árangurs að auglýsa forstjórastöður og aðrar lausar stjórnendastöður, í þeim tilfellum sem það er hægt.

Það er enginn skortur á hæfum konum í íslensku viðskiptalífi!

Ráðstefna Jafnvægisvogarinnar – Jafnrétti er ákvörðun!

Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu er unnið í samstarfi með forsætisráðuneytinu, Sjóvá, Deloitte, Pipar/TBWA og Ríkisútvarpinu. Verkefnið hefur verið í vinnslu frá árinu 2017 og hefur nú náð að festa sig í sessi enda sýna rannsóknir að aukinn jöfnuður kynja í stjórnunarstöðum stuðlar að betri árangri fyrirtækja. Árleg ráðstefna Jafnvægisvogarinnar,

Jafnrétti er ákvörðun, fer fram fimmtudaginn 14. október klukkan 14.00, og verður streymt í beinni útsendingu á www.ruv.is. Við sögu koma fyrirlesarar úr öllum áttum, sem allir munu fjalla um jafnrétti á sinn hátt. Þar má nefna Jón Björnsson, forstjóra Origo, Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan, Hildi Sigurðardóttur, mannauðsstjóra RÚV, Sigurð Brynjar Pálsson, forstjóra Byko, Sunnu Dóru Einarsdóttur, fjármálastjóra Deloitte, og Magnús Harðarson, forstjóra Nasdaq. Auk þess mun Eliza Reid forsetafrú flytja ávarp og veita viðurkenningar til þeirra aðila sem eru þátttakendur í Jafnvægisvoginni og hafa náð að jafna hlut kynja í efsta lagi stjórnunar. Skráning er hafin á heimasíðu Jafnvægisvogarinnar: www.jafnvaegisvogin.is og er aðgangur ókeypis.

Höfundur er sérfræðingur í ráðningum og meðeigandi hjá Intellecta auk þess að vera verkefnastjóri Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.