*

laugardagur, 4. desember 2021
Brynhildur Georgsdóttir
2. október 2021 13:43

Heimstorgið greiðir fyrirtækjum leið út í heim

Heimstorg Íslandsstofu var opnað á þessu ári til að hvetja íslensk fyrirtæki til að sækja inn á nýja markaði í þróunarlöndum.

Fram undan er mikilvægt verkefni Áveitunnar við að aðstoða fólk Í Búrkína Fasó við að veita vatni á akra og byggja upp sjálfbær ræktarlönd.

Áveitan á Akureyri hlaut á dögunum tæplega 30 milljóna króna styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins til uppbyggingar ræktunarlands í Búrkína Fasó. Styrkurinn er gott dæmi um árangursríkt samstarf atvinnulífsins, Heimstorgs Íslandsstofu og utanríkisráðuneytisins.

Starfsemi Áveitunnar í Búrkína Fasó, einu fátækasta ríki Afríku, samræmist vel markmiðum Íslands þegar kemur að stuðningi við atvinnuþróun í þróunarlöndum og víðar. Ríkjum heims er löngu orðið ljóst að uppbygging í fátækari löndum næst ekki með hjálparstarfi einu saman, heldur þarf að virkja þekkingu og drifkraft atvinnulífsins, fjárfesta í alls kyns rekstri og stuðla að sjálfbærri uppbyggingu.

Fjölbreytt tækifæri á Heimstorginu

Heimstorg Íslandsstofu var opnað á þessu ári til að hvetja íslensk fyrirtæki til að sækja inn á nýja markaði í þróunarlöndum og stuðla á sama tíma að sjálfbærum hagvexti og velsæld fyrir alla. Heimstorgið er upplýsinga- og vefgátt sem veitir meðal annars upplýsingar um leiðir til að fjármagna verkefni í þróunarlöndum og víðar. Á Heimstorginu er einnig að finna upplýsingar um aðstoð og þjónustu sem fyrirtæki eiga kost á hjá utanríkisþjónustunni, Stjórnarráðinu, ráðgjöfum og fyrirtækjum sem hafa starfað á svipuðum mörkuðum.

Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífsins

Heimsmarkmiðasjóður utanríkisráðuneytisins er dæmi um sjóð sem styður við uppbyggingarverkefni í þróunarlöndum. Á meðal íslenskra fyrirtækja sem hafa fengið styrk úr sjóðnum má nefna Creditinfo, Atmonia, BBA // Fjeldco og Áveituna. Að jafnaði er styrkjum úthlutað úr sjóðnum þrisvar á ári. Hægt er að sækja um styrk til 15. október næstkomandi. Fjárhæð til einstakra verkefna getur hæst orðið 200.000 evrur.

Íslenskt hugvit bætir lífsgæði

Áveitan hóf í sjálfboðaliðastarfi að setja upp vatnsdælur til að tryggja skólabörnum í Búrkína Fasó drykkjarvatn auk þess að aðstoða fjölskyldur barnanna við ræktun matvæla til eigin neyslu. Fyrirtækið hafði áhuga á að gera meira og með styrk Heimsmarkmiðasjóðsins verður það hægt. Landið er auðugt af vatni í jörðu en hefur skort tækni og þekkingu til að nýta það. Með fjárfestingu, tækni og nýsköpun getur landið orðið matvælabúr Afríku.

Fram undan er mikilvægt verkefni Áveitunnar við að aðstoða fólk Í Búrkína Fasó við að veita vatni á akra og byggja upp sjálfbær ræktarlönd. Þannig verður hægt að rækta fjölbreyttar landbúnaðarafurðir, fjölga störfum og bæta lífskjör. Upphaf verkefna Áveitunnar í Búrkína Fasó má rekja til ársins 2015 þegar hjónin Haraldur Pálsson og Jóhanna Sólrún Norðfjörð, eigendur fyrirtækisins, heimsóttu barnaskóla ABC í Bobo- Diolasso. Nú verða næstu skref tekin.

Íslensk fyrirtæki búa yfir margþættri þekkingu og lausnum sem geta nýst víða í heiminum. Fyrirtæki eru hvött til að kynna sér Heimstorgið á vefnum og Íslandsstofa er til staðar til að aðstoða.

Höfundur er forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.