*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Leiðari
11. janúar 2015 12:15

Heimurinn brást

Það er ekki hægt að leyfa hryðjuverka- og öfgamönnum að einangra þá sem nýta sér tjáningarfrelsið.

european pressphoto agency

Þegar danska blaðið Jyllands-Posten birti í septemberlok 2005 nokkrar teiknimyndir af Múhameð spámanni vissi menningarritstjóri blaðsins vel að hann væri að hætta sér út á hálar brautir. Hann gerði sér hins vegar ekki grein fyrir því hversu harkaleg viðbrögð umheimsins yrðu.

Starfsmönnum blaðsins og teiknurunum bárust morðhótanir og þurftu sumir þeirra sem í hlut áttu að fara huldu höfði um langt skeið. Mótmæli og óeirðir brutust út í sumum ríkjum þar sem íslamstrú er ráðandi. Sendiherrar íslamskra ríkja kröfðust þess að forsætisráðherra Danmerkur fordæmdi birtingu myndanna, sem hann neitaði að gera og sagði tjáningarfrelsi ríkja í Danmörku.

Hótanirnar, sem m.a. fólust í því að að pakistanskur stjórnmálaflokkur setti fé til höfuðs teiknurunum, voru að sjálfsögðu stórkostleg árás á þau grundvallarmannréttindi sem vestræn lýðræðishefð byggir á. Því var grátlegt að sjá hversu fáir fjölmiðlar voru tilbúnir að standa við bakið á Jyllands-Posten. Nokkur blöð, þar á meðal þýska blaðið Die Welt og hið íslenska DV, birtu myndirnar en aðrir sátu hjá. Raunar var óttinn slíkur að höfundum teiknimyndaþáttanna South Park var bannað að sýna mynd af spámanninum í þáttunum, en þeim hafði verið það frjálst nokkrum árum áður.

Uppgjöfin fyrir hótununum var því nær alger. Forsvarsmaður Sameinuðu þjóðanna í málefnum mannréttinda, Louise Arbour, taldi viðbrögðin við birtingunum frekar kalla á rannsókn á kynþáttahatri í Danmörku en að standa vörð um tjáningarfrelsið. Hér á landi voru fleiri sem gagnrýndu birtingar Jyllands-Posten og DV en vörðu tjáningarfrelsið.

Það er því hjákátlegt að sjá aðalritara Sameinuðu þjóðanna fordæma árásirnar sem gerðar voru í Frakklandi í gær. Að minnsta kosti tólf manns féllu þegar vopnaðir menn réðust inn á skrifstofur grínblaðsins Charlie Hebdo í París og tóku af lífi teiknara og aðra starfsmenn blaðsins. Charlie Hebdo er blað sem gefur engum grið í gríni og kaldhæðni og tekur þetta hlutverk sitt alvarlega. Svo alvarlega að ítrekað hafa þeir birt myndir af spámanninum, þrátt fyrir morðhótanir og íkveikjur. Myndirnar sem Jyllands-Posten og Charlie Hebdo birtu voru sumar ósmekklegar og vissulega má segja að með birtingu þeirra hafi að nauðsynjalausu verið að atast í heittrúuðum múslimum.

Það réttlætir hins vegar ekki öfgafull viðbrögð hatursmanna, hvað þá þá viðurstyggilegu árás sem framin var í gær. Hefðu stærstu fjölmiðlar heims staðið með Jyllands-Posten árið 2005 og allir birt myndir af Múhameð spámanni hefði það sent þau skilaboð að ekki væri hægt að þagga niður umræðu með hótunum og minnkað mjög hættuna sem af hryðjuverkamönnunum stafaði.

Þegar ráðist er gegn grundvallarmannréttindum með þessum hætti er aðeins eitt svar sem dugar. Hvaða skoðun sem aðrir blaðamenn eða ritstjórar hafa á myndefninu sjálfu þá er ekki hægt að leyfa hryðjuverka- og öfgamönnum að einangra þá sem nýta sér tjáningarfrelsið. Þetta frelsi er hjómið eitt ef það ver aðeins birtingu mynda af feitum köttum sem hata mánudaga.

Stikkorð: Charlie Hebdo
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is