*

föstudagur, 16. apríl 2021
Týr
21. mars 2021 11:32

Helgarpabbi með samviskubit

„Á undanförnu ári hefur íslenska ríkið þó breyst í helgarpabba með samviskubit, sem lætur veskið um að tjá umhyggju sína.“

Haraldur Jónasson

Það er endalaust hægt að deila um hlutverk hins opinbera. Í einföldu máli má segja að vinstri menn líti á ríkið sem dagmömmu. Í dagmömmuríkinu er flest bannað nema það sé sérstaklega leyft, ríkið og stofnanir þess passa að við högum okkur eins og stjórnmálamenn vilja, þeim sem slysast til að ganga vel er refsað með sköttum og þess er gætt að hinir duglegu hlaupi ekki of langt á undan þeim lötu.

Hægri menn líta á ríkið sem næturvörð. Næturvörðinn skiptir sér lítið af því sem þú gerir svo lengi sem þú truflar ekki aðra, hann gætir þess að gatan sé örugg, hann kallar í slökkviliðið ef það kviknar í og aðstoðar þig ef þú þarft á aðstoð að halda - allt gegn hóflegu gjaldi. Slíkt ríki er ekki til, því miður.

                                                                      ***

Ísland er öllu jafna dagmömmuríki. Á undanförnu ári hefur íslenska ríkið þó breyst í helgarpabba með samviskubit, sem lætur veskið um að tjá umhyggju sína. Við megum ekki fara í bíó, keilu eða gera neitt skemmtilegt, en við skulum samt kaupa sushi og dýr leikföng (þó þau dugi skammt).

                                                                      ***

Nú stendur til að gefa öllum ferðagjafir á ný, eins og þegar helgarpabbinn sendir krakkana út í ísbúð með pening fyrir litlum ís. Í síðustu viku var kynnt nýtt átak sem á að skapa 7.000 ný tímabundin störf. Það er eins og að kaupa nýjan tölvuleik sem aðeins er hægt að spila eina helgi.

                                                                      ***

Sé það vilji ríkisstjórnarinnar að efla atvinnulífið á Íslandi - og um leið íslensk heimili - eru til betri leiðir til þess. Það er hægt að lækka tryggingagjald, lækka tekjuskatt fyrirtækja, lækka fjármagnstekjuskatt, gefa skattaafslátt af hlutabréfakaupum og þannig mætti áfram telja. Það krefst þess þó að stjórnmálamenn hugsi ekki bara í kjörtímabilum eins og helgarpabbinn í skammtímalausnum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.