Kolefnisbinding i gróðri og jarðvegi er mikilvægur og arðvænlegur þáttur í efnahagslífi landsins landi. Okkur ber að vinna gegn alvarlegum loftslagsbreytingum og auka afurðir af hverjum hektara nytjalands um leið og gróðurlendi er stækkað þar sem það er legu landsins eðlilegt og samfélaginu gagnlegt. Undanfarið hefur sjálfsuppgræðsla aukist á allstórum landsvæðum og einnig er víða staðið að verndun gróðurlendis, til dæmis verndun skóga sem þá ná að eflast að bindigetu.

Nýgræðsla fer samtímis fram á landi, á skemmdu gróðurlendi eða örfoka landi, eða með ræktun til dæmis trjáa á grónu eða ógrónu landi, allt eftir því sem hentar og sátt er um.

Kolefnisbinding fer líka fram með því að menn herða á jarðvegsmyndun og hægja á, eða stöðva, jarðvegseyðingu, ásamt því að endurheimta votlendi í samræmi við þekkingu á losun gróðurhúsalofttegunda úr þornandi mýrum, og í samræmi við sjálfbærar landnytjar. Grólindar-verkefni bænda og opinberra stofnanna staðfestir hvert stefnir til frekari sjálfbærni í landbúnaði. Verkefnið Bændur græða landið, tillögur sauðfjárbænda um kolefnisjöfnun búskaparins og langtíma starf skógarbænda bera þess líka vitni að við erum á réttri leið.

Bindigeta gróðurs er auðvitað háð plöntutegundum og aldri fjölærra plantna, veðurfari og öðrum aðstæðum. Bindinguna má mæla og er mikið til af gögnum, einkum erlendis, og gagnlegum rannsóknarniðurstöðum sem óðum er bætt við hér á landi.

Með víðtækri skógareyðingu og breyttum landbúnaðarháttum og gríðarlegri mannvirkjagerð í a.m.k. 2-3 aldir hafa jarðarbúar rýrt kolefnisbindigetu lands með afgerandi áhrifum í öllum loftslagsbeltum jarðar. Því verður að linna og snúa þarf taflinu snarlega við. Sú þróun er þegar hafin.

Á síðasta degi nýlokins þings var samþykkt samhljóða frumvarp sem ég lagði fyrst fram á Alþingi á þinginu þar á undan, og varðar lög um tekjuskatt. Samkvæmt breytingunni á lögunum mega lögaðilar (fyrirtæki) nú leggja fram 0,75% af árlegum tekjum til hvers kyns kolefnisjöfnunar án þess að greiða tekjuskatt af upphæðinni. Þarna er kjörið tækifæri til þess að sýna aukna umhverfis- og samfélagsábyrgð í verki. Vil vekja athygli á því.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.