*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Týr
3. júlí 2017 10:04

Hið opinbera enn við stýrið

Ákvörðun kjararáðs kom það mikið á óvart að Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi varð orðlaus í 3 sekúndur, 5 segja sumir.

Birgir Ísl. Gunnarsson

Týr hafði, og hefur reyndar enn, smá áhyggjur kjaramálum á Íslandi.  Þær áhyggjur grundvallast á því að í síðustu samningahrinu á árunum 2014 til 2015 var það hið opinbera sem leiddi launaþróunina, sem er fullkomlega galið.

                                                                             ***

Fyrir þá sem ekki muna þá sömdu SA og ASÍ um 3,3% launahækkun í byrjun árs 2014. Átti það að vera upptaktur að breyttum vinnubrögðum í á vinnumarkaði, þar sem hugsunin var að ná verðbólgu niður og auka kaupmátt til framtíðar. Með öðrum orðum þá tókust forsvarsmenn SA og ASÍ í hendur um að varðveita stöðugleika í efnahagslífinu.

                                                                             ***

Hið opinbera var greinilega á öðru máli um hvernig best væri að haga málum á vinnumarkaði því bæði ríki og sveitarfélög sprengdu allt í loft upp þegar samið var við kennara og lækna seinna þetta sama ár, 2014. Þeir samningar kváðu á um um það bili 30% hækkun á þremur árum.

                                                                             ***

Ríki og sveitarfélög settu því launastefnu almenna vinnumarkaðarins í fullkomið uppnám. Afleiðingin var sú að hér logaði allt í kjaradeilum vorið 2015. Loks náðist sátt á almennum vinnumarkaði í sumarbyrjun en hún var rofin í ágúst, eða tveimur mánuðum seinna, með gerðardómi BHM-félaganna. Sá dómur kvað á um meiri launahækkanir en samið hafði verið um á almenna markaðnum, sem leiddi til þess að þar komu menn enn á ný saman til að miðla málum.

                                                                             ***

Til þess að flækja málin enn frekar hefur kjararáð nú ítrekað komið með úrskurði um gríðarlegar launahækkanir til embættismanna og kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Nú síðast kom ákvörðunin það mikið á óvart að Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, varð orðlaus í 3 sekúndur, 5 segja sumir. Það er ekki skrítið þegar litið er til þess að laun ríkisendurskoðanda hækkuðu um 29,5% og þar að auki fékk hann 4,5 milljóna króna eingreiðslu.

                                                                             ***

Týr sá að margir hneyksluðust á úrskurði kjararáðs um að ríkisendurskoðandi, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, forsetaritari, hagstofustjóri, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar ættu að bera svo og svo mikið úr býtum. En þegar litið er á úrskurði kjararáðs á þessu ári má sjá þar miklu fleiri pótintáta. Þar eru skógræktarstjóri, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, varaformaður kærunefndar útlendingamála, forstjóri Hörpu, ríkislögmaður, skrifstofustjóri Alþingis, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, svo fáeinir séu taldir.

                                                                             ***

Það er ágætt að minna stjórnvöld á að í ágúst fellur gerðardómur átján BHM félaga úr gildi. Þá mun hið opinbera þurfa að semja við það háskólamenntaða fólk sem starfar við hlið þeirra embættismanna sem hafa notið góðs af velvilja kjararáðs. Týr óskar hinu opinbera velfarnaðar í þeim samningaviðræðum.

Stikkorð: kjararáð kjaramál
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.