RIFF, alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, hefur göngu sína í næstu viku og hleypir nauðsynlegu blóði í flóru kvikmyndasýninga hér á landi. Það er þó ekki svo að allar kvikmyndir hátíðarinnar séu manni að skapi og fái fimm stjörnur. Nokkrar myndir eru þó strax farnar að vekja áhuga minn og sumar þeirra eiga jafnvel eftir að hrista upp í hugmyndum mínum um kvikmyndir og tilveruna. Sjötugir tvíburar frá Hollandi, sem hafa haft það að atvinnu í áratugi að stunda vændi, er til að mynda eitthvað sem getur ekki verið annað en áhugavert og truflandi í senn, hvort sem myndin er góð eður ei.

Nokkrum sinnum hef ég keypt klippikort á hátíðina til að fara á þær myndir sem vekja mestan áhuga til viðbótar við einhverjar sem verða að fyrir valinu fyrir tilviljun. Seinni hópurinn hefur þó reynst mér misjafnlega vel í ljósi takmarkaðs undirbúnings á því hvaða mynd er valin. Írönsk mynd sem sýnd var í Tjarnarbíó varð fyrir valinu um árið, aðallega vegna heppilegrar tímasetningar, en sú sýning átti eftir að kenna mér heilmargt. Þessi mynd, sem í minningunni var svo hæg að hún hlýtur að hafa verið í einni samfelldri töku í hægagangi, fjallaði um mann sem var að húkka sér far. Síðar bað hann þá sem voru svo góðir að gefa sér far um að vinsamlegast grafa sig í sandinn og koma sér þannig fyrir kattarnef. Erfitt reyndist að sannfæra ökumennina um þennan greiða.

Aðrar myndir hafa svo lyft manni all hressilega upp eins og þegar Páll Óskar bauð upp á Jane Fonda í hlutverki Barbarellu sem lokahnykkinn á B-myndaveislu kappans. Það er rosaleg ræma. Það er auðvelt að vera hræddur við að taka slæmar ákvarðanir sem valda því að maður sói tíma sínum í vondar kvikmyndir. Góðu myndirnar eru þó allajafna í meirihluta. Ef menn taka slæmar ákvarðanir er gott að hafa í huga að þær kenna þér að meta góðu myndirnar. Á sama hátt og rauða serían kennir fólki að meta góðar bókmenntir.