Í gærkvöldi var tilkynnt um að Síminn og franska sjóðastýringafélagið Ardian hafa náð saman um 5 milljarða króna lækkun á kaupverði Mílu eftir athugasemdir Samkepnniseftirlitsins.

Íslenskir lífeyrissjóðir eiga um 60% hlut í Símanum og er tap þeirra 3 milljarðar króna ef lækkunin mun endurspeglast í gengi félagsins. Markaðsvirði Símans lækkaði um tæpa 9 milljarða í kjölfar þess að athugasemdir Samkeppniseftirlitsins voru gerðar opinberar.

Samkeppniseftirlitið fékk málið til meðferðar þann 20. janúar þegar samrunatilkynning barst eftirlitinu, að ósk þess. Það tók eftirlitið um hálft ár að komast að niðurstöðu í málinu.

Fjallað var um málið í Óðni á fimmtudaginn. Þar sagði meðal annars að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins væri himnasending fyrir franska Ardian.

Hér er stutt brot úr Óðni:

Himnasending fyrir Frakkana

Á þeim óratíma sem samkeppnisstofnunin hefur tekið sér í að skoða málið hafa aðstæður breyst mikið í efnahagslífi heimsins. Vextir í heiminum hafa hækkað mikið og eignaverð að sama skapi lækkað.

***

Töf stofnunarinnar er himnasending fyrir franska fjárfestingarsjóðinn Ardian, kaupanda Mílu. Þetta gefur sjóðnum tækifæri til að lækka kaupverðið. Og hverjir tapa á því? Jú, aðallega íslenskir lífeyrissjóðir, sem eiga um 60% hlut í Símanum.

Hvert er tapið?

Á þessari stundu er ekki hægt að segja til um tap lífeyrissjóðanna enda liggur ekkert fyrir um niðurstöðu þeirra samningaviðræðna sem nú fara í hönd milli Símans og Ardian. En gengi hlutabréfa Símans hefur lækkað um 10% og markaðsvirði lækkað um átta milljarða króna. Þar af er tap lífeyrissjóðanna um fimm milljarðar króna. Þetta tap er allt á ábyrgð samkeppnisstofnunarinnar. Sem hvorki nýtur trausts í viðskiptalífinu né aðhalds frá stjórnvöldum.

***

Aldrei þessu vant vildi Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra ekki tjá sig. Óðinn hélt að fyrr myndi frjósa í helvíti. Hún sagðist þó í samtali við Morgunblaðið vera hlynnt erlendri fjárfestingu hérlendis, bæði í þjónustu og framleiðslu. Þó þyrfti að fara varlega í erlenda fjárfestingu í innviðum og auðlindum með tilliti til öryggis- og varnarsjónarmiða.

***

Forstjóri samkeppnistofnunarinnar hefur í áratugi setið í skjóli Framsóknarflokksins í hinum ýmsu stöðum hjá hinu opinbera. Þar af í 17-18 ár hjá samkeppnisstofnuninni. Samstarfsflokkarnir aðhafast ekkert þrátt fyrir að eina sjáanlega skýringin á verunni í stofnunni sé flokksskírteini í Framsóknarflokknum og að hann sé sonur föður síns.

Verðbólgan hærri fyrir vikið

En skaðinn er ekki bara lífeyrisþeganna. Það var búist við því að jafnvirði 44 milljarða króna kæmi inn í hagkerfið í erlendri mynt. Þetta hefði, að öllu óbreyttu, styrkt íslensku krónuna á mikilvægum tíma þegar verðbólgudraugurinn er kominn á flug.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 21. júlí 2022.