Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar segir í stjórnarskrá Íslands. Í Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur verið lögtekin hér, segir að sérhver maður eigi rétt til tjáningarfrelsis og skal sá réttur einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum.

Tjáningarfrelsið er hornsteinn lýðræðislegs samfélags og samofið hinni gagnrýnu hugsun, sem er svo mikilvæg framþróun samfélaga. Um nokkra hríð hafa verið blikur á lofti í þessum efnum.

Bara í þessari viku hafa birst fréttir sem endurspegla þann mótvind sem tjáningarfrelsið mætir. Greint var frá því að ákveðið orðalag hafi verið fjarlægt úr bókum Roalds Dahl því það væri móðgandi. Það má sem sagt ekki lengur segja í barnabókum að einhver sé feitur eða ljótur. Einnig var greint frá því að málverk af Leifi Eiríkssyni hafi verið fjarlægt úr Ríkislistasafninu í Osló. Ástæðan er sú að Leifur mun vera tákn nýlendustefnu og jafnvel rasisma og því ekki hægt að hafa málverkið til sýnis fyrir börn og viðkvæma.

Nú bíðum við eftir því að heimildarmyndir um nasismann eða voðaverk Stalíns verði ritskoðaðar, þar sem efni þeirra kunni að særa eða móðga einhvern.

Þetta er einmitt meinið, móðgunargirnin og viðkvæmnin hefur náð nýjum hæðum í samfélagi mannanna og er Íslands þar engin undantekning. Í þessu sambandi gleymist oft að það er hollt að móðgast.

Marga skortir hugrekki til að taka þátt í orðræðu dagsins. Það er svo sem ekki skrítið því einstaklingarnir sem voga sér að viðra skoðanir, sem eru á ská við hina pólitísku rétthugsun, eru oft úthrópaðir. Við skulum hins vegar átta okkur á því að þeir hugrökku, sem þora að tjá hug sinn og taka við gagnrýninni, eru mikilvægari en þeir prúðu sem sitja bara og rugga sér í takt við „viðteknar“ skoðanir dagsins. Hvers vegna eru þeir hugrökku mikilvægari, jú vegna þess að þeir fá fólk til að hugsa og færa rök fyrir máli sínu.

Ágætt dæmi um umræðuhefð dagsins er færsla fyrrverandi ráðherra á samfélagsmiðlum. Ráðherrann birti skjáskot af frétt þess efnis að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hækka árlegt framlag til Samtakanna 78 úr 15 milljónum króna í 40. Sagði ráðherrann þetta vera eina af ástæðunum fyrir aukinni verðbólgu hérlendis. Það var eins og við manninn mælt. Móðgunargjarna fólkið reis upp og sakaði ráðherrann um fordóma gagnvart samkynhneigðum, þegar hann var í raun að benda á fjáraustur ríkisins og þá staðreynd að reiknað er með 120 milljarða króna halla á ríkissjóði á árinu.

Ef geimfarar eru of lengi í þyngdarleysi rýrna vöðvar þeirra og bein.

Hin gagnrýna hugsun hefur líklega sjaldan verið mikilvægari en í upplýsingaóreiðu nútímans og að sama skapi á tjáningarfrelsið undir högg að sækja. Samfélagsmiðlar stunda sem dæmi markvissa ritskoðun og tjáningarfrelsinu hafa verið settar skorður innan veggja menntastofnana um víða veröld. Þeirra stofnana sem eiga einmitt að kenna gagnrýna hugsun og umfaðma ólíkar skoðanir, viðhorf og kenningar.

Í sjálfum Bandaríkjunum, sem beinlínis voru stofnuð með frelsi einstaklingsins að leiðarljósi, hefur umræðan um tjáningarfrelsið og gagnrýna hugsun sjaldan verið háværari en í dag. Fyrir því eru ýmsar ástæður, m.a. fyrrnefnd ritskoðun samfélagsmiðla á því sem þeir telja óæskilegt efni. Önnur merkileg þróun hefur átt sér stað vestra. Þar hafa virtir háskólar lokað dyrum sínum fyrir fyrirlesurum sem hafa „óæskilegar“ skoðanir. Er þetta yfirleitt gert vegna þrýstings frá einhverjum hópi nemenda, sem lifir í heimi pólitískrar rétthugsunar og þolir ekki vitsmunalegan mótbyr.

Skynsamt fólk veit að það leysir engin vandamál að úthýsa ákveðnum skoðunum af þeirri einu ástæðu að einhver telji þær hættulegar eða móðgandi. Ástæðan fyrir tjáningarfrelsinu er einmitt svo við fáum að heyra allar skoðanir í von um að rökræðan verði til þess að skynsemin sigri að lokum.

Ef geimfarar eru of lengi í þyngdarleysi rýrna vöðvar þeirra og bein. Ef ungmenni fá að fara í gegnum lífið án þess að þurfa að færa rök fyrir máli sínu deyr hin gagnrýna hugsun. Með hverri kynslóð minnkar viðnámsþróttur gegn ólíkum skoðunum og tjáningarfrelsið verður hjóm eitt.