*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Leiðari
7. september 2018 13:03

Hin hæfilega álagning

Útreikningur Íslandspósts um að fækkun á dreifingardögum þýði að hækka þurfi gjaldskrá um 8% er óskiljanleg rekstrarhagfræði.

Eva Björk Ægisdóttir

Hið opinbera hlutafélag, Íslandspóstur, varð til þegar Pósti og síma var skipt upp fyrir tuttugu árum síðan. Í eðli sínu er póstþjónusta ekki sérlega flókin. Borinn hefur verið út póstur til fólks í margar aldir og á Íslandi á póstrekstur sér 230 ára sögu. Svo virðist hins vegar sem starfsemi Íslandspósts sé svo flókin að eftirlitsstofnanir veigri sér við að sinna kvörtunum fyrirtækja sem eiga í samkeppni í við fyrirtækið. Þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni.

Á sama tíma og Íslandspóstur sinnir einkaréttarvarinni póstþjónustu, svokallaðri alþjónustu, þar sem hann hefur ákveðnum skyldum að gegna við dreifingu bréfa til landsmanna er fyrirtækið einnig að vasast í samkeppnisrekstri, sem snýr þá til dæmis að dreifingu á fjölpósti. Það þarf ekki annað en að skoða ársreikninga Íslandspósts til að sjá að fyrirtækið á ekki að vera á samkeppnismarkaði. Á árunum 2016 og 2017 nam afkoma Íslandspósts af einkaréttarvarinni þjónustu samtals 868 milljónum króna. Á sama tímabili tapaði fyrirtækið 1,5 milljörðum króna á samkeppnisrekstrinum.

Líkt og bent er á í Viðskiptablaðinu í dag hafa keppinautar Íslandspósts á markaði ítrekað kvartað til eftirlitsstofnana vegna grunsemda um að hagnaður úr einkaréttarstarfseminni hafi verið nýttur til að greiða niður samkeppnisstarfsemina.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, lýsir stöðuna vel í blaðinu í dag.

„Við og hluti af okkar félagsmönnum sem eru í samkeppni við Íslandspóst, höfum leitað til margra aðila á vegum hins opinbera til þess að fá staðfest með óyggjandi hætti að rekstur fyrirtækisins sé í samræmi við lög og að það sé ekki verið að nota tekjur úr einkaréttarhlutanum til að niðurgreiða samkeppnishluta rekstrarins. Það kemur ekkert út úr þessu og allir benda hver á annan. PFS bendir á Samkeppniseftirlitið (SE) sem vísar aftur á PFS, Ríkisendurskoðun er sjálf endurskoðandi Íslandspósts og telur það ekki sitt hlutverk að fara ofan í saumana á þessu máli og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vill ekkert gera. Við lögðum fyrir stjórn Íslandspósts sem starfar í umboði almennings, spurningar um samkeppnishætti og rekstur fyrirtækisins. Stjórnin sagði okkur bara í rauninni að eiga okkur og veitti engin svör.“

Mikilvægt er að átta sig á því að samkvæmt lögum um póstþjónustu á gjaldskrá fyrir alþjónustu, þar með talinni einkaréttarþjónustu, að taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættri hæfilegri álagningu. Hagnaður Íslandspósts af þessari þjónustu síðustu ár mun seint verða talinn bera vitni um hæfilega álagningu. Í fyrra var hann um 370 milljónir og árið 2016 var hann um 500 milljónir. Það virðist blasa við að Íslandspóstur hafi oftekið gjöld af þeim notendum sem heyra undir einkaréttinn og ef allt væri með felldu væri fyrirtækið skikkað til að endurgreiða notendunum hin ofteknu gjöld. Slíkt er einfalt í framkvæmd.

Fyrr á árinu fékk Íslandspóstur heimild til að fækka dreifingardögum bréfapósts á höfuðborgarsvæðinu um helming. Póst- og fjarskiptastofnun samþykkti þetta en óskaði eftir nýrri gjaldskrá en einhverra hluta vegna veitti stofnunin fyrirtækinu frest fram í byrjun júní til að skila gjaldskránni. Íslandspóstur skilaði henni síðan þremur vikum eftir uppgefinn frest og óskaði þá eftir að gjaldskráin yrði hækkuð um 8%. Fækkun dreifingardaga um helming, sem sagt skert þjónusta við notendur, hefur í bókum stjórnenda Íslandspósts ekki áhrif til lækkunar, heldur hækkunar gjaldskrár.

„Þessi útreikningur Íslandspósts um að helmings fækkun á dreifingardögum þýði að þjónustan eigi að hækka um 8% er einhver óskiljanleg rekstrarhagfræði,“ segir Ólafur Stephensen og það er ekki hægt annað en að taka undir hans orð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.