*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Hörður Arnarson
15. janúar 2019 09:58

Hin nýja öld samfélagslegrar ábyrgðar

Nýr tíðarandi gerir kröfu um að rekstur fyrirtækja sé efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega sjálfbær.

Þeystareykjarvirkjun Landsvirkjunar.
Aðsend mynd

Það hefur verið einkar áhugavert og ánægjulegt að fylgjast með því að undanförnu hvernig ný kynslóð stjórnenda hefur fært fyrirtækjarekstur nær nýjum tíðaranda. Fyrirtæki hafa áttað sig á því að þau verða að horfa á rekstur sinn í víðara samhengi en áður – gildismat neytenda snýst ekki lengur eingöngu um að fyrirtæki sjái þeim fyrir góðum vörum og þjónustu á góðu verði, heldur krefjast þeir þess að fyrirtæki láti gott af sér leiða í samfélaginu öllu.

Þessi nýi tíðarandi gerir kröfu um að rekstur fyrirtækja sé efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega sjálfbær. Það þýðir einfaldlega að reksturinn verður að standa undir sér. Fyrir það fyrsta má hann ekki ganga á efnahagsleg verðmæti, þ.e. rekinn með fjárhagslegu tapi. Í öðru lagi má hann ekki ganga á umhverfið og náttúruna með því að ofnýta náttúruauðlindir á kostnað komandi kynslóða – í því efni er loftslag jarðarinnar mikilvægt – og í þriðja lagi verður hann að skilja eftir sig bætt samfélag.

Sátt er grunnforsenda

Þessi sátt við samfélagið er nauðsynleg í fyrirtækjarekstri á 21. öldinni. Við hjá Landsvirkjun erum afar meðvituð um það. Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.

Þessa stefnu mótuðum við fyrir sjö árum og segja má að við höfum verið að meitla og móta starfsemi okkar í þessa átt síðan þá. Til framtíðar viljum við leggja áherslu á að allar þrjár víddir sjálfbærrar þróunar hafi jafnt vægi.

Efnahagsleg sjálfbærni

Eins og mörgum er kunnugt höfum við lagt mikla áherslu á að bæta efnahag fyrirtækisins á síðustu árum. Við höfum greitt niður skuldir fyrir á annað hundrað milljarða íslenskra króna og tekið í rekstur þrjár nýjar aflstöðvar á síðustu fjórum árum. Þetta hefur lagt grunninn að aukinni arðgreiðslugetu á næstu misserum.

Þessar arðgreiðslur eru grunnur að Þjóðarsjóði, sem hægt verður að nýta í þjóðhagslega hagkvæm samfélagsverkefni. Að vissu leyti má þannig segja að efnahagsleg og samfélagsleg sjálfbærni skarist í rekstri fyrirtækisins.

Samfélagsleg sjálfbærni

Landsvirkjun er hluti af samfélaginu og samfélagsleg ábyrgð okkar er mikil, líkt og annarra fyrirtækja í landinu. Eins og sjálfsagt er krefst tíðarandinn í samfélaginu þess að einstaklingar séu metnir að verðleikum, án tillits til kyns. Í nútímafyrirtæki er engin mismunun á grundvelli kyns liðin.

Á síðustu misserum höfum við lagt mikla áherslu á jafnréttismál hjá fyrirtækinu og lagt okkur fram um að breyta menningunni innan þess, þannig að enginn einstaklingur eigi erfitt uppdráttar eða upplifi mismunun. Það er ekki launungarmál að Landsvirkjun hefur löngum verið karllægt fyrirtæki, en því ætlum við að breyta.

Umhverfisleg sjálfbærni

Loftslagsbreytingar eru stærsta umhverfismálið sem við stöndum frammi fyrir. Fjölgun mannkyns og kröfur fólks um aukin lífsgæði hafa valdið því að neysla fer sívaxandi. Þessi þróun kallar óhjákvæmilega á aukna framleiðslu varnings og þjónustu, aukin umsvif flutninga og samganga, sem aftur kalla á aukna orkuvinnslu. Verkefni mannkyns felst í því að mæta þessum þörfum á sem umhverfisvænastan hátt og berjast þannig gegn loftslagsbreytingum.

Rekja má um 65% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum til notkunar jarðefnaeldsneytis við orkuvinnslu. Stærsta tækifæri okkar í baráttunni við loftslagsbreytingar er því aukin nýting á þeim endurnýjanlegu auðlindum sem jörðin býður upp á, í stað jarðefnaeldsneytis. Í raun er þörf á algjörri byltingu í orkuvinnslu í heiminum, því samkvæmt Alþjóðaorkumálastofnuninni þarf hlutur endurnýjanlegrar raforku að fara úr 25% í 66% á heimsvísu fyrir árið 2040 og hlutur kola úr 38% í 5%. Það er ekki lítið verkefni.

Þetta verkefni er þess eðlis að enginn getur spilað einleik. Enginn getur verið frífarþegi í ferðalagi að grænni framtíð. Allar þjóðir heims bera ábyrgð á lausn vandans og aðgerðir eða aðgerðaleysi einnar þjóðar hefur óhjákvæmilega áhrif á allar aðrar. Við Íslendingar höfum vissulega þegar lagt mikið af mörkum með því að vinna nánast alla okkar orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum, með farsælli virkjunarsögu þjóðarinnar síðan á fyrri hluta síðustu aldar, sem í ofanálag hefur lagt grunninn að lífskjörum þjóðarinnar á seinni tímum.

Það er undir okkur öllum komið hvort við viljum ganga enn lengra og leggja enn meira til alþjóðlegra loftslagsmála með því að beisla endurnýjanlega orkugjafa í frekari mæli. Ef það verður ákveðið er mikilvægt að gera það með þeim hætti að neikvæð áhrif á náttúruna verði sem minnst, líkt og Landsvirkjun hefur leitast við að gera við allar framkvæmdir á vegum fyrirtækisins. Þar eru margar leiðir færar.

Eins og ég hef rakið hér að ofan gerum við hjá Landsvirkjun okkar besta til að tryggja að starfsemi fyrirtækisins sé efnahagslega, samfélagslega og umhverfislega sjálfbær. Við viðurkennum þó að við erum ekki fullkomin og getum alltaf gert betur. Við erum lögð af stað í ferðalagið og vonumst til þess að vera samferða sem flestum fyrirtækjum á Íslandi í þessari vegferð, sem er langhlaup en ekki spretthlaup.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.