*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Sigurlína V. Ingvarsd.
30. desember 2021 09:32

Hinir mörgu raunveruleikar

„Hversu margir ætli hafi ekki fundið óvænta hamingju við að lesa spjallþræði Facebook-hópsins Stofublóm inniblóm pottablóm?“

epa

Árið 2022 er handan við hornið, og eflaust margir sem bera þá von í brjósti að það verði betra en síðustu tvö ár. Enda yrðu árunum 2020 og 2021 best lýst í dystópískri vísindaskáldsögu sem fjallar um banvæna veiru sem breiðist hratt út frá matarmarkaði í asískri stórborg þar til hún hefur komið hagkerfum heimsins á kné, gert fjarvinnu að norminu fyrir þá sem teljast þekkingarstarfsmenn og gefið alls kyns samskiptaog skemmtitækni sem styðst við internetið byr undir báða vængi.

Hverjum hefði enda dottið í hug fyrir áramótin 2019/2020 að innan skamms yrði fólk ekki á ferli á almannafæri nema bera grímur fyrir vitum sér og að við yrðum (næstum öll) orðin þríbólusettir sérfræðingar í ónæmisfræðum. Um fátt hefur verið fjallað meira í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum undanfarin tvö ár en veirufjandann og áhrif hans.

Þegar greinarhöfundur var að alast upp, á níunda áratug síðustu aldar, var lífið talsvert einfaldara, að minnsta kosti í minningunni. Fréttir fengust úr Morgunblaðinu með morgunkorninu á morgnana og svo úr kvöldfréttum RÚV, helgum tíma á flestum heimilum, að kvöldi. Fólk aðhylltist þá, sem nú, mismunandi hugmyndafræði í stjórnmálum, og hugsanlega kusu sumir að lesa Tímann eða Þjóðviljann frekar heldur en Morgunblaðið, en við deildum öll þeim raunveruleika eins og hann birtist í þessum blöðum og svo fréttum í þeim fáu útvarps- og sjónvarpsmiðlum sem voru í boði.

En síðan eru liðin ansi mörg ár og einfaldi raunveruleikinn orðinn ansi miklu flóknari. Internetið og samfélagsmiðlar hafa ekki bara gjörbreytt aðgengi okkar að upplýsingum, heldur er, í gegnum algrím samfélagsmiðla, okkur birt mismunandi efni, eftir því hvernig við hegðum okkur á þessum miðlum og hvaða efni fellur í kramið hjá hópunum sem við tilheyrum.

Í heimildamyndinni Social Dilemma sem kom út árið 2020 og finna má á Netflix, er því lýst hvernig vöruþróun samfélagsmiðla er stýrt á þann hátt sem hámarkar viðveru notandans á miðlinum, þar eð beint samband er á milli þess hversu lengi notandi er á miðlinum og hversu margar auglýsingar er hægt að birta þessum notanda. Í stuttu máli, því lengur sem notandi er á samfélagsmiðli, því hærri tekjur fær viðkomandi miðill af birtingu auglýsinga til þessa notanda og þar af leiðandi eru gríðarlegir hagsmunir undir því komnir að halda notandanum sem allra lengst límdum við snjallsímann.

Við þróun samfélagsmiðlanna nýtir starfsfólk þeirra sér aðgang að urmul upplýsinga sem það hefur um hegðun notendanna, sem í tilfelli stærstu miðlanna hleypur á hundruðum milljóna eða milljörðum notenda. Hægt er að greina hvers kyns efni er líklegt til vinsælda og forgangsraða því að birta það hjá hópi þar sem það er líklegt til að hljóta mikinn hljómgrunn. Komið hefur í ljós að efnið sem er líklegast til vinsælda er líka efnið sem vekur sterkust, mjög oft neikvæð, viðbrögð hjá notendum. Sumsé, samfélagsmiðlar græða mest á því að birta okkur sífellt nýtt efni sem gerir okkur reið.

Þarna er að finna helstu skýringuna á því sem kallað hefur verið skautun samfélagsumræðunnar sem hefur orðið sífellt meira áberandi á undanförnum árum og veirufjárinn hefur svo sannarlega átt þátt í að skipta fólki í andstæðar fylkingar. Þá sem taka veiruna og afleiðingar hennar alvarlega og þá sem finnst hún meinlaust kvef notað í annarlegum tilgangi af dularfullum öflum til að skerða frelsi almennings. Þá sem trúa á vísindin bak við bólusetningar og þá sem sjá bólusetningarnar sem hluta af plotti skuggaaflanna.

Umræðan geisar á samfélagsmiðlunum þar sem við búum flest í bergmálshellum ásamt skoðanasystkinum okkar og þrátt fyrir aukið aðgengi að upplýsingum og fleiri samskiptamáta en nokkru sinni fyrr gengur okkur verr og verr að tala saman.

Munurinn á raunveruleikanum í dag og hinum einfalda raunveruleika æsku höfundar er sá að samfélagsmiðlar matreiða sérsniðna útgáfu af veruleikanum fyrir hvert og eitt okkar, vitandi nákvæmlega hvað höfðar til okkar og hvað ekki, staðfesta okkur í skoðunum okkar með því að birta okkur sífellt meira af því sama og vinsa út það sem gengur gegn sannfæringu okkar.

Samfélagsmiðlar eru að mörgu leyti frábær tól sem tengja fólk með sameiginleg áhugamál og hjálpa því að fræða hvert annað. Hversu margir ætli hafi ekki fundið óvænta hamingju við að lesa spjallþræði Facebook-hópsins Stofublóm inniblóm pottablóm? Ansi margir þar sem hópurinn telur tæplega 40 þúsund manns.

En samfélagsmiðla má auðveldlega, eins og vel má sjá í Bandaríkjunum undanfarin ár, misnota til að dreifa áróðri og upplýsingum, oft ósönnum, sérhönnuðum til að nýta sér undirliggjandi algrím og etja saman hópum, hafa áhrif á úrslit kosninga og koma af stað þjóðfélagsróstum.

Það verður því eitt stærsta viðfangsefni okkar daga að ná böndum á samfélagsmiðlarisana, lægja öldurnar í umræðunni og ná að skiptast á skoðunum við þá sem eru öndverðrar afstöðu í stað þess að gjamma bara sífellt hærra í bergmálshellinum.

Sigurlína V. Ingvarsdóttir er stjórnarformaður Solid Clouds og Mussila og situr í stjórn CRI, Eyris Vaxtar og Aldin Dynamics.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.