*

mánudagur, 21. september 2020
Óðinn
27. mars 2020 10:32

Hjól Atvinnulífsins, þjóðin, veiran og ríkið

Óðinn skrifar um hjól atvinnulífsins, kórónuveiruna og ríkisvaldið.

„Ef hjólið staðnæmist, þá dettur það. Jafnvel maðurinn með. Þetta nákvæmlega sama á við um hjól atvinnulífsins.“
Haraldur Guðjónsson

Allir lesendur þekkja það af eigin raun að galdurinn við að hjóla án þess að detta er einmitt það að hjóla. Ef hjólið staðnæmist, þá dettur það. Jafnvel maðurinn með. Þetta nákvæmlega sama á við um hjól atvinnulífsins. Sennilega að miklu leyti um hjól þjóðlífsins líka. Hjólin á hjóli atvinnulífsins hafa síðustu daga snúist hægar og hægar. Sum staðnæmst. Því miður eru líkur á því að rekstur margra fyrirtækja stöðvist á allra næstu dögum. Vandinn við slíkt er að aðeins tekjurnar minnka eða hverfa, ekki kostnaðurinn.

* * *

Ógerningur er að segja til um hversu lengi þessir tímabundnu erfiðleikar standa yfir, en sjálfsagt er óhætt að gera ráð fyrir meiru en nokkrum vikum, sem þjóðfélagið allt leggst í lamasess. Íslendingar eru fráleitt einir um það, við sjáum hvernig ýmis ríki bæði nær og fjær hafa lýst yfir útgöngubanni um lengri tíma og það mun hafa áhrif bæði þar og fyrir hagkerfi heimsins. Stórfelld efnahagsleg niðursveifla á heimsvísu er óumflýjanleg, en jafnvel þó svo Íslendingum gangi allt í haginn næstu vikur, mánuði og misseri, þá mun þeirrar alþjóðlegu efnahagslægðar einnig gæta hér. Ísland er hluti af heimsþorpinu og raunar mjög háð viðskiptum við umheiminn.

* * *

Úti í hinum stóra heimi hafa þjóðarleiðtogar á borð við Emmanuel Macron og Boris Johnson líkt ástandinu við stríðstíma, viðfangsefnið sé af þeirri stærðargráðu. Án þess að hann vilji gera lítið úr hörmungum styrjalda, þykir Óðni það á sinn hátt lýsa nokkurri óskhyggju. Eins og dæmi eru um, þá geta milljónir fallið í valinn þegar plágur ganga yfir, en sá er þó munurinn að jafnvel í seinni heimsstyrjöldinni gekk efnahagslífið nokkuð sinn vanagang; örvaðist jafnvel á margan hátt. Iðnframleiðsla hélt áfram, þjónustugreinar mikið til líka og fólk gat mikið til um frjálst höfuð strokið. Því er öðru vísi farið nú, þegar stór hluti þjóða heims heldur kyrru fyrir heima og menn bíða milli vonar og ótta um hvort heilbrigðiskerfin muni geta annast alla þá, sem veikjast af völdum veirunnar. Þjóðlífið allt leggst í lamasess. Í auðugu og þróuðu ríki eins og Ítalíu, sem hefur fyrirtaksheilbrigðiskerfi á að skipa, hefur það ekki gerst og læknar standa frammi fyrir því ömurlega hlutskipti að þurfa að velja hverjir fái meðferð og hverjum verði aðeins líknað að móðunni miklu. Við verðum að vona að Íslendingar komist aldrei á slíkan stað.

* * *

Hrunið hafði mikil áhrif á íslenskt atvinnulíf, þjóðmál og sennilega sálarlífið líka. En það er mikilvægt að draga af því rétta lærdóma, ekki síst nú þegar við stöndum frammi fyrir svipuðum áskorunum. Ekki minni þó. Þá var unnt að setja hina föllnu banka í sóttkví, svo þeir smituðu ekki atvinnulífið allt og drægju það til dauða. Nú horfir öðru vísi við, því nánast allt atvinnulífið er undir. Hluti þess er lagstur í dá, öðrum komið í sóttkví, einhverjum haldið sofandi. En það þarf allt að vinna til þess að halda því á lífi um leið og við verjum líf og lífsviðurværi hvers einasta Íslendings.

* * *

Heilbrigðisvandinn

Vandinn sem við blasir er vitaskuld fyrst og fremst á heilbrigðissviðinu. Smitunum hér á landi hefur fjölgað jafnt og þétt og í fyrradag fengum við þau vondu tíðindi að fyrsti Íslendingurinn væri látinn af völdum veirunnar. Því miður má ólíklegt telja að hann sé sá síðasti.

* * *

Óðinn fjallar að öllu jöfnu um atvinnulíf og efnahagsmál, en þó hann hafi stundum fært rekstur á heilbrigðissviðinu í tal, þá eru hvorki læknisfræði né faraldursfræði á hans sérsviði. Það kæmi þó sjálfsagt út á eitt, jafnvel þó svo hann bæri skynbragð á hvort tveggja. Vandinn er einmitt ekki síst sá að veiran er nýuppgötvuð og veikindin af hennar völdum engan veginn fyllilega þekkt, hvað þá að lækning eða bóluefni liggi fyrir. Það má enda sjá á mjög mismunandi útbreiðslu veirunnar og áhrifum hennar í hinum ýmsu löndum (jafnvel milli landa þar sem viðbrögð hafa verið mjög áþekk), að margt er enn á huldu í þessum efnum. Hraðar framfarir í greiningu á síðustu dögum gefa vissulega góðar vonir, en á móti kemur að í fæstum löndum (hugsanlega engum) hefur faraldurinn enn náð hámarki. Óvissan um framhaldið er því alger.

* * *

Það á líka við á Íslandi. Nú má gleðjast yfir mörgu, sem vel hefur gengið í þeim efnum, en það er langur vegur enn fyrir höndum. Eins og sjá má á kortunum hér á opnunni er Ísland meðal þeirra landa heims, þar sem smit hefur mest verið að tilliti teknu til höfðatölu. Það á við hvort heldur horft er til heildarfjölda greindra smita eða fjölda daglegra smita. Við blasir að þar má lítið út af bera til þess að heilbrigðiskerfið hætti að ráða við vandann, eins og hefur gerst í ýmsum löndum öðrum. Þar ber þó ekki aðeins að líta á höfðatöluhlutfallið, það segir ekki alla sögu, sérstaklega ekki hjá fámennum þjóðum. Smithraðinn skiptir líka máli, en á Íslandi lætur nærri að fjöldi smitaðra tvöfaldist á fimm daga fresti. Það er alls ekki sem verst miðað við það sem þekkist hjá öðrum þjóðum, en það er samt aðeins við meðaltalið. Það við vitum.

* * *

Þar er auðvitað ekki allt þekkt og það má á sinn hátt binda vonir við að hlutfallið hér sé óvenjuhátt í samanburði við aðrar þjóðir, einmitt vegna þess að hér hefur verið vasklega gengið fram við greiningu og skimun, við erum fá og höfum því ráðið við verkefnið til þessa. Það getur þó skjótt breyst, eins og sumar aðrar þjóðir hafa rekið sig á. Í því samhengi er og rétt að minna á að ágætt sem íslenska heilbrigðiskerfið er að mörgu leyti, þá er áætlanagerð ekki meðal helstu styrkleika þess þegar best lætur.

Efnahagsvandinn

Vandinn sem við blasir er margháttaður, bæði í bráð og lengd. Hér og nú er hann sá að mörg annars lífvænleg fyrirtæki geta skjótt komist í miklar kröggur, jafnvel svo að þau lifi ekki faraldurinn af. Það skiptir gríðarlegu máli að forðast slíkt í lengstu lög. Fyrr eða síðar mun faraldurinn ganga niður og þá fyrst ríður á að atvinnulífið taki skjótt við sér til þess að vinna upp tapið og rétta af efnahaginn. Til þess höfum við alla kosti, en þá þurfa fyrirtækin líka að vera enn til staðar.

* * *

Verkefnið nú er því að halda atvinnulífinu á lífi, þó það leggist í dvala að einhverju leyti. Sömuleiðis þarf að leggja drögin að leiðum til þess að blása í það auknu lífi og þrótti, þegar rétti tíminn er til. Engin leið er að spá fyrir um þróunina næstu vikur og mánuði, óvissan er mikil. En það samt leggja meginlínur um framhaldið. Fyrirtækin eins og heimilin í landinu þurfa að hafa einhvern fyrirsjáanleika í því, von, traust og trú um uppbygginguna, sem fyrir höndum er. Þar skiptir ríkisvaldið öllu máli, einfaldlega af því að það eitt er í stakk búið til þess að virka eins og trygging til þrautarvara.

* * *

Ríkisstjórnin gerir sér vel grein fyrir þessu og raunar þykir Óðni sérstök ástæða til þess að hrósa þeim Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra fyrir að hafa sýnt einmitt þá forystueiginleika, sem þjóðin þarfnast á tímum sem þessum. Óðinn er ekki sammála því öllu, eins og hann hefur áður rætt hér í nokkru máli. En um hitt verður ekki deilt, að þau hafa sýnt þá forystu og myndugleik, sem til þarf á þessum uggvænlegu dögum.

* * *

Seðlabanki og ríkisstjórn hafa þegar gert mikilvægar ráðstafanir til að minnka líkurnar á að Covid-19 valdi gríðarlegu tjóni í íslensku atvinnulífi og miða að því að lina þjáningar fyrirtækja og launamanna. Óðinn telur að flest sé það mjög af hinu góða: hlutastarfaleiðin, brúarlán til atvinnulífs og frestun skattgreiðslna; lán í sóttkví, barnabótaauki og úttekt séreignarsparnaðar; styrking ferðaþjónustu, útvíkkun „allir vinna", greiðari innflutningur og fjárfestingarátak. Seðlabankinn hefur sömuleiðis lækkað vexti, lækkað bindiskyldu og sveiflujöfnunaraukann. Frekari vaxtalækkanir eru vafalaust nauðsynlegar en Seðlabankinn hefur nú sýnt það og sannað að hann getur hreyft sig hratt og af miklum þunga þegar mikið liggur við. Sem ekki hefur alltaf verið raunin hin síðari ár. Það sem skiptir mun meira máli en vaxtalækkunin er lækkun sveiflujöfnunaraukans, sem eykur útlánagetu bankanna og getur valdið meiri lækkun vaxta en sjálf vaxtalækkunin, því viðvarandi skortur hefur verið á lánsfé undanfarin misseri.

* * *

En Óðinn telur að gera þurfi meira og horfa til lengri tíma, líkt og raunar bæði ráðherrar og Seðlabankastjóri hafa gefið til kynna. Þar koma skattalækkanir helstar til greina, bæði tímabundnar og viðvarandi. Í þeim efnum þarf ríkisvaldið að þora og duga, en syrti mjög í álinn má ekkert vera heilagt og ósnertanlegt í þeim efnum. Frestun skattgreiðslna er góð og gild, en vel getur verið að ástæða sé til þess að gefa skattafrí um einhvern tíma.

* * *

Óðinn vill minna á að það er verulegur munur á því að lækka eða afnema skatta eða styrkja einstaklinga eða fyrirtæki á kostnað skattgreiðenda. Óðinn er mótfallinn því að styðja einstök fyrirtæki eða atvinnugreinar, en þar með er ekki sagt að við aðstæður sem þessar sé ekki unnt að gera ráðstafanir á vegum hins opinbera, sem komi í veg fyrir að annars lífvænleg fyrirtæki leggi upp laupana vegna óvænts en vonandi stutts tekjubrests. Þar sé þess enda vel gætt að almennar reglur og jafnræði séu í fyrirrúmi, að spilling og misnotkun komist hvergi að, en eins að ekki sé verið að lengja dauðastríðið hjá fyrirtækjum sem voru að stöðvast af öðrum ástæðum.

* * *

Það kann að vera freistandi að hlutast til um líf og dauða einstakra fyrirtækja. Þannig hafa t.d. heyrst hugmyndir um að nauðsynlegt kunni að vera að bjarga Icelandair, jafnvel með því að þjóðnýta það. Það væri afleitur kostur, rétt eins og nánast allar stakar björgunaraðgerðir með peningum skattgreiðenda. Hins vegar mætti minna lífeyrissjóðina á að þar hafi þeir bæði hlutverk og ábyrgð. En fari nú samt sem áður svo að lagst verði í slíka leiðangra er íslensku atvinnu- og effnahagslífi lífsnauðsynlegt að um leið verði gert ráð fyrir því, með síðasta ráðlagða söludegi, að skattgreiðendur verði losaðir úr slíkum rekstri. Þar höfum við sporin úr hruninu að hræðast, þar sem tímabundnar ráðstafanir urðu varanlegar og ákaflega erfitt að losna úr þeim viðjum.

* * *

Nú er rétt að hafa í huga að það er hvorki nauðsynlegt né æskilegt að blása lífi í atvinnulífið með sama hætti og jafnan er rætt um í hefðbundnum niðursveiflum. Þjóðfélagið er um margt að leggjast í dvala af heilbrigðisástæðum og ekki beinlínis rétti tíminn til þess að auka virkni í efnahagslífinu.

* * *

Óðinn ítrekar að það sem málið snýst um er að gefa fyrirtækjunum í landinu færi á að lifa þessar tímabundnu þrengingar af og búa um leið þannig í haginn að þau geti síðar tekið til óspilltra málanna við þá óhjákvæmilegu endurreisn, sem bíður okkar eftir að faraldurinn tekur að ganga niður.

* * *

Það er lífsnauðsynlegt fyrir fyrirtækin, og starfsfólk þeirra, að skattar séu lækkaðir myndarlega og varanlega strax, þannig að fyrirtækin styrkist í kjölfar þessarar erfiðu kreppu. Allir sæmilega sanngjarnir menn hljóta að sjá að skattar á Íslandi eru með þeim hæstu í heiminum. Sama hvert er litið.

* * *

Augljósasta tækifærið til skattalækkunar er tryggingagjaldið. Í grunninn er tryggingagjaldið skynsamlegt gjald, að safna í sjóð ef til atvinnuleysis kemur í samfélaginu. En gjaldið hefur hins vegar íþyngjandi áhrif á rekstur fyrirtækja og kemur í veg fyrir að fyrirtækin ráði fólk og það sem verra er, gjaldið neyðir fyrirtækin til að segja upp fólki. Óðinn telur einnig góða hugmynd að lækka launakostnað í landinu með því að lækka tekjuskatta á einstaklinga. Það væri til dæmis skynsamlegt að skipta lækkun tekjuskatts, sem næði til allra í þetta sinn - líka þeirra sem borga mest í skatta - milli fyrirtækjanna og launþeganna. Einnig þarf að lækka mótframlög fyrirtækja í lífeyrissjóði. Það ágæta samkomulag kallaðist Salek og leggur Óðinn til að hið nýja samkomulag nefnist Covidsamkomulagið. Með slíkum aðgerðum yrðu fyrirtækin sterkari og einstaklingarnir fjáðari.

* * *

Varla þarf að eyða orðum í að útskýra þá úlfakreppu, sem ferðaþjónustan er komin í. Óðinn telur að því miður sé mjög langt þar til það birtir yfir í þeirri grein. Jafnvel þó svo heimsfaraldurinn hjaðnaði með undrahraða með hlýnandi veðri er þess engin von að ferðaþjónustan taki skjótt við sér á ný. Heimsbyggðin er felmtri slegin og verður ekki í miklum ferðahug næsta kastið. Að því ógleymdu að efnahagshöggið hefur nú þegar minnkað ráðstöfunartekjur milljarða jarðarbúa. Það verður því langan þorra að þreyja þar og hætt við að byggja þurfi ferðaþjónustu á Íslandi mikið upp að nýju. Afnám gistináttagjaldsins hrekkur skammt þegar engir eru gestirnir, en það kynni að vera ráð að lækka eða einfaldlega fella niður virðisaukaskatt í ferðaþjónustunni, ekki síst gistingu. Ferðaþjónustan hefur skilað minni útskatti undanfarin ár vegna mikillar fjárfestingar. Það mun breytast hratt. Að auki er nauðsynlegt að lækka gjöld á þær vörur sem ferðamenn kaupa og neyta, svo sem áfengisgjald. Sem er það hæsta í heimi.

* * *

Sálfræðivandinn

Einn þátt enn þarf að minnast á, en það er félagslegi þátturinn. Í hinu íslenska návígi reiða menn sig mjög á stórfjölskyldu og vini í daglegu lífi, en nú er það ekki hægt. Það á vafalaust eftir að reynast mörgum erfitt. Að því ógleymdu að nú þegar, eftir að fólk hefur reynt að halda sig heima fyrir og í hæfilegri fjarlægð frá öðrum í aðeins nokkra daga, má vel greina leiða og ókyrrð hjá mörgum. Hvernig verður það ef viðureignin við faraldurinn stendur í þrjá mánuði, jafnvel lengur? Tala nú ekki um ef það skyldi einhvern tímann koma sumar? Þá er hætt við að sóttvarnirnar bresti með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

* * *

Áhrif langrar einangrunar á atvinnu- og efnahagslíf verða einnig mikil. Fyrir utan hið augljósa eins og að neysla og eftirspurn munu dragast ört saman, þá skiptir litlu hversu margir telja sig geta unnið á nærbuxunum heima hjá sér; framtak og afköst í atvinnulífinu munu dvína mikið. Deyfð og droll taka völdin. Slíkt efnahagslegt þunglyndi elur sjálft sig og það hefur ekki aðeins áhrif á atvinnulífið, það hefur slæm áhrif á fólkið sjálft, sem finnur ekki viðnám krafta sinna í vinnu og tilgangsleysi dregur úr því mátt.

* * *

Hér er ekki aðeins um eitthvert líkingamál að ræða. Íslendingar þekkja vel hvernig skammdegið eykur þeim drunga og depurð, jafnvel þunglyndi. Þegar við bætist einangrun heima fyrir, eiginleg samskipti við annað fólk dragast saman en daglegur núningur á heimilinu eykst, þá er full ástæða til að vera á varðbergi. Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós að einangrun hefur slæm áhrif á sálarlíf fólks, en eins liggur fyrir að langvinnum sálrænum erfiðleikum fjölgar mjög í kjölfar farsótta.

* * *

Maðurinn er félagsvera, maður er manns gaman. Þar þarf auðvitað sérstaklega að hafa áhyggjur af þeim sem hugsanlega eru tæpir fyrir, en einnig ungu fólki, sem að mörgu leyti er háðara félagslífi en hinir eldri og berskjaldaðra fyrir einangrun og dapurlegum hugsunum. Hið sama á raunar einnig við elstu kynslóðirnar, sem oft eru einmana fyrir, hvað þá á dögum sóttkvíar. Allt á þetta auðvitað enn frekar við undir þessum kringumstæðum, þegar raunveruleg og kvíðavænleg ógn steðjar að okkur öllum og hverju og einu. Óðinn hvetur lesandann til þess að gæta sín og sinna nánustu hvað það varðar.

* * *

Framundan eru erfiðir tímar, en með samstöðu (sundruð sem þjóðin er, hver á sínu heimili), geta Íslendingar sigrast á þessum vágesti og þrengingunum sem honum fylgja. Það munum við gera eins og áður.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.