Eftirlitsiðnaðurinn er einn sá geiri sem siglir seglum þöndum um COVID-19 hörmungarnar. Hann er öruggur staður til að vera á, eins og Brimborgarfólkið syngur í auglýsingunni. Óðinn veit um marga atvinnurekendur með brostinn rekstur, sem gæfu mikið fyrir afkomuáhyggjuleysið, sem þeir líkt og aðrir ríkisstarfsmenn búa nú við. Og ekki eru þeir færri launþegarnir á almennum vinnumarkaði, sem vildu búa við sama atvinnuöryggi. Svo að ekki sé nefnt að íslenska ríkið borgar nú hæstu meðallaunin.

* * *

Þegar heimsfaraldurinn verður yfirstaðinn blasir við að margar þjóðir þurfa að endurskoða eftirlitsiðnaðinn frá grunni. Augljóst er að stofnanir, sem beinlínis voru hugsaðar til að vernda heilsu almennings, reyndust gangslausar og það sem verra er, dragbítar á lífsnauðsynleg viðbrögð við faraldrinum. Þannig eru fjölmörg dæmi til þar sem reglugerðaskriffinnar beinlínis töfðu fyrir aðgerðum til að stemma stigu við veirunni.

* * *

Þar þarf sérstaklega að skoða Alþjóða heilbrigðisstofnunina (WHO), sem ber mikla ábyrgð á því að staðbundinn sjúkdómur varð að heimsfaraldri. Hvort heldur það mun reynast hafa verið af vanrækslu eða undirlægjuhætti gagnvart stjórnvöldum í Beijing, þá er ljóst að skoða þarf starfshætti þar frá grunni, það mun ekki nægja að Tedros Adhanom, framkvæmdastjóri WHO, verði látinn fallast á sverð sitt.

* * *

Víðs vegar um heim hefur neyðin vegna heimsfaraldursins orðið til þess að regluverk hefur verið upphafið eða eftirlitsstofnanir hafa tilkynnt um tilslakanir eða flýtimeðferð, jafnvel niðurfellingu reglna, þar sem mannslíf séu í húfi. Óðni hlýtur að fyrirgefast sá misskilningur að regluverkið hafi einmitt átt að vera til þess að bjarga mannslífum, en nú kemur í ljós að þeim verði best borgið með því að láta reglurnar víkja! Að öllu gamni slepptu hlýtur það þó að vekja fólk til umhugsunar um nauðsyn alls þess regluverks þegar allt er í himnalagi, ef það reynist á hættutímum aðallega vera til þess að eyða tíma og verðmætum, jafnvel mannslífum.

* * *

Persónuvernd reyndi hér á landi að stöðva Kára Stefánsson og Íslenska erfðagreiningu við að hefja skimun og sama gerðist bæði í Bandaríkjunum og í Bretlandi. Þar reyndu eftirlitsstofnanir allt of lengi að hanga á reglugerðarverkinu og stjórna sjálfar hverjir mættu skima. Allt yrði að fara í gegnum „faglegt ferli“ en umfram allt þó þannig að allir þræðir yrðu í höndum hins opinbera, sem öllum hefði þó mátt ljóst vera að gætu aldrei annað verkefninu í tíma. Samt var þybbast við og þannig töpuðust víða dýrmætar vikur í baráttunni við veiruna.

* * *

Öðru máli gegndi hjá Þjóðverjum og Suður-Kóreumönnum en þar var ákveðið að virkja einkageirann frá fyrstu stundu. Þar með nýttust þúsundir rannsóknarstofa, sem einkageirinn bjó yfir og útbreiðsla veirunnar var hamin með fjölda skimana. Óskiljanlegt er hve nágrannar okkar, Bretar, voru lengi að átta sig en þeir virkjuðu ekki einkaframtakið með sér í baráttunni fyrr en í lok mars, þá tveimur vikum á eftir Bandaríkjamönnum, sem þó voru allt of seinir á sér. Að því er virðist snerist það mest um smákóngametnað í margslungnu heilbrigðiskerfinu þar.

* * *

En víkjum nú aftur heim og að krúnudjásni íslenskra eftirlitsstofna, Samkeppniseftirlitinu. Þótt sumir haldi því fram að áhrif Samkeppniseftirlitsins á framþróun í íslensku atvinnulífi séu til lengri tíma álíka mikil og áhrif Veðurstofunnar á veðurfar. Þó hafa völd og umsvif stofnunarinnar aukist undanfarin ár. Er nú svo komið að hún hefur miklu meiri valdsheimildir en systurstofnanir þess á Norðurlöndum, eins og Viðskiptaráð benti nýverið á í ágætum blaðaauglýsingum.

* * *

Þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, hugðist færa málefni Samkeppniseftirlitsins til nútímahorfs með tilslökunum á íþyngjandi samkeppnislögum síðastliðið haust fékk hún yfir sig skæðadrífu af gagnrýni frá stjórnendum eftirlitsins. Þar voru menn tilbúnir til þess að berjast með kjafti og klóm gegn öllum breytingum.

* * *

Þeir virtust raunar tilbúnir til að senda „leyniskyttur“ fram í fjölmiðla til að gagnrýna þá stjórnmálamenn sem vilja í einhverju takmarka völd eftirlitsins. Í nafni gagnsæis og góðra stjórnunarhátta gættu „skytturnar“ þess svo vitaskuld vandlega að ræða ekki hvort þeir væru eða hefðu verið launaðir verktakar hjá Samkeppniseftirlitinu. Gaman kynni að vera að fara nánar yfir það síðar, meðal annars í ljósi þess að fyrir þinginu liggur frumvarp um hagsmunavörslu, sem þó virðist ekki taka vel á öllum þáttum slíkra starfa, sér í lagi hjá hinu opinbera, eins og embættismenn á Ólympstindi hafi engar skoðanir eða hagsmuni, vini eða skjólstæðinga.

* * *

Og þessu tengt. Nýverið sagði Markaður Fréttablaðsins frá óheyrilegum kostnaði verslunarrisans Festar vegna starfa Lúðvíks Bergvinssonar, lögmanns og fyrrum þingmanns Samfylkingarinnar, sem óháðs kunnáttumanns til að hafa eftirlit með sátt þeirri sem eftirlitið krafðist til að leyfa samruna félaganna N1 og Krónunnar. Alls hefur Lúðvík sent Festi reikninga fyrir um 41 milljón króna frá haustinu 2018 eða sem nemur að meðaltali 2,9 milljónum króna á mánuði. Þessar upplýsingar komu fram í kynningu á aðalfundi Festar sem nýverið fór fram og vöktu eðlilega mikla athygli fundarmanna. Þetta var eins og að vera sagt frá því að fyrirtækið hefði tvo forstjóra á fullum launum.

* * *

Þessi frétt vakti litla athygli eins og flest annað sem ekki snýr að veirunni sem hugur landsmanna er nú bundinn við. Markaður  Fréttablaðsins  fylgdi svo fréttinni eftir í síðustu viku með að upplýsa lesendur um að lögmaðurinn Einar Gautur Steingrímsson, sérstakur kunnáttumaður, skipaður af Samkeppniseftirlitinu til að hafa eftirlit með sáttum þeim sem Hagar þurftu að samþykkja til að fá í gegn samruna við Olís, hafi einungis tekið um fimm milljónir króna fyrir sína vinnu það sem af er. Það gerir um 330 þúsund krónur á mánuði að meðaltali. Þessi samanburður er mjög áhugaverður, sér í lagi þar sem báðir sérstöku kunnáttumennirnir hófu störf haustið 2018. Í stuttu máli má segja að Festi hafa dregið stutta stráið — þeirra óháði kunnáttumaður er átta sinnum dýrari.

* * *

Nú er það svo að skipun þessara kunnáttumanna, Lúðvíks og Einars Gauts, er til ársins 2023, þannig að það er vel mögulegt að kostnaður Festis við störf Lúðvíks verði á annað hundrað milljónir króna áður en yfir líkur. Ætla má að Lúðvík þurfi að gera Samkeppniseftirlitinu grein fyrir þessum mikla kostnaði. Þá er það á almennu vitorði og meðal annars komið fram í fjölmiðlum að Ásgeir Einarsson, aðstoðarforstjóri Samkeppniseftirlitsins, er einn af bestu vinum Lúðvíks. Samherji úr lagadeildinni og úr starfinu í Samfylkingunni forðum.

* * *

Það er ástæðan fyrir því að í fréttatilkynningu eftirlitsins á dögunum var sérstaklega tekið fram að aðstoðarforstjórinn hefði ekki komið að hæfismatinu þar að lútandi. Hins vegar ekkert sagt um aðkomu hans að málinu að öðru leyti, svo um það verður ekki frekar fullyrt. Við blasir þó að þessi náni vinskapur þeirra Ásgeirs og Lúðvíks var augljóslega ávallt til þess fallinn að vekja óþægilegar spurningar. Frændsemi og kunningsskapur er ekki nýtt vandamál í íslenskri stjórnsýslu, kannski ekki síst í tiltölulega fámennri stétt eins og meðal lögmanna, en það þýðir ekki að menn geti leitt það hjá sér. Eða orðsporsáhættuna sem því getur fylgt.

* * *

Menn eiga ekki að gjalda slíks frekar en þeir mega njóta, en þegar valið stendur milli þess að þeir njóti mögulega eða gjaldi örugglega, þá þarf stjórnsýslan að njóta vafans.

* * *

Samkeppniseftirlitið hikaði ekki við að hafna tveimur öðrum kunnáttumönnum, sem stjórnendur Festar lögðu til, þeim Eyjólfi Árna Rafnssyni, fyrrum forstjóra Mannvits og formanni Samtaka atvinnulífsins, og Ólafi Þór Jóhannessyni, margreyndum stjórnanda og núverandi yfirmanni fjármálasviðs Skeljungs. Rök Samkeppniseftirlitsins voru að þeir hefðu haft „tengsl við félagið, keppinauta þess eða markaði sem það starfar á sem þóttu skapa vafa um óhæði gagnvart að minnsta kosti tilteknum verkefnum sem falla undir störf kunnáttumanns“, eins og sagði í tilkynningu þess.

* * *

Þar var ljóslega farið fram af ákaflega mikilli varúð, að líkindum til þess að enginn geti efast um réttsýni kunnáttumannsins, hæfi og hagsmunaleysi. Við blasir að efasemdirnar um Lúðvík voru ekki minni, sérstaklega vegna vináttunnar við aðstoðarforstjórann. Því jafnvel þó svo hann hafi þar hvergi komið nærri að nokkru leyti, þá leit það ekki þannig út og burtskýringin kom ekki fyrr en eftir að efasemdirnar höfðu komið fram á opinberum vettvangi. Sem sagt um seinan. Fyrir þá vini báða, Lúðvík og Ásgeir, Samkeppniseftirlitið og góða stjórnsýslu.

* * *

Síðastliðið haust supu landsmenn hveljur yfir fréttum sunnan frá Namibíu. Þar var því haldið fram að íslenskt fyrirtæki, Samherji, hefði greitt vinum embættismanna mútur, sem auðvitað komu að hluta embættismönnunum til góða á einhvern hátt, til að fá aðgang að gjöfulum fiskimiðum landsins. Því var haldið fram að án þessara greiðslna hefði Samherji hvorki komist lönd né strönd. Um þetta var framleiddur sérstakur Kveiksþáttur, skrifuð bók og málinu fylgt af mikilli festu af Ríkisútvarpinu og samstarfsmiðlum þess.

* * *

Stundum þarf þó ekki að leita langt yfir skammt. Þessar fréttir af Samkeppniseftirlitinu og óheyrilegum kostnaði við eftirlit með samruna eru án efa tilefni í einn safaríkan Kveiks-þátt. Óðinn hlakkar raunar til að sjá Helga Seljan rannsaka þessa hliðstæðu. Hann getur varla látið svona tækifæri fram hjá sér fara. Þeim virðist svipa saman hjörtunum, í Namibíu og Borgartúni.

* * *

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessa máls en oft er því haldið fram að enginn vilji kalla yfir sig reiði eftirlitsiðnaðarins. Öll skynsemis- og réttlætisrök virðast hníga að því að Festi kæri kunnáttumanninn fyrir tilhæfulausa reikninga eða bjóði honum að minnsta kosti að endurgreiða félaginu. Tíminn mun auðvitað leiða það í ljós. En þetta mál, eitt og sér, ætti að vera öllu góðu fólki tilefni íhugunar á þeirri stöðu sem fyrirtæki eru sett í þegar þau þurfa að lúta ægivaldi eftirlitsstofnana, sem fara sínu fram. Svo að ekki sé nú talað um kostnaðinn sem af svona stjórnsýslu hlýst en auðvitað endar reikningurinn hjá landsmönnum í formi hærra vöruverðs.

* * *

Fégræðgi og spilling eru eitruð blanda og ekki úr vegi að íhuga um páskahátíðina erindið góða úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, sem Davíð Oddsson kenndi okkur öllum fyrir nokkrum árum:

Undirrót allra lasta ágirndin kölluð er. Frómleika frá sér kasta fjárplógsmenn ágjarnir sem freklega elska féð, auði með okri safna, andlegri blessun hafna en setja sál í veð.

Óðinn óskar lesendum sínum gleðilegra páska!

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .