*

miðvikudagur, 20. október 2021
Leiðari
23. júlí 2021 08:55

Hlustum á vísindin!

Við­skipta­blaðið hvetur stjórn­völd til þess að byggja á­kvarðanir sínar á vísinda­legri nálgun, þ.e. styðjast við gögn og meta ó­líkar sviðs­myndir þeirra breyta sem skipta máli í stóra sam­henginu.

EPA

Viðskiptablaðið tekur heilshugar undir það að í viðureign okkar við heimsfaraldurinn sé heillavænlegast að byggja aðgerðir á vísindalegri nálgun, enda efla vísindi alla dáð. Sóttvarnalæknir hefur það hlutverk að hefta útbreiðslu faraldursins og því er viðbúið að hann komi með tillögur þar að lútandi. Það er svo hlutverk stjórnvalda að meta tillögurnar í víðara samhengi og nú þegar stærstur hluti þjóðarinnar hefur verið bólusettur eru aðrir hagsmunir sem lúta að lýðheilsu þjóðarinnar farnir að vega þyngra í heildarmyndinni. Nú er því farið að reyna á ákvarðanir stjórnvalda fyrir alvöru, sem er kannski óheppilegt í ljósi þess að stutt er í kosningar og viðbúið að stjórnmálamenn verði feimnari við að rugga bátnum. Á komandi misserum mun koma í ljós hvaða stjórnmálamenn eru starfi sínu vaxnir og þora að fylgja eigin sannfæringu og taka ákvarðanir sem byggja á vísindum fleiri fræðasviða en aðeins faraldursfræða.

Það er þó þannig við þessar fordæmalausu aðstæður að þau vísindi sem hægt er að byggja á, jafnvel í faraldursfræðum, eru af skornum skammti. Óvissan er mikil og reglulega verða óvæntar vendingar og breytingar á forsendum - veiran er óútreiknanleg. Þegar rýnt er í minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis með tillögum um hertar aðgerðir á landamærum og rökstuðningi þar að lútandi kemur bersýnilega í ljós hve snúið verkefnið er.

Séu heimildir sóttvarnalæknis í minnisblaðinu skoðaðar má merkja nokkuð sem innan vísinda er kallað staðfestingarbjagi, það er sú tilhneiging fólks - líka vísindamanna - að einblína á þann sannleika sem styður sýn þess. Samkvæmt þeim heimildum sem vísað er til í minnisblaðinu er smitfjöldi á hraðri uppleið víða, en af þeim löndum sem gögn Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar ná til eru aðeins tvö með leitni í átt að fjölgun innlagna á gjörgæslu, bæði með bólusetningarhlutfall undir 60%, í mun fleiri löndum hefur tíðnin farið lækkandi. Á þetta er ekki minnst í minnisblaðinu.

Í minnisblaðinu nefnir Þórólfur að frá Ísrael séu að berast upplýsingar um verulega fjölgun smita meðal bólusettra og að einnig megi merkja fjölgun alvarlegra veikindatilfella og spítalainnlagna þar í landi. Það er tvennt sem hefði mátt nefna í því samhengi. Í fyrsta lagi eru fullbólusettir í Ísrael aðeins um 56%, sem er undir þeim viðmiðum sem þarf til að hefta útbreiðslu miðað við 90% smitvörn bóluefna. Í öðru lagi hefði mátt minnast á að ein þeirra rannsókna sem hann vísar til hvað varðar virkni bóluefna, sú sem bóluefnaframleiðandinn Pfizer styðst við, er einmitt framkvæmd í Ísrael. Niðurstöður þeirrar rannsóknar eru að bólusetning veiti 93% vörn gegn spítalainnlögn og 64% vörn gegn sýkingu. Aðeins einn fullbólusettur Ísraeli liggur alvarlega sjúkur á spítala með COVID-19 undir 60 ára aldri, enginn undir fimmtugu. Ljóst má þó vera af stöðunni þar í landi að áhættuhópar séu í meiri hættu á að veikjast alvarlega og hafa Ísraelar þegar brugðist við því með því að hefja að veita áhættuhópum þriðja bóluefnaskammtinn til að auka vörn þeirra.

Í minnisblaðinu er ekki að finna hvert markmið aðgerða er nú, hvað þá greiningu á því hvaða leiðir eru í boði til að ná því og hverjar eru vænlegastar til árangurs; vísindalegur rökstuðningur fyrir tillögum sóttvarnalæknis er í raun afar takmarkaður. Sóttvarnalæknir segir þar að stjórnvöld þurfi að vera tilbúin að grípa til ráðstafana innanlands ef útbreiðsla faraldursins eykst til muna eða ef einstaklingar fara að veikjast alvarlega. Hér þarf aðeins að staldra við „eða". Hvaða vísindalegu forsendur eru fyrir því að hefta þurfi smit ef einstaklingar eru ekki að veikjast alvarlega?

Af minnisblaðinu má draga þá ályktun að bólusetning veiti almennt mjög árangursríka vörn gegn alvarlegum veikindum en að veiran ógni helst áhættuhópum. Út frá því væri eðlilegt markmið að vernda áhættuhópa. Það er erfitt að sjá hvernig því markmiði verður náð með því að krefja bólusetta farþega um neikvætt próf fyrir komu þegar veiran er þegar á fullri ferð í samfélaginu.

Væri ekki nær að fara að fordæmi Ísraela og veita áhættuhópum þriðja skammt af bóluefni til að auka vörn þeirra og hefja bólusetningu yngri og óbólusettra árganga? Hér á Íslandi er til bóluefni, en bólusetningar eru að vísu í sumarfríi. Aðrar aðgerðir er varla hægt að réttlæta. Veiran er ekkert á förum og mun halda áfram að stökkbreytast, og alltaf verða einhverjir hópar sem bóluefnið ver ekki eða illa. Ef það á að verja þá með því að reyna að halda veirunni frá samfélaginu er ljóst að við munum þurfa að lifa við takmarkanir til langrar framtíðar, með þeim efnahagslegu hamförum sem því munu fylgja. Stjórnmálamenn þurfa að vega og meta heildarhagsmunina en ljóst er að ef forsendur eru til takmarkana núna verða þær sömu forsendur til staðar lengi.

Viðskiptablaðið hvetur stjórnvöld til þess að byggja ákvarðanir sínar á vísindalegri nálgun, þ.e. styðjast við gögn og meta ólíkar sviðsmyndir þeirra breyta sem skipta máli í stóra samhenginu. Mikilvægt er að týna sér ekki í rörsýn á smitfjölda ef alvarleg veikindi eru fátíð og ekki hætta á ofálagi á heilbrigðiskerfið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.