*

mánudagur, 25. janúar 2021
Andrés Magnússon
8. júní 2020 09:10

Hlutabótaleið RÚV

37 þúsund launþegar hafa nýtt hlutabótaleiðina. RÚV tilgreindi átta félög sem þegið hafa aðstoðina, þar að meðal VB.

Ríkisútvarpið er til húsa við Efstaleiti 1.
Haraldur Guðjónsson

Það er óþarfi að rekja það fyrir lesendum hversu mikil og víðtæk efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins eru. Það á jafnt við á Íslandi, sem þó virðist hafa sloppið tilölulega vel, og fyrir heimsbyggðina alla. Engin leið er að segja fyrir um hversu djúp eða langvinn sú niðursveifla verður, en það eitt að lönd hafi glatað 10-25% landsframleiðslunnar á einu bretti hefur vitaskuld gríðarleg áhrif á bæði efnahagslíf og einstaklinga, jafnvel þó svo allt færðist nú til fyrra horfs, hratt og örugglega. Sem verður víst að teljast fremur hæpið.

Það kann mjög að velta á viðbrögðum í hverju landi, bæði við efnahagsskellinum á meðan faraldurinn gekk yfir og þeim ráðstöfunum sem gripið er til þess að ýta eilítið ryðguðu hjóli atvinnulífsins af stað aftur. Hér á Íslandi hefur verið gripið til ýmissa úrræða í því skyni og fleiri raunar í bígerð.

Atvinnugreinar hafa vitaskuld farið misilla út úr plágunni, en fjölmiðlar eru meðal þeirra sem hefur vegnað einna verst. Um leið og faraldursins varð vart kolféll auglýsingasala, en hitt skipti auðvitað ekki minna máli að rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur verið þeim ákaflega erfitt undanfarin ár; þeir velflestir reknir með tapi og í raun má segja að þeir séu eina atvinnugreinin, sem aldrei rétti úr kútnum eftir hrun.

                                                               ***

Þrátt fyrir að fjölmiðlaneysla hafi aukist töluvert í heimsfaraldrinum hefur það ekki breytt neinu um reksturinn, þar sem auglýsingasalan hefur látið á sér standa og lausasala prentmiðla fallið mjög. Ein afleiðing þess var að tímaritaútgáfan Birtíngur, sem gefur út Vikuna, Gestgjafann, Hús & híbýlii og Mannlíf, sá sig tilneydda til þess að segja upp meirihluta starfsmanna sinna í liðinni viku.

Fólk getur líka talið síðurnar í dagblöðunum, nú eða fjölda auglýsingasíðna þeirra, til þess að sjá að þar er ekki glatt á hjalla í söludeildunum. Rekstur þeirra hefur verið þungur mörg undanfarin ár og léttist ekki við þetta.

                                                               ***

Útgáfa Mylluseturs, sem gefur út Viðskiptablaðið, Fiskifréttir og Frjálsa verslun, auk árvissra sérrita, hefur líka dregist mikið saman í faraldrinum. Lesendur Viðskiptablaðsins og Fiskifrétta hafa vafalaust tekið eftir því að síðunum hefur fækkað nokkuð, útgáfa Frjálsrar verslunar hefur frestast, sem og útgáfa Tekjublaðsins. Þá hefur sérblaðaútgáfa svo gott sem lagst af og má sem dæmi nefna að útgáfa árlegs 100 síðna sérblaðs í tengslum við sýninguna Verk og vit í marsmánuði féll niður um leið og sýningunni var frestað vegna faraldursins. Allt þetta hefur augljóslega áhrif á afkomu lítillar og sérhæfðrar útgáfu eins og Mylluseturs, sem við varð að bregðast. Í stað þess að segja upp fólki ákvað félagið því að fara hlutabótaleiðina, líkt og 6.435 annarra fyrirtækja og ríflega 37 þúsund launþega hafa notið góðs af, leið sem flestum ber saman um að hafi reynst vel á þessum fordæmalausu tímum.

                                                               ***

Í kvöldfréttatímum RÚV á fimmtudag sögðu Dagný Hulda Erlendsdóttir (í hljóðvarpi) og Sigríður Dögg Auðunsdóttir (í sjónvarpi) svo að segja sömu frétt um hlutabótaleiðina, þar sem uppleggið var gagnrýni Ríkisendurskoðanda á framkvæmdina, sem fann að því að ekki hafi verið eftirlit með þeim fyrirtækjum sem settu starfsfólk á hlutabætur og að úrræðið hefði reynst mun dýrara en til stóð.

Í fréttinni voru m.a. tínd til átta fyrirtæki, sem nýtt hefðu sér þetta úrræði, nánar tiltekið Icelandair, Flugleiðahótel, Bláa lónið, IKEA, Össur, Sýn, Advania og síðast en ekki síst Viðskiptablaðið, sem sagt var hafa sett 15 manns á hlutabætur.

Þessi framsetning fréttastofu Ríkisútvarpsins er óskiljanleg. Icelandair veltir um 200 milljörðum króna á ári og undanfarin ár hafa starfað þar tæplega 5.000 manns að jafnaði. Bláa lónið veltir um það bil 18 milljörðum ári og hefur verið með ríflega 700 manns í vinnu. Hjá IKEA starfa rúmlega 300 manns og félagið veltir meira en 11 milljörðum króna. Össur veltir um 90 milljörðum króna með um 4.000 starfsmenn, Sýn veltir 22 milljörðum króna og með um 500 manns á sínum snærum og Advania á Íslandi veltir um það 15 milljörðum og er með um 600 manns í vinnu.

Myllusetur á nákvæmlega ekkert sameiginlegt með þessum fyrirtækjum. Félagið veltir um 300 milljónum króna á ári og er með 15 manns í vinnu, en þeir eru ekki allir að störfum við Viðskiptablaðið, eins og þær Sigríður Dögg og Dagný Hulda fullyrtu. Af þeim 6.436 fyrirtækjum, sem hafa notfært sér hlutabótaleiðina, hafa nöfn um 1.150 verið birt. Af fyrirtækjunum, sem nefnd voru í RÚV, er vel skiljanlegt að hin fyrstu sjö hafi verið nefnd, þau eru öll stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða og sum mjög stöndug. Það er allt fréttnæmt af ýmsum ástæðum. En hvernig 15 manna útgáfa á efri hæð í Ármúlanum fellur í þann flokk og að það eigi sérstakt erindi við almenning er óskiljanlegt.

                                                               ***

Það er erfitt að átta sig á því hvað geti legið þar að baki. Myllusetur var ekki eina fjölmiðlafyrirtækið, sem fór þessa leið, svo varla var það annáluð sjálfhverfa fjölmiðlafólks, sem því réði. Nú hafa sum fyrirtæki verið gagnrýnd fyrir að hafa notfært sér hlutabótaleiðina að óþörfu, þá oft í ljósi stærðar þeirra, hagnaðar á umliðnum árum eða arðgreiðslna, þó sú gagnrýni hafi ekki öll verið mjög sanngjörn. Það átti m.a. við um tvö fyrirtæki, sem nefnd voru í frétt RÚV, en heldur er nú ósennilegt að þær stöllur ímyndi sér að Myllusetur með sín 15 manns og næfurþunna rekstur falli þar undir.

En þá rifjast upp fyrir fjölmiðlarýni, að um miðjan maímánuð birti Viðskiptablaðið forsíðufrétt undir fyrir sögninni „Pólitík fyrirferðarmeiri en umræða um rekstur“, sem byggð var á langþráðum upplýsingum úr fundargerðum stjórnar RÚV. Óhætt er að segja að sú frétt hafi ekki verið Ríkisútvarpinu til álitsauka, en viku síðar var drepið á hana og vinnubrögðin í Efstaleiti í þessum dálki og bæði fundið að störfum stjórnenda RÚV og menntamálaráðherra. Getur hugsast að það hafi orðið Viðskiptablaðinu og Myllusetri til slíkrar óhelgi í Efstaleiti? Það segir manni þá bara meira um hugarfarið og vinnubrögðin þar. Sem auðvitað er enn hlægilegra (og sorglegra) þegar haft er í huga að hjá Ríkisútvarpinu eru allir starfsmenn á 100% hlutabótaleið, alla daga, öll ár.

Fjölmiðlarýni Andrésar Magnússonar birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublað, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.