*

þriðjudagur, 31. mars 2020
Óðinn
15. október 2019 18:43

Hlutabréfamarkaður, framtak og hagsæld

Við erum öll hluthafar í íslenska draumnum, og því meira sem við eigum hvert undir öðru, þeim mun betur vegnar okkur sem þjóðar.

Haraldur Guðjónsson

Hlutabréfamarkaðurinn er ungur á Íslandi. Kauphöll Íslands var stofnuð árið 1985, viðskipti með skuldabréf hófust ári síðar en viðskipti með hlutabréf árið 1990. Til samanburðar var Kauphöllin í Kaupmannahöfn stofnuð árið 1808.

                                                             ***

Áður höfðu raunar verið gerðar tilraunir til þess að koma á skipulögðum verðbréfamarkaði á Íslandi. Meðal annars reyndi Sveinn Björnsson, síðar forseti, að koma á viðskiptum með veðskuldabréf Landsbankans á öðrum áratug aldarinnar. Hann ætlaði sjálfur að auglýsa bréfin og selja og aðstoða kaupendur við umsýsluna. Þóknun hans skyldi vera 1% fyrir söluna frá útgefanda. Stjórn bankans tók þetta hins vegar ekki í mál. Í endurminningum sínum sagði Sveinn sig hafa farið af fundi bankastjóra Landsbankans með það á tilfinningunni að bankastjórinn teldi hann glæpamann, sem ætlaði að koma bankanum á kné.

                                                             ***

Árið 1934 var Kauphöllin svo stofnuð. Þetta var fyrirtæki, ekki eiginleg kauphöll, sem fékkst við verðbréfaviðskipti og um tíma voru töluverð viðskipti með bréf Eimskips fyrir milligöngu starfsmanna Kauphallarinnar. Stofnandi félagsins var Stefán Bjarnason en stuttu eftir stofnun hóf Aron Guðbrandsson störf og varð meðeigandi. Aron var rakari að iðn, en dvaldi í Danmörku um tveggja ára skeið í lækningaskyni og kynnti sér á meðan m.a. fjármál og hagfræði. Ráku þeir Stefán og Aron fyrirtækið í sameiningu uns Stefán lést árið 1953. Aron, sem jafnan var þekktur sem Aron í kauphöllinn, rak fyrirtækið einn til dauðadags síðla árs 1981. Að Aroni látnum lagðist starfsemin niður, en Seðlabankinn fékk heiti fyrirtækisins að gjöf.

                                                             ***

Ekki má gleyma því að hlutafélagalöggjöfin er ung á Íslandi og einkarekstur, rekstur með fullri ábyrgð eigandans, var mjög algengt rekstrarform allt þar til lög um einkahlutafélög voru sett árið 1995. Jafnvel stórfyrirtæki voru rekin í einkarekstrarforminu fram á þennan tíma. Sum raunar lengur, eins og oft mátti sjá á álagningarskrám, þar sem ýmsir stórvezírar íslensks viðskiptalífs ráku fyrirtækjasamsteypur í eigin nafni. Í rassvasanum, sögðu sumir.

                                                             ***

Hlutabréf standa í stað

Hlutabréfavísitala Kauphallar Íslands, OMXI10, hefur nánast staðið í stað undanfarin þrjú ár, þó að hún hafi vissulega stundum hækkað töluvert innan þess tímabils, til að mynda í sumar, en svo lækkað aftur. Það er sérstakt að hlutabréfamarkaðir standi í stað yfir svo langt tímabil á sama tíma og hagvöxtur hefur verið mjög myndarlegur.

                                                             ***

Þrátt fyrir verulegar vaxtalækkanir undanfarna mánuði og mun lægri vexti skuldabréfa, og fyrirsjáanlegar frekari lækkanir á næstunni, þá hafa hlutabréf almennt gefið verulega eftir eftir ágætt vor og sumarbyrjun.

                                                             ***

Það er eftirtektarvert að svipuð vandamál virðast hrjá markaðinn nú, eins og þegar hann var að slíta barnskónum fyrir um þremur áratugum. Höfum við ekkert gengið til góðs, götuna fram eftir veg?

                                                             ***

Þá er til þess að líta að þrátt fyrir að aðalvísitalan hafi staðið í stað, hefur gengi einstakra félaga verið afar mismunandi. Þannig muna margir ótæpilegt gengi hlutabréfavísitölunnar í bólunni í aðdraganda hrunsins, sem stýrðist nær alfarið af gengi viðskiptabankanna (þó vissulega hafi mörg félög önnur, ekki verið síður bólgin umfram efni). Það sem skýrir lækkun vísitölunnar undanfarin misseri er einkum stórfelld lækkun á Icelandair. Árið 2016 — mitt í ferðaævintýrinu — var Icelandair eitt verðmætasta félagið í kauphöllinni, en síðan hefur félagið lækkað um 75%, sem er algerlega epískur viðsnúningur, hvernig sem á er litið. Hækkun á Marel hefur vegið miklar lækkanir Icelandair upp. Í vísitölunni, altjent.

                                                             ***

Hvar eru fjárfestarnir?

Eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008 og verðhrun í kauphöllinni hefur almenningur ekki keypt hlutabréf, svo neinu nemur. Það er skiljanlegt og enn skiljanlegra í ljósi þeirra háu raunvaxta sem hafa verið hér í næstum áratug. Allt þar til nú.

                                                             ***

Eigendur skuldabréfa og hlutdeildaskírteina í skuldabréfasjóðum verða að öllum líkindum mjög ánægðir um næstu áramót, enda ávöxtunin góð, því krafan hefur dúndrast niður. En ballið verður brátt búið og raunávöxtunin verður lítil sem engin, og líklega neikvæð þegar fjármagntekjuskatturinn hefur verið reiknaður. Það mun væntanlega slá eilítið á áramótagleðina.

                                                             ***

Þarf skattaafslátt?

En það er engan veginn víst að slök ávöxtun muni draga almenning inn á hlutabréfamarkaðinn aftur. Sem er áhyggjuefni, því þar er einmitt þeirrar nýbreytni (og áhættu) að leita, sem þarf til þess að viðhalda vexti í atvinnulífi. Því þarf að auka áhuga almennings á innlendum hlutabréfum sem sparnaðarformi, því hagkerfið — hvað þá atvinnulíf og fjármálakerfi — má ekki við neinni stöðnun.

                                                             ***

Ein leið til þess að örva áhuga almennings á hlutabréfamarkaðnum er að skoða skattalega hvata. Svipaða og notast var á árunum 1984–2002, þar sem einstaklingar fengu skattaafslátt vegna kaupa á hlutabréfum. Skilyrðin voru ströng framan af, en voru rýmkuð og eftir 1989 fór almenningur að nýtast sér þessa leið í miklum mæli. Með hreint ágætum árangri. Bæði fyrir fjárfesta, atvinnulíf og almenning.

                                                             ***

Tekjuháir nýttu sér þetta fremur en tekjulágir, en þó var meira jafnvægi milli tekjuhópa en margir hefðu ætlað. Ríkisskattstjóri gerði athugun á framtölum 1996 (vegna tekjuársins 1995) á því hvernig frádráttur vegna hlutabréfakaupa dreifðist eftir tekjum og skipti upp í fimm hópa. Hjá hjónum og sambúðarfólki var niðurstaðan sú að 46,6% heildarfrádráttarins voru vegna tekjuhæsta hópsins, 23,4% vegna næsttekjuhæsta hópsins, þá 15,4% vegna miðjuhópsins, 11,5% vegna næsttekjulægsta hópsins og loks 3,2% vegna tekjulægsta hópsins.

                                                             ***

Miðað við þá athugun má líklegt telja að nú myndu allir tekjuhópar nýta sér slíkan skattaafslátt í verulegum mæli, utan þeirra tekjulægstu.

                                                             ***

Mikilvægt að almenningur skilji fyrirtækjarekstur

Ríkisreksturinn hefur stóraukist á undanförnum áratugum og þar af leiðandi er stór hluti almennings í engum tengslum við hvar verðmætin verða til. Til þess að bæta gráu ofan á svart urðu vafalaust margir fráhverfir atvinnulífi og framtaki í kjölfar hrunsins. Á móti má segja að skilningur manna á mikilvægi þess hafi ekki horfið, eins og birtist afar skýrt í uppgangi ferðaþjónustu undanfarin ár og þúsundir og aftur þúsundir manna reyndust hafa fulla trú á einstaklingsframtakinu, mætti sínum og megni.

                                                             ***

Með því að hvetja til kaupa á hlutabréfum aukast líkurnar á því að tengslin styrkist og fleiri og fleiri skilji að peningar vaxi ekki á trjánum, skilji gangverk efnahagslífsins og hvaða áhrif skattar, opinber umsvif og ríkisafskipti hafa á ákvarðanir stjórnenda og eigenda fyrirtækja. Að ekki sé minnst á afkomu einstaklinga, fólksins í landinu.

                                                             ***

Þetta síðasta skiptir verulegu máli. Við erum öll hér á sama báti, örfáar hræður norður í Ballarhafi, þar sem verðmætasköpun, efnaleg velsæld og lífshlaup fólks er nátengt. Launþega sem vinnuveitenda, frumkvöðla jafnt og neytenda. Við erum öll hluthafar í íslensku samfélagi, íslenska draumnum, og eftir því sem við eigum meiri sameiginlegra hagsmuna að gæta, meira hvert undir öðru, þeim mun betur mun okkur vegna sem þjóð.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.