*

laugardagur, 5. desember 2020
Leiðari
15. maí 2020 13:31

„Hlutleysi" RÚV

Hin pólitískt skipaða stjórn virðist allt umlykjandi - frammistaða spyrla í kosningasjónvarpi til umræðu og innslög í Landanum gagnrýnd.

Höfuðstöðvar Ríkisúvarpsins í Efstaleiti.
Aðsend mynd

Ríkisútvarpið á að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. „Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.“ Svo hljóðar 1. grein laga um Ríkisútvarpið. Í lögunum kemur enn fremur fram að Ríkisútvarpið skuli vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum.

Í lögunum er farið yfir starfssvið stjórnar Ríkisútvarpsins og þar er mesta áherslan lögð á að rekstrarhliðina. Stjórnin á fylgjast með rekstrinum, samþykkja fjárhagsáætlanir, taka ákvarðanir um lán og ábyrgðir og svo framvegis. Í einum lið af átta kemur raunar fram að stjórnin eigi, í samvinnu við útvarpsstjóra, að móta „dagskrárstefnu og megináherslur í starfi Ríkisútvarpsins“. Vandséð er hvernig þetta samræmist 1. grein laganna um að Ríkisútvarpið skuli óháð stjórnmálalegum hagsmunum. Stjórnin er jú pólitískt skipuð.

Eins og fjallað er um í Viðskiptablaðinu í dag fékk blaðið fundargerðir stjórnar frá ársbyrjun 2018 til júlíloka síðasta sumar. Fjölþætt upplýsingahlutverk Ríkisútvarpsins nær augljóslega ekki til stjórnar. Beiðni Viðskiptablaðsins um að fá fundargerðirnar var send í ágúst í fyrra. Þegar engin svör höfðu borist í nóvember kvartaði blaðið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Jafnvel það var ekki nóg því stjórnin hunsaði úrskurðarnefndina í þrjá mánuði, sem varð til þess að málið var tekið til efnislegrar meðferðar án þess að stjórnin hefði tekið formlega afstöðu til erindis Viðskiptablaðsins. Þetta er einstakt enda þótti nefndinni tilefni til þess að finna sérstaklega að sinnuleysi stjórnarinnar.

Þrátt fyrir að meginhlutverk stjórnarinnar snúi að rekstri Ríkisútvarpsins fer óvenjulítið fyrir umræðum um reksturinn og rímar það vel við aðfinnslur í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, sem birt var fyrir áramót. Í úttektinni var meðal annars vikið að því að RÚV hefði látið undir höfuð leggjast að stofna dótturfélög um samkeppnisstarfsemina þrátt fyrir skýran lagabókstaf um efnið. Það var ekki fyrr eftir úttekt ríkisendurskoðanda sem RÚV stofnaði dótturfélagið RÚV sala ehf. Af fundargerðunum að dæma var félagið ekki stofnað þar sem Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og ráðuneyti hafi óskað eftir því að „stjórn héldi að sér höndum varðandi stofnun“ slíks félags.

Núningur á milli stjórnar og menntamálaráðherra verður síðan enn skýrari þegar kemur að umræðum um lífeyrisskuldbindingar RÚV. Þar segir Mörður Árnason stjórnarmaður að hann eigi ekki von á því að mikið gerist í þeim málum hjá „núverandi mennta- og menningarmálaráðherra. Forsætisráðherra sé mikilvægur í þessu samhengi.“

Í fundargerðunum er Fjölmiðlanefnd líka gagnrýnd og þá sérstaklega eftir breytta skipan þeirrar nefndar. „Þá má greina annan tón eftir breytta skipan nefndarinnar. Svo virðist sem nefndin ætli að þrengja skilgreiningar og þar með takmarka markvisst möguleika RÚV til öflunar tekna í gegnum auglýsingar og kostanir,“ segir í fundargerð stjórnar RÚV.

Þó að stjórnarmenn séu ekki sérlega kappsamir um að sinna meginhlutverki sínu sem snýr að rekstri RÚV viðra þeir skoðanir sínar á ýmsu öðru, til dæmis ritstjórnarlegum efnistökum starfsmanna. Stjórnarmenn eru til dæmis að ræða frammistöðu spyrla í kosningasjónvarpi RÚV. Umræður um þetta eru afmáðar í fundargerðunum sem Viðskiptablaðið fékk. Þá taldi stjórnarmaður efnistök Landans vera of viðskiptamiðuð, „fyrirtækjanálgun væri of augljós og RÚV ekki til sóma“.

Á því eina hálfa ári sem fundargerðirnar ná til má sjá að fréttastjóri mætir á tvo fundi til að „kynna helstu verkefni fréttastofunnar og helstu verkefni næstu mánuði“. Ekki er greint sérstaklega frá umræðunum, sem voru í gangi á meðan á þessum kynningum fréttastjórans stóð. Um hvað var rætt?

Allt þetta hlýtur að vekja upp spurningar um það hvort eldveggurinn á milli pólitískt skipaðar stjórnar og sjálfstæðrar ritstjórnar og dagskrárgerðar sé úr pappa og hvort hið margumrædda og „rómaða hlutleysi“ Ríkisútvarpsins séu orðin tóm. Hin pólitískt skipaða stjórn virðist allt umlykjandi.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.