Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins (27. maí sl.) tekur framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, hagsmunasamtaka innflytjenda og heildsala enn upp pennann og fjallar um samning Íslands við ESB um landbúnaðarvörur. Tilefnið er að Utanríkisráðuneytið vinnur nú að endurskoðun þessa samnings eins og fram kom í nýlegu skriflegu svari þess við fyrirspurn um málið á alþingi sjá, https://www.althingi.is/altext/152/s/1047.html.

Af hverju endurskoðun ESB samnings um landbúnaðarvörur?

Í svarinu kemur fram að úttekt utanríkisráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, sem kynnt var þann 17. desember 2020, hafi leitt í ljós að viðskiptasamningur Íslands og ESB með landbúnaðarvörur gagnist ekki íslenskum útflytjendum.

Í svarinu segir m.a.: „Að fengnu samþykki ríkisstjórnar óskuðu stjórnvöld eftir endurskoðun landbúnaðarsamningsins á grundvelli þess að langtímabreytingar hefðu orðið á forsendum samningsins. Snúa þær forsendubreytingar bæði að útgöngu Bretlands úr ESB sem og því að framtíðarspár um möguleika íslensks landbúnaðar til útflutnings hafa ekki gengið eftir. Það hefur því skapast ójafnvægi á milli samningsaðila varðandi nýtingu á þeim möguleikum sem samningurinn felur í sér. Aðalmarkmið viðræðnanna af Íslands hálfu er að auka jafnvægi í samningnum.“

EES klukkan og útúrsnúningur

Í grein sinni fjallar framkvæmdastjórinn um það að endurskoðun samningsins sé tilkomin vegna þess að hagsmunasamtök berjist fyrir því að klukkunni verði „snúið til baka“ og fullyrt að það sé ekki hægt vegna þess að EES samningurinn geri ráð fyrir aukinni fríverslun – m.ö.o. ekki sé hægt að snúa klukkunni til baka.

Þetta er rangt og felur í sér misskilning á eðli og inntaki alþjóðasamninga. Alþjóðasamningar byggja iðulega á tilteknu hagsmunamati ríkja og endurspeglar efni samninganna það hagsmunamat á hverjum tíma. Þetta hagsmunamat getur breyst og samningurinn við ESB endurspeglar það. Það felur ekki í sér að klukkunni sé „snúið til baka“, heldur einungis að ríki gæti hagsmuna sinna að teknu tilliti til aðstæðna á hverjum tíma. Er þetta framkvæmd sem ESB notar sjálft þegar það gerir samninga við einstök ríki. Af hverju ætti Ísland ekki að gera hið sama?

EES samningurinn og fríverslun

Framkvæmdastjórinn fullyrðir að EES samningurinn geri ráð fyrir aukinni fríverslun. Þessi framsetning felur í sér mikla einföldun, svo vægt sé til orða tekið. EES samningurinn gerir vissulega ráð fyrir að leitað verði samninga til að auka viðskiptafrelsi með búvörur en hann ætlast á engan hátt til að stuðla að ójafnræði.

Margsinnis hefur verið bent á að þriðji samningsaðilinn að EES samningnum, Noregur, hefur farið mun hægar fram í gerð samninga um landbúnaðarvörur, ekki síst með vísan til þess að aukinn innflutningur landbúnaðarvara eigi að gagnast báðum samningsaðilum, þ.e. bæði Noregi og ESB. Fyrir þeirri stefnu Noregs eru góðar og gildar ástæður sem eiga ekki síður við um Ísland en Noreg þótt framkvæmdastjóri FA þykist ekki sjá þær.

Um stríðsátök og fæðuöryggi Félags atvinnurekenda

Áhyggjur alþjóðastofnana nú beinast að útflutningsbanni og öðrum viðskiptahindrunum á útflutning frá helstu matvælaframleiðsluríkjum heimsins. Á þriðja tug slíkra landa hafa þegar gripið til einhverra slíkra aðgerða. Vegna truflana á framboði og mikillar hækkunar á aðfangaverði sem stafa m.a. af stríðsátökum hafa ríkisstjórnir um allan heim nú áhyggjur af fæðuöryggi þegna sinna. Almennt eru viðbrögðin þau að grípa til aðgerða til að styðja innlenda framleiðendur til að auka framleiðslu sína þar sem ekki er hægt að treysta á innflutning. Fréttir síðustu daga benda einmitt á að hætta er á framleiðslusamdrætti, þar á meðal hér á landi, vegna gríðarlegra kostnaðarhækkana við framleiðsluna.

Í þessu ljósi er það sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt, að berjast fyrir því að enn frekar sé grafið undan innlendri landbúnaðarframleiðslu með ósanngjörnum, einhliða tollalækkunum og mæta samdrættinum með auknum innflutningi þegar matvælaskortur er yfirvofandi í heiminum og aðrar þjóðir telja sig ekki geta reitt sig á innflutning slíkra vara.

Rembihnútur Félags atvinnurekenda

Sem fyrr er greinarhöfundur á öndverðum meiði við framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. Vonandi mun framkvæmdastjórinn kynna sér málin betur áður en hann tjáir sig. Það að umturna hlutunum og slíta þá úr samhengi eins og gert er í grein hans leiðir fremur til rembihnúts en endahnúts.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 2. júní 2022.