*

miðvikudagur, 27. október 2021
Leiðari
22. janúar 2021 15:41

Hnattrænt Bretland

Verði niðurstaða Brexit frjálsari viðskipti og nánara samstarf og tengsl Bretlands við Evrópu og umheiminn, mega þau 27 ríki sem eftir standa gjarnan fylgja í þeirra fótspor.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
epa

Um áramótin lauk tæplega 50 ára aðild Bretlands að Evrópusambandinu og fyrirrennurum þess, sem aðeins taldi sex lönd þegar landið gekk þar inn árið 1973, en þekur í dag næstum alla álfuna og telur 27 lönd.

Niðurstaða Brexit-kosningarinnar sumarið 2016 kom mörgum í opna skjöldu, og mjótt var á munum. Enn færri hafa eflaust getað gert sér í hugarlund þá atburðarás sem við tók, með ítrekuðum töfum á virkjun útgönguákvæðis ESB sem formlega hóf útgönguna, og aftur þegar hún átti að taka gildi tveimur árum síðar.

Meðal helstu ástæðna fyrir útgöngu var vilji til að endurheimta stjórn á landamærunum, reglugerðum og efnahagsmálum almennt, og sleppa við kostnað aðildar, en Bretland greiddi nettó næstmest til sambandsins á eftir Þýskalandi. Sumir kusu einnig útgöngu að einhverju leyti til að koma höggi á og lýsa yfir óánægju með sitjandi ríkisstjórn, sem talaði fyrir áframhaldandi veru í sambandinu.

Þegar niðurstaðan lá fyrir tók við samningaferli við sambandið um hvernig útgöngu skyldi háttað, og hvernig samband eyríkisins við ríkjasambandið yrði. Semja þurfti um allt mögulegt - almannatryggingar, landvistarleyfi, rannsóknarsamstarf, öryggismál og svo mætti lengi telja - en veigamestir voru þó tvímælalaust skilmálar viðskipta milli Breta og sambandsins.

Ekki er orðum aukið að útgangan hafi heltekið alla stjórnmálaumræðu í Bretlandi síðan, og ákvörðunin og ferlið sem hún hrundi af stað hefur fellt tvo forsætisráðherra. Endalausar umræður um „harða" eða „mjúka" útgöngu, samningur felldur í þrígang í þinginu, vantrauststillaga gegn forsætisráðherra úr hennar eigin flokki, afsögn hennar að lokum, og áfram mætti lengi telja.

Frjáls og greið milliríkjaviðskipti eru forsenda góðra og batnandi lífskjara, ekki aðeins á Vesturlöndum, heldur um allan heim. Viðskiptablaðið fagnar því þeim útgöngusamningi sem náðist á elleftu stundu fyrir gildistöku útgöngunnar nú um áramótin, enda hefði samningslaus útganga, með þeim viðskiptahindrunum sem henni hefðu fylgt, verið stórslys fyrir atvinnulífið beggja vegna Ermarsundsins.

Þótt samningurinn feli í sér tollfrjáls vöruviðskipti, má þó kalla hann varnarsigur. Tekin verður upp tollafgreiðsla með tilheyrandi kostnaði og töfum, auk þess sem nánar á eftir að útfæra og semja endanlega um ýmislegt er varðar fjármálaþjónustu, matvælaeftirlit og tæknilega staðla, svo dæmi séu tekin.

Sumir af háværustu talsmönnum útgöngu, Boris Johnson núverandi forsætisráðherra þeirra á meðal, töluðu sérstaklega um tækifærin sem fælust í því að Bretland yrði frjálst til að semja um fríverslun við hvern sem er. Í fyrra gaf hann út stórhuga yfirlýsingar um fríverslunarviðræður við Bandaríkin, Japan, Nýja-Sjáland og Ástralíu, og slíkir samningar eru hans helsta utanríkisstefnumál. Í því samhengi hefur hann talað um „Hnattrænt Bretland".

Vilji Guðlaugs Þór Þórðarsonar utanríkisráðherra til meira frelsis í viðskiptum Bretlands og Íslands en ríkti fyrir útgönguna - sem hann lýsir meðal annars í viðtali í þessu blaði - er því eflaust kærkominn, þótt Ísland vegi kannski ekki allra þjóða þyngst í huga Johnsons.

Guðlaugur bætir svo um betur og segir það „afskaplega mikilvægt að þau lönd sem deila [evrópskum] gildum vinni eins þétt og náið saman og mögulegt er", ekki aðeins á sviði viðskipta heldur á öllum helstu sviðum alþjóðasamvinnu. Ráðherrann segir lykilatriði að svo verði, og segist ekki eiga von á öðru, þótt Bretar hafi ákveðið að yfirgefa sambandið.

Evrópusambandið og stofnanir þess eru hugsuð sem vettvangur fyrir samvinnu og sameiginlegar ákvarðanir aðildarþjóða sinna. Á margan hátt hefur það bætt lífskjör og samheldni íbúa sinna, en það hefur einnig þvælst fyrir og verið til trafala. Hvaða skoðun sem fólk kann að hafa á því, hefur Bretland nú endanlega yfirgefið það.

Eftir standa markmið Guðlaugs, Johnsons og allra þeirra sem telja hagsmunum þjóðar sinnar, heimsálfu og heimsins alls best borgið með sem frjálsastri milliríkjaverslun og sem nánastri alþjóðasamvinnu.

Sú vegferð krefst bæði vinnu og vilja. Gerð fríverslunarsamninga er flókin og tímafrek, og alþjóðasamvinna getur reynt verulega á pólitískan stuðning og samheldni. En verði niðurstaða Brexit frjálsari viðskipti og nánara samstarf og tengsl Bretlands við Evrópu og umheiminn, mega þau 27 ríki sem eftir standa gjarnan fylgja í þeirra fótspor.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.