*

mánudagur, 17. júní 2019
Leiðari
15. júní 2018 20:44

Hnígur sól í vestri

Það var hvatvísi, ófyrirleitni og óútreiknanleiki Trump sem dró Kim Jong-un að samningaborðinu.

Aðsend mynd

Hið sögulega samkomulag Bandaríkjanna og Norður-Kóreu boðar vatnaskil í alþjóðasamfélaginu. Það er vissulega aðeins fyrsta skrefið af mörgum til þess að stilla til varanlegs og vænlegs friðar á Kóreuskaga, það er ekki í hendi að hin endanlega gerð samkomulagsins reynist jafn skotheld og þörf er á, og það er alls ekki víst að Norður-Kórea standi við stóru orðin þegar á reynir. Orðheldni harðstjóra Norður-Kóreu hefur ekki verið annáluð til þessa.

Það breytir ekki hinu að þetta er sögulegur áfangi milli ríkjanna, sem hafa verið stál í stál síðan á sjötta áratug síðustu aldar, í landinu þar sem kalda stríðið þiðnaði aldrei. Fyrr en kannski nú.

Vissulega má hafa margvíslegar efasemdir um stjórnlist og háttvísi Donalds Trump. En það er ekki unnt að líta hjá hinu að það var einmitt hvatvísi forsetans, ófyrirleitni og óútreiknanleiki, sem dró Kim Jong-un að samningaborðinu. Jafnvel þó svo eiginlegur árangur kunni að láta á sér standa, þá má ekki gleyma því að frumkvæði af þessu tagi getur haft mikil áhrif þegar fram í sækir. Það ættu Íslendingar að þekkja vel frá hinum misheppnaða Reykjavíkurfundi þeirra Reagans og Gorbatsjovs, því í Höfða var þrátt fyrir allt lagður grunnur að þeirri miklu kjarnorkuafvopnun, sem nú er raunin.

Vel má vera að þetta sé til marks um nýja tíma í alþjóðasamskiptum. Samkomulagið í Singapúr er ekki eina vísbendingin um það, ekki þarf nema að líta til G7 leiðtogafundarins í Québec í Kanada í liðinni viku til þess að sjá hina hliðina á því. Sá fundur ríkjaleiðtoga áhrifamestu Vesturlanda fór fullkomlega út um þúfur, eins og Angela Merkel sýndi heiminum með því að dreifa mynd af sjálfri sér þjarma að Trump, sem kærði sig kollóttan. Afstaða forsetans er skýr, hann ætlar ekki una því lengur að Bandaríkin niðurgreiði landvarnir annarra Vesturlanda og þurfi jafnframt að verjast samkeppnisforskoti af sömu völdum. Röksemdafærsluna má draga í efa, en bandarískir kjósendur virðast standa með forsetanum í þessum efnum og sú afstaða mun vafalaust lifa embættistíð hans.

Spurningin er kannski fremur sú hvort hugtakið „Vesturlönd“ eigi lengur við. Bandaríkjaforseta virðist líða betur í hópi misverðugra andstæðinga á borð við Kim Jong-un, Vladímír Pútín, Xi Jinping og Tayyip Erdogan, en mun síður með ótryggum vinum eins og Angelu Merkel, Theresu May, Shinzo Abe og Justin Trudeau. Jafnvel rómantík hans og Emmanuels Macron virðist vera að kulna. Skilji leiðir með Bandaríkjunum og öðrum Vesturlöndum um undirstöðuatriði eins og alþjóðaverslun og öryggismál, er þá unnt að tala um Vesturlönd lengur?

Það er ekki heldur svo að önnur Vesturlönd standi saman, eins og Merkel kýs að halda fram. Vestræn ríki í Austurlöndum og Ástralíu eiga lítið skylt með Evrópuríkjunum og enginn skyldi halda að eini bresturinn í Evrópu sé Brexit.

En hvað með Ísland í þessum ólgusjó, hvers má það sín og hvað geta íslensk stjórnvöld gert til þess að bregðast við breyttum aðstæðum á alþjóðavettvangi? Það er í sannleika sagt ekki mikið, eins og nýleg dæmi sanna. En þau geta og eiga að auðsýna staðfestu í afstöðu sinni á alþjóðavettvangi. Þó að Vesturlönd kunni ekki að vera söm og áður, þá á Ísland að halda vestræn gildi í heiðri. Það þarf að tryggja öryggi landsins í samstarfi við granna okkar, standa vörð um mannréttindi, leggja áherslu á verslunarfrelsi – einhliða ef ekki vill betur – og vinsamleg samskipti frjálsra og fullvalda ríkja. Þar sem fyrr þarf að velja vini og bandamenn af kostgæfni.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is