Þann 15. febrúar 2018 birti Viðskiptablaðið grein annars greinarhöfundar um tilvonandi gildistöku hins svokallaða Höfðaborgarsamnings , nánar tiltekið samnings um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði. Heilmikið vatn hefur runnið til sjávar síðan greinin var skrifuð og stór skref stigin hvað varðar aðild Íslands að samningnum og gildistöku hans hér á landi. Er því tilefni til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.

Lögfesting Alþingi samþykkti lög nr. 74/2019 um Höfðaborgarsamninginn í maí 2019 og heimilaði stjórnvöldum þar með að fullgilda samninginn og meðfylgjandi bókun fyrir Íslands hönd, með þeim aðlögunum sem Ísland gerir í sérstökum yfirlýsingum í fylgiskjali með lögunum. Höfðaborgarsamningurinn var fullgiltur hérlendis snemma sl. sumar og auglýsing um gildistöku laganna var birt 1. júlí 2020. Lögin tóku loks gildi þann 1. október sl. og frá þeim degi hefur regluverk Höfðaborgarsamningsins gilt hér á landi. Lög um Höfðaborgarsamninginn, og um leið samningurinn sjálfur, hafa forgang fram yfir eldri, ósamþýðanleg lög.

Um hvað snýst Höfðaborgarsamningurinn?

Höfðaborgarsamningurinn snýst í stuttu máli um skráningu svokallaðra alþjóðlegra réttinda yfir loftförum og tengdum búnaði. Oft er um að ræða réttindi lánardrottna, sem njóta stöðu veðhafa í loftfari, eða réttindi leigusala við útleigu loftfara. Brýnt er að réttarstaða allra aðila sem koma að slíkum samningum sé skýr og að eigendur flugvéla í flota gjaldþrota flugfélags eigi skjótvirk og raunhæf úrræði til að endurheimta eignir sínar.

Alþjóðleg réttindaskrá á Internetinu

Hin alþjóðlegu réttindi sem Höfðaborgarsamningurinn stofnar til eru skráð í þar til gerða alþjóðlega skrá. Skráin er að öllu leyti rafræn og aðgengileg á Internetinu og er að því leytinu til um algert nýmæli að ræða í alþjóðlegum einkamálarétti. Skráin veitir kröfuhöfum fullvissu og fyrirsjáanleika um réttarstöðu sína. Með fullgildingu samningsins verða réttindi, sem hafa tilskildar tengingar við Ísland, skráningarhæf í hina alþjóðlegu réttindaskrá og hún mun leysa af hólmi réttindaskrá loftfara, sem er í umsjá Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, að því er varðar skráningu þeirra réttinda sem falla undir Höfðaborgarsamninginn. Ekki er þörf á að tvískrá réttindi, þ.e. bæði í alþjóðlegu skrána og réttindaskrá loftfara.

Breyting á eldra regluverki

Fram til þessa hefur regluverk um skráningu réttinda stuðst við lög nr. 21/1966 um skrásetningu réttinda í loftförum. Fullgilding Höfðaborgarsamningsins hefur, skv. 60. gr. samningsins, ekki áhrif á tilvist þeirra veðréttinda sem skráð voru í réttindaskrá loftfara fyrir gildistöku laga um Höfðaborgarsamninginn. Eldri veðréttindi halda sér og skráning þeirra í alþjóðlega skráningarkerfið er ónauðsynleg.

Önnur afleiðing gildistöku Höfðaborgarsamningsins er að skráðir eigendur loftfara geta nú framselt þriðja aðila óafturkræfa heimild til að biðja um afskráningu og útflutning loftfars (sk. IDERA) og skráð slíka heimild í loftfaraskrá hjá Samgöngustofu. Hér er um að ræða úrræði sem veitir veðhöfum í flugvélum það hagræði að geta afskráð vél og flutt hana úr landi án þess að þurfa að leita til þess atbeina eigandans, sem kann að vera ófús að veita liðsinni sitt þegar út í óefni er komið.

IDERA afskráningarheimildin gerir kröfuhöfum mun auðveldara um vik að endurheimta verðmæti sín við gjaldþrot, sérstaklega með yfirlýsingu Íslands um svokallaðan biðtíma. Ísland hefur ákveðið að við allar tegundir gjaldþrotaskiptameðferða skuli kröfuhafar fá viðkomandi loftfarshlut til umráða eigi síðar en að liðnum 60 daga biðtíma. Í stuttu máli hafa úrræðin tvö í för með sér að þegar bú flugrekanda er tekið til gjaldþrotaskipta getur kröfuhafi látið afskrá loftfar á grundvelli IDERA og fengið vélina til umráða eigi síðar en að 60 daga biðtímanum liðnum. Án þessara úrræða kann að reynast torsótt og langdregið að endurheimta slík verðmæti. Hér er á ferðinni tvímælalaus réttarbót fyrir kröfuhafa.

Stöðvunarheimildir flugvalla enn til staðar

Þó svo að Höfðaborgarsamningurinn auki réttaröryggi, ryður hann ekki öllum óvissuatriðum úr vegi. Sem dæmi ríkir ákveðin óvissa um áhrif 136. gr. loftferðalaga, en af henni spruttu deilur í kjölfar gjaldþrots WOW air. Greinin veitir m.a. Samgöngustofu og Isavia heimild til að aftra för loftfars af flugvelli ef tiltekin gjöld hafa ekki verið greidd. Með sérstakri yfirlýsingu Íslands við fullgildingu Höfðaborgarsamningsins og samkvæmt 4. gr. laganna var áréttað að Höfðaborgarsamningurinn raski ekki rétti ríkis eða ríkisstofnunar á borð við þann sem kveðið er á um í 136. gr. loftferðalaga. Hinn svokallaði stöðvunarréttur stendur því óhaggaður. Eftir situr réttaróvissa um hvort stöðvunarrétturinn tekur einungis til gjalda vegna þeirrar vélar sem um ræðir hverju sinni eða einnig gjalda af öðrum vélum skuldarans.

Hagræðið sem Höfðaborgarsamningurinn veitir kröfuhöfum kann að missa bit sitt þegar flugvöllur á kröfu sem hefur forgang yfir aðra kröfuhafa. Að þessu leyti getur skipt meginmáli hvert raunverulegt umfang stöðvunarréttarins er.

Aðild Íslands að Höfðaborgarsamningnum og lögfesting hans hefur verulega þýðingu fyrir íslensk flugfélög og er þeim fagnaðarefni. Samningurinn spornar við réttaróvissu og einfaldar samningsgerð íslenskra flugfélaga við erlenda samningsaðila. Fjármagnskostnaður þeirra kann að lækka verulega og aðgangur að lánsfé aukast. Áhugavert verður að fylgjast með áhrifum samningsins á íslenskan flugmarkað um ókomna tíð.

Erlendur Gíslason er lögmaður og meðeigandi á LOGOS og Arnar Sveinn Harðarson er lögfræðingur og fulltrúi á LOGOS.