*

laugardagur, 11. júlí 2020
Huginn og muninn
27. september 2019 18:02

Höfðinglega veitt á hagræðingarþingi

Vel var gert við gesti Fjármálaþings Íslandsbanka í vikunni, hvar sjónum var sérstaklega beint að hagræðingu í rekstri.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, tók þátt í pallborðsumræðu á Fjármálaþingi Íslandsbanka í vikunni.
Haraldur Guðjónsson

Hröfnunum er mikið í mun að vera með puttann á púlsi íslensks fjármála- og efnahagslífs, og létu sig því ekki vanta á Fjármálaþing Íslandsbanka sem haldið var á fyrir fullu húsi á Hilton Reykjavík Nordica í hádeginu í gær.

Þegar inn var komið tók á móti þeim hlaðborð með dýrindis veitingum, og þeim svo vísað á laust sæti af starfsmanni sem beið við innganginn. Á hverju borði mátti svo finna körfu fulla af eðal góðgæti í eftirrétt, og hrafnarnir höfðu vart lagt frá sér diskinn þegar starfsmaður bauðst til að taka hann. Hófst svo þingið, þar sem sjónum var sérstaklega beint að hagræðingu í rekstri fyrirtækja, og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, tók þátt í umræðunum.

Stuttu eftir að þessi skrif birtust í Viðskiptablaðinu á fimmtudagsmorgun var sagt frá því að bankinn hefði fækkað starfsmönnum um 25, en fyrr um morguninn hafði Arion banki tilkynnt uppsögn 100 starfsmanna. Hrafnarnir eru spenntir að sjá hvað verður á boðstólunum á næsta Fjármálaþingi, bæði hvað varðar veitingar og umfjöllunarefni.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.