Það hefur verið hvimleitt fyrir okkur hófsama hægrimenn að heyra í umræðum um frönsku forsetakosningarnar frambjóðanda Frönsku þjóðfylkingarinnar ítrekað lýst sem fylgismanneskju hægri öfga, sem kallar á þau hugrenningartengsl að stefna slíkra aðila sé eitthvað í líkingu við hefðbundnar hægriskoðanir, bara aðeins meira af því sama.

Sérstaklega er það undarlegt þegar á sama tíma er almennt talað um það, að minnsta kosti í íslensku samhengi sem líklega er undir engilsaxneskum áhrifum, að við sem erum höll undir frjálshyggju séum yst til hægri. Ég hef að minnsta kosti fellt mig ágætlega við slíka stimpla ef gert er ráð fyrir því að skalinn frá hægri til vinstri sé kvarðinn frá frelsi til helsis.

Þegar kafað er ofan í nokkur af stefnumálum forsetaframbjóðanda þjóðfylkingarinnar frönsku, Marion Le Pen, er æði furðulegt að segja lækkun eftirlaunaaldursins niður í 60 ár og að 35 klukkustunda vinnuvikan verði tryggð í sessi, séu kölluð stefnumál hægriflokks. Hvað þá bann við að ganga með trúarleg tákn á almannafæri eða að 35% skattur verði settur á vörur þeirra fyrirtækja sem flytji starfsemi sína frá Frakklandi.

Eini mælikvarðinn sem leyfir að Franska þjóðfylkingin sé sögð vera til hægri er að það sé til hægri að vilja koma illa fram við einstaklinga af minnihlutahópum, sem er fjarri þeim grundvallarprinsippum hægrimanns að verja rétt einstaklinga til orðs og æðis, eignarréttar og frelsis.

Þetta er eins og að segja að það sé samasemmerki milli þess að vera slæmur eða koma illa fram við náungann og að vera til hægri, við gerum það bara mismikið eftir því hvar á þessum skala við erum.

Þvert á móti er það grundvallarprinsipp hægrimanna að leyfa fólki að halda í þau gildi sem það hefur talið bæta líf sitt og samfélags síns, hvort sem þau séu menningarleg, trúarleg eða þjóðleg, en hins vegar eru það einmitt vinstrimenn sem hafa nýtt ríkisvaldið á Vesturlöndum og víðar til að gerbreyta samfélagsgerðinni miðað við nýjustu kreddur sínar hverju sinni, oft þvert á vilja almennings í landinu.

Því er ljóst ef helstu stefnumál Le Pen og flokks hennar eru skoðuð verður seint hægt að kalla þau annað en skilgetið afkvæmi vinstrisinnaðra stjórnmálahugmynda, með sinni efnahagslegu einangrunarstefnu, þjóðnýtingu og ríkisútgjöldum til handa sumum hópum á kostnað annarra og flokkun einstaklinga í hópa eftir ætt og uppruna, kyni og svo framvegis og mismunun eftir þessari flokkun.