*

mánudagur, 22. júlí 2019
Leiðari
16. nóvember 2017 15:43

Höggva skarð í Arion banka

Í staðinn fyrir að haldið yrði upp á eins árs afmæli United Silicon hélt Arion banki minningarathöfn.

Axel Jón Fjeldsted

Á mánudaginn síðasta hefði United Silicon getað fagnað ársafmæli en lítið fór fyrir hátíðarhöldum. Í staðinn hélt Arion banki minningarathöfn í fyrradag þegar hann kynnti ársuppgjör sitt. Þar kom í ljós að bankinn hefur tapað 4,8 milljörðum króna vegna fjárfestinga sem tengjast kísilverkefninu í Helguvík.

Fyrsta árið er oft erfitt en sú þrautaganga sem United Silicon hefur gengið í gegnum er einstök í íslenskri stóriðjusögu. Þessi stutta saga verður ekki rakin hér enda þekkja hana flestir. Þessi kafli í sögu United Silicon hófst með ólykt í lofti og lauk með milljarða króna tapi fjárfesta.

Eins og áður sagði hefur bankinn tapað 4,8 milljörðum króna á þessu ári vegna niðurfærslu á lánum, kröfum og öðrum eignum sem tengjast United Silicon. Þetta hafði þau áhrif að bankinn tapaði 113 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi. Til samanburðar skilaði Landsbankinn tæplega 4,2 milljarða króna hagnaði á fjórðungnum og Íslandsbanki um 2,1 milljarðs hagnaði. Arion banki hefði skilað 2,6 milljarða króna hagnaði á þriðja ársfjórðungi ef ekki hefðu tapast milljarðar vegna United Silicon.

 „Áhættutaka með viðskiptavinum er kjarninn í starfsemi fjármálafyrirtækja,“ segir Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri í tilkynningu Arion banka vegna árshlutauppgjörs. „Sem betur fer er það svo að langflest verkefni ganga vel. Við höfum skoðað vel aðdragandann að þátttöku bankans í uppbyggingu kísilverksmiðju United Silicon. Niðurstaðan er sú að greiningarvinnan sem unnin var og lá til grundvallar ákvörðun um að lána í verkefnið hafi í öllum aðalatriðum verið góð. Þar var stuðst við áætlanir félagsins, en að gerð þeirra komu bæði innlendir og reynslumiklir erlendir aðilar. Einnig var stuðst við álit og úttektir utanaðkomandi sérfræðinga. Málið átti sér langan aðdraganda og fyrir lágu öll leyfi og samningar um uppbyggingu verksmiðjunnar, orkukaup, helstu aðföng og sölu afurða. Engu að síður er ljóst að draga þarf lærdóm af því hvernig til hefur tekist og það munum við gera. Áfram verður unnið að því að koma starfsemi verksmiðjunnar í gott horf í sátt við samfélagið.“

Í þessari stuttu klausu er hægt að staldra við ýmislegt. Til dæmis er afar erfitt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að kyngja því að greiningarvinnan „sem unnin var og lá til grundvallar ákvörðun um að lána í verkefnið hafi í öllum aðalatriðum verið góð“. Ætli allir hluthafar í Arion banka séu sammála þessu. Ætli ríkið, sem á enn 13% hlut í bankanum, sé sátt við þessar skýringar. Þarf ekki að skoða þetta eitthvað betur?

Viðskiptablaðið hefur séð glæru úr fjárfestakynningu kísilverkefnis frá árinu 2015 sem vekur óneitanlega upp spurningar. Þar er spáð fyrir um verðþróun á kísilmálmi til ársins 2030. Þróunin helst mestmegnis í hendur við vísitölu neysluverðs á Íslandi. Það er líklega alveg fullkomlega rökrétt að verð á kísilmálmi tengist verði á matarkörfu úr Bónus og húsnæðisverði í Kópavogi. Svo því sé haldið til haga þá er ekki vitað hvort glæran sé úr kynningu United Silicon.

Einhverjir kunna að segja að í stóra samhenginu séu 4,8 milljarðar króna kannski ekkert svo mikið fyrir Arion banka. Þá er ágætt að hafa í huga að eigið fá bankans nemur 221,1 milljarði króna sem þýðir að neikvæð áhrif vegna United Silicon á þessu ári nema ríflega 2,2% af eigin fé hans. Þessu til viðbótar nemur útistandandi áhætta 5,4 milljörðum króna eða 2,4% af eigin fé.

Það er langt frá því að Arion banki sé einn um að hafa tapað á United Silicon. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Festa lífeyrissjóður og Eftirlaunasjóður íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) lögðu ríflega 2,6 milljarða í verkefnið. Sjóðfélagar þessara lífeyrissjóða hljóta að vera eitt spurningarmerki.

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon, má eiga eitt. Hann er líklega búinn að gera meira fyrir umhverfisvernd á Íslandi heldur en margir aðrir. Umhverfisvitund landsmanna hefur aukist verulega í kjölfarið á þessu klúðri suður með sjó.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.