*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Óðinn
3. febrúar 2011 06:00

Horfir fíflið á fingurinn

Óðni verður stundum hugsað til hins forna spakmælis „þegar fingurinn bendir á tunglið horfir fíflið á fingurinn“ þegar hann fylgist með umræðunni um „hrunið“.

Gunnhildur Lind Photography

Óðni verður stundum hugsað til hins forna spakmælis „þegar fingurinn bendir á tunglið horfir fíflið á fingurinn“ þegar hann fylgist með umræðunni um „hrunið“. Hrun íslensku krónunnar og fjármálakerfisins árið 2008 afhjúpaði margs konar veikleika í íslensku hagkerfi. En í stað þess að takast á við veikleikana vilja margir frekar kenna „hruninu“ um ófarir sínar en gáleysislegri hegðun sinni og annarra sem leiddi til hrunsins. Vandi fyrirtækja og einstaklinga er stundum sagður vera gengisfall íslensku krónunnar, en gengisfall íslensku krónunnar er afleiðing vandans en ekki orsök. Orsökin var skuldsetning aðila með tekjur í íslenskum krónum í erlendum myntum. Slík skuldsetning er auðvitað spákaupmennska, spákaupmennska sem hjá mörgum leiddi til taps.

***

Einn hópur fyrirtækja hefur þó öðrum fremur reynt að kenna hruninu um ófarir sínar en það eru sparisjóðirnir. Nú fyrir áramót var tilkynnt að Seðlabankinn hefði náð samkomulagi við fimm sparisjóði um fjárhagslega endurskipulagningu þeirra. Sem þýðir að skuldum er breytt í eigið fé, að skattgreiðendur taki að sér að endurfjármagna þá. Það sem meira er, stofnfjáreigendur í þessum gjaldþrota fyrirtækjum fá að halda 10% af hlutafé þeirra, með öðrum orðum rennur hluti niðurfellinga ríkisins á skuldum sparisjóða í vasa þessara stofnfjáreigenda. Samt voru það þeir sem báru öðrum fremur ábyrgð á rekstri sparisjóðanna og á að veita stjórnendum þeirra aðhald og það voru þeir sem hefðu fengið til sín ávinninginn af rekstri þeirra ef vel hefði gengið. Það er rétt að hafa í huga að stofnfjáreigendur litu alltaf á sig sem „hluthafa“ í bólunni, þótt þeir hafi nú tekið sér stöðu sem lánardrottnar og jafnvel lýst kröfum í bú SpKef.

***

Eftir endurfjármögnun ríkisins verða 10 sjálfstætt starfandi sparisjóðir á Íslandi með 41 afgreiðslustað. Þrátt fyrir að í skýrslu um starfsemi Bankasýslu ríkisins á árinu 2010 komi fram að störf í fjármálaþjónustu voru 4,69% af heildarvinnuafli á Íslandi árið 2009 og var með því hæsta sem gerist; í Evrópusambandinu er sama hlutfall að meðaltali 3,04%. Það kom einnig fram í þriðju úttekt AGS á Íslandi að bankakerfið væri of stórt og rót vandans lægi í mörgum og óhagkvæmum sparisjóðum. Seðlabankinn hefur einnig lýst því yfir að eitt af skilyrðum þess að hann telji að hægt verði að losa höftin sé að bankakerfið verði sjálfbært. Í þessu ljósi verður að teljast undarlegt að ríkið, fyrir milligöngu Seðlabankans, skuli hafa forgöngu um að niðurgreiða enn frekari bankastarfsemi á Íslandi.

***

Eins og Óðinn hefur áður vitnað til sagði Már Guðmundsson í viðtali við Viðskiptablaðið í upphafi árs þegar hann var spurður út í endurfjármögnun sparisjóðanna: „Einnig var það talið mikilvægt að varðveita einhverja sparisjóði þar sem annars er hætt við að fjármálakerfið verði áhættusamara en ella vegna fábreytni, en því ólíkari sem starfsgrundvöllur og viðskiptalíkan fjármálastofnana eru því ólíkari verður áhættumynstur þeirra að öðru óbreyttu.“

***

 Þessi röksemd gengur engan veginn upp. Í opinberri skýrslu FME sem kom út í september 2008 – Heildarniðurstöður ársreikninga fjármálafyrirtækja og verðbréfa- og fjárfestingasjóða fyrir árið 2007 – kemur fram að þrátt fyrir að 15,7 milljarða bókfærður hagnaður væri af rekstri sparisjóða árið 2007 var tap af kjarnastarfsemi þeirra 5 milljarðar. Hjá viðskiptabönkunum var hagnaðurinn 155 milljarðar en hagnaður af kjarnastarfsemi 108 milljarðar. Nú kann það að vera svo að uppgjör bankanna hafi ekki gefið rétta mynd af afkomu þeirra, en þær fréttir sem borist hafa af sparisjóðunum benda ekki til að uppgjör þeirra hafi verið hótinu skárri.

***

***

 Af ofangreindum tölum að dæma virðist sem svo að sparisjóðirnir hafi verið áhættusæknari en bankarnir. Óðni lék forvitni á að kanna þetta nánar og tók saman uppgjör 11 sparisjóða sem hann fann, þar á meðal þeirra fimm sem voru endurfjármagnaðir af ríkinu. Það er mismunandi eftir sparisjóðum hversu margir ársreikningar eru, en í heild ætti þetta að gefa nokkuð glögga mynd af rekstri sparisjóðakerfisins og áhættusækni innan þess. Óðinn kannaði hversu miklum hagnaði sparisjóðirnir hefðu skilað af kjarnastarfsemi og skoðaði því hagnað fyrir skatta að frádregnum hagnaði af hlutabréfaeign og gengishagnaði.

Það kemur í ljós að hagnaður sparisjóðanna undanfarin ár hefur verið lítið annað en brask í verðbréfum. Það er því vandséð að þeir gegni neinu samfélagslegu hlutverki, þrátt fyrir mikinn fjáraustur í ímyndarherferðir með auglýsingamyndum af blómum, beljum og brosandi börnum. Það er líka rangt að sparisjóðirnir hafi verið óviljugt fórnarlamb græðgisvæðingar sem hófst í kjölfar einkavæðingar bankanna. Kjarnastarfsemi sparisjóða var komin í tap árið 2001, löngu áður en bankarnir voru einkavæddir eða Exista var stofnað. Það er augljóst að bólan á hlutabréfamarkaði gerði sparisjóðunum kleift að dylja óhagkvæman rekstur og það gerðu þeir með því að taka mikla áhættu á verðbréfamörkuðum, hrunið 2008 afhjúpaði þessa áhættusækni.

***

Ásgeir Jónsson, fyrrverandi yfirmaður greiningardeildar Kaupþings, nefnir sláandi dæmi um raunverulega starfsemi sparisjóðanna í bók sinni Why Iceland? „Eignarhaldsfélaga strúktúrinn ýtti undir bóluna á íslenska hlutabréfamarkaðinum, allt fjármálakerfið var orðið afleiða á vel heppnaða útrás viðskiptabankanna þriggja. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) var öfgafullt dæmi um þetta. Sumarið 2007 var markaðsvirði sjóðsins 120 milljarðar króna (2 milljarðar dollara á þáverandi gengi) sem var um þrefalt bókfært virði eiginfjár hans. SPRON var með um það bil 20.000 viðskiptavini. Megin eign SRPON voru hlutabréf í Exista en markaðsverð þess fyrirtækis var um 1,6 sinnum bókfært virði eiginfjár. Megin eign Exista var Kaupþing, en markaðsvirði þess var um 2 sinnum bókfært virði bókfærðs eiginfjár. Eigendur hlutabréfa í hinum sakleysislega sparisjóði áttu því sifjaspells kröfu á eiginfé Kaupþings metið á hátt í 10 sinnum bókfært virði þess.“

***

Þetta var raunverulegur rekstur sparisjóðanna. Rekstur sem engin ástæða er til að varðveita.

***

Már Guðmundsson sagði einnig í áðurnefndu viðtali: „Þá liggur það í eðli sparisjóða að fari þeir í gjaldþrot eru líkurnar á að nýir rísi minni en í tilfelli hlutafélagabanka þar sem hin staðbundna taug brestur.“ Sparisjóðirnir hafa vissulega reynt að halda í hina staðbundnu taug með innheimtu á lánum sem veitt voru til kaupa á stofnfé, en það er dapurlegt ef lærdómurinn sem dreginn er af hruninu er að það sé söguleg nauðsyn að endurreisa kerfið sem fór í þrot. Ef þörf er á öðrum fjármálafyrirtækjum en þeim sem starfandi eru í dag, sem Óðinn efast ekki um, hvers vegna ætti fólk þá ekki að geta stofnað þau án atbeina ríkisvaldsins? Hvað er það sem gerir það að verkum að bændur gátu stofnað sparisjóði í sveitum landsins á 19. og 20. öld en samtímamenn okkar með nútímatölvutækni og aðgang að reynslu af starfsemi banka hérlendis og erlendis geta það ekki? Fjármálaþjónusta er nauðsyn, en ekki fyrirtæki sem veita hana í dag. Því það er ekkert sjálfgefið að þau form fyrirtækja sem eru talin hafa hentað best hingað til muni gera það áfram í framtíðinni.

***

Samkeppni á markaði er ekki bara samkeppni mismunandi fyrirtækja heldur ekki síður samkeppni mismunandi rekstrarforma. Á einum tíma hafa sparisjóðir náð árangri, á öðrum tímum hlutafélög, á einum tíma standa sérhæfð fyrirtæki sig best, á öðrum tímum dreifð fyrirtæki (conglomerates), stundum ná einstakir athafnamenn mestum árangri, á öðrum tímum fyrirtækjablokkir. Það er ekki hlutverk Seðlabankans eða Alþingis að skrifa uppskriftir fyrir eldhús framtíðarinnar. Víða um heim er fólk að reyna nýjar tegundir fjármálafyrirtækja, t.d. smálánafyrirtæki. Afskipti ríkisins vernda þá sem fyrir eru á markaði en hindra aðgang annarra og hamla framþróun á markaðinum.

 

Stikkorð: Óðinn Sparisjóðir
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.