Framsóknarflokkurinn fer á kostum þessa dagana og er engu líkara en að flokkurinn sé haldinn sjálfseyðingarhvöt. Allsherjarklúður formanns flokksins var hér til umfjöllunar í síðustu viku en nú hefur annar ráðherra úr röðum flokksins tekið við trúðsnefinu.

* * *

Það er óskiljanlegt með öllu á hvaða vegferð Lilja Alfreðsdóttir er þessa dagana. Skemmst er að minnast þess þegar hún setti fram illa ígrundaða gagnrýni á afkomu bankanna, sem var sérdeilis vandræðaleg fyrir hagfræðimenntaðan viðskiptaráðherra.

Gagnrýni þeirri fylgdi enn vanhugsaðri hótun um hærri bankaskatt, sem allt skynsamt fólk veit að bitnar helst á neytendum. Þá vakti það nýverið athygli þegar hún missti stjórn á skapi sínu í pontu Alþingis. Framkoma þingmanna Viðreisnar var vissulega ekki til fyrirmyndar en þó tæpast tilefni til þess að missa kúlið.

Í vikunni tók steininn úr þegar viðskiptaráðherrann, sem jafnframt situr í ráðherranefnd um efnahagsmál, ákvað að taka sér stöðu með pólitískum andstæðingum ríkisstjórnarinnar og taka undir reyksprengjur þeirra vegna nýafstaðins útboðs á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.

Það stóð á ráðherranum að láta í sér heyra á ríkisstjórnarfundum og opinberlega þegar fyrirkomulagið var kynnt ítarlega í aðdraganda útboðsins, en af einhverjum ókunnum ástæðum sá hún sér þann leik á borði að opinbera gagnrýni sína að útboði loknu.

Það kom engum á óvart að stjórnarandstaðan, Guðrún Johnsen, pólitísku samtökin Transparency Iceland og fleiri flautuþyrlar legðust á árar við að tortryggja útboðið eftir að það var afstaðið, enda pólitískir hagsmunir þeirra augljósir.

Hvað rekur Lilju áfram er aftur á móti óljósara, nema það væri þá helst einhver popúlísk tilraun til þess að sigla reiðiöldu almennings eftir bændafylleríið afdrifaríka. Sýndarmennskan blasir þó við og ólíklegt að Lilja og Framsókn uppskeri nokkuð annað með leikþættinum en að verða einmana hornkerling við ríkisstjórnarborðið.

* * *

Lilja var eitt sinn vonarstjarna Framsóknar og af mörgum talin formannsefni, en hún hefur ekki staðið undir þeim væntingum. Líkurnar á að hún verði næsti formaður flokksins eru litlar og halda áfram að minnka, jafnvel þótt það hafi hitnað nokkuð undir þeim sem þar situr í dag.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .