*

fimmtudagur, 28. október 2021
Leiðari
20. febrúar 2020 12:04

Hótanir Rio Tinto

Stórfyrirtækið Rio Tinto beitir svipaðri aðferðarfræði á Nýja-Sjálandi og það gerir hérlendis til að knýja fram lækkun á raforkuverði.

Álverið í Straumsvík.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Þær fréttir bárust frá álverinu í Straumsvík í síðustu viku að til greina kæmi að loka því. Ástæðan er taprekstur. Í tilkynningu, sem Rio Tinto, eigandi álversins, sendi til kauphallarinnar í London, kemur fram að reksturinn sé óarðbær til skemmri og meðallangs tíma. Ástæðan sé „ósamkeppnishæft“ raforkuverð og lágt álverð.

Áður en tilkynning um málið var send á fjölmiðla var haldinn fundur með starfsmönnum og þeim greint frá stöðu mála. Um 500 manns vinna í álverinu og því til viðbótar er töluverður fjöldi afleiddra starfa. Skiljanlega voru þetta váleg tíðindi fyrir allt þetta fólk. Til að bæta gráu ofan á svart þá stöðvaði Rio Tinto undirritun nýrra kjarasamninga við starfsmenn álversins þar til það næði saman við Landsvirkjun.

Rio Tinto er risafyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða. Vegna þrenginga í rekstri hefur fyrirtækið nú kallað eftir endurskoðun á raforkusamningnum við Landsvirkjun. Undirliggjandi er augljós hótun um að fyrirtækið hætti rekstri, sem yrði vissulega högg fyrir íslenskt efnahagslíf til skamms tíma en hefði fyrst og síðast afdrifaríkar afleiðingar fyrir starfsfólkið í Straumsvík.

Það þarf kjark til að hefja viðræður um endurskoðun raforkusamnings á þessum forsendum. Rio Tinto skortir augljóslega ekki þann kjark. Fyrirtækið beitir svipaðri aðferðarfræði á Nýja-Sjálandi. Fyrir fjórum mánuðum gaf Rio Tinto það út að til skoðunar væri að loka álveri þar í landi vegna hás raforkukostnaðar. Er tilkynningin sem félagið gaf út vegna þessa nánast samhljóða tilkynningunni sem það sendi frá sér hér á landi í síðustu viku.

Árið 2010 skrifuðu forsvarsmenn Rio Tinto og Landsvirkjunar undir nýjan raforkusamning. Forsvarsmenn álversins ákváðu að fara í dýrar stækkunarframkvæmdir, sem á endanum kostuðu 70 milljarða króna og Landsvirkjun skuldbatt sig til þess að sjá álverinu fyrir 75 MW viðbótarorku. Til þess að geta staðið við sinn hluta byggði Landsvirkjun Búðarhálsvirkjun, sem kostaði tæpa 30 milljarða króna. Stækkunarframkvæmdir álversins hafa ekki gengið eftir og í dag er álverið rekið á 85% afköstum. Það væri fróðlegt að vita hvað Rio Tinto myndi segja ef staðan væri á hinn veginn. Hvort það væri tilbúið til viðræðna við Landsvirkjun ef kostnaður vegna Búðarhálsvirkjunar hefði farið úr böndunum og orkuframleiðslan ekki verið í takt við væntingar.

Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar. Arðsemi af fyrirtækinu var lítil sem engin fyrstu áratugina. Frá árinu 1965 til 2010 var arðsemin 5% fyrir skatt. Heldur hefur rofað til í rekstrinum og á síðasta áratug hefur félagið markvisst greitt niður skuldir og lagt áherslu á aukna arðsemi. Arðsemi eiginfjár er þó enn frekar lítil hlutfallslega en frá árinu 2014 hefur hún verið á bilinu 3,5 til 5,9%. Á sama tímabili hefur hagnaðurinn verið á bilinu 8 til 14 milljarðar króna.

Það er sjálfsagt hjá forsvarsmönnum Landsvirkjunar að ræða við Rio Tinto. Forsendur fyrir þeim viðræðum þurfa hins vegar að vera þannig að ekki verði hætta á að forsvarsmenn annarra stóriðjufyrirtækja banki upp á með sama erindi. Landsvirkjun á ekki að vera rekin með tapi og ekki á núlli. Orkuauðlindir þjóðarinnar eiga að skila henni arði.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.