*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Týr
15. febrúar 2018 14:32

Hræddur í Höfða

Hver borgar fyrir drottningaryfirreið borgarstjóra í hverfum borgarinnar, þar sem fulltrúar annarra flokka eru ekki með?

Hinn goðsagnakenndi hurðarhúnn á Höfða er í hugum manna tengdur von og eftirvæntingu, allt frá því að helstu stjórnmálaleiðtogar heims hittust þar til að skapa betri framtíð. Það er einmitt af þeim ástæðum sem Höfði er heimsþekkt hús, vinsæll viðkomustaður ferðamanna og á sér eftirlíkingu hinum megin á jarðkúlunni. Tákn þess hvernig góðir og gegnir menn geta reist sig yfir hið smáa; orðið meiri af, öllum til heilla. 

                                            ***

Þeim mun fríkaðri voru fréttirnar af því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefði vísað Eyþóri Arnalds á dyr þar í Höfða, þar sem boðað hafði verið til spjallfundar borgarstjórnar með þingmönnum Reykjavíkurkjördæmanna. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðhera og 1. þingmaður  Grafarvogskjördæmis, hafði fengið þá hugmynd að kippa Eyþóri með sér á fundinn en Degi var ekki skemmt. Hermt var að hann hefði sagt Eyþóri að hann ætti ekki heima á fundinum – væri hvorki kominn á þing né í borgarstjórn, enn – og ætti því að vera úti. Þetta væri ekki frambjóðendafundur. 

                                            ***

Þetta er allt með ólíkindum. Auðvitað er það rétt hjá borgarstjóranum að Eyþór er hvorki í borgarstjórn né á þingi, en það er ekki eins og þessi fundur sé eitthvert stjórnvald, sem menn séu réttkjörnir eða smurðir til. Nei, þetta var bara spjallfundur, þótt borgarstjóra henti að láta öðru vísi. 

                                            ***

Auðvitað þarf gestgjafinn ekki að taka á móti fleirum í veislusölum sínum en hann kýs og ekki meira um það að segja út af fyrir sig. Hins vegar segir þessi affera heilmikla sögu um borgarstjórann, manndáð hans og hugprýði. Alvöru pólitíkus, sem eitthvað er varið í, væri ekki smeykur við að leyfa andstæðingi sínum að sitja svona skrafstefnu. Myndi sennilegast taka tækifærinu fagnandi. En ekki Dagur. Hann vill frekar ræða framtíð borgarinnar með fólki á útleið en þeim sem þar verða næstu fjögur ár. 

                                            ***

En það var fróðlegt að borgarstjórinn skyldi nefna framboðsfundi. Sjálfur hefur hann verið á drottningaryfirreið í hverfum borgarinnar, án þess að fulltrúar annarra flokka séu með. Hver borgar fyrir þá fundaherferð? Getur verið að Samfylkingin ætli að láta útsvarsgreiðendur borga fyrir kosningabaráttu sína?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.