Hrafnarnir telja mótbyr á mörkuðum undanfarin misseri sé farinn að blása hlutafjáreigendum kapp í kinn. Menn gerast nú kröfuharðir um rekstrarárangur hjá skráðum félögum eftir öldudal síðasta árs. Í vikunni var kynnt að stjórn VÍS hefði sagt Helga Bjarnasyni upp störfum. Í tilkynningu um breytingarnar kemur fram að þær séu liður í að gera „félagið söludrifnara“ og „efla tengsl við viðskiptavini“. Hrafnarnir telja að þarna sé stjórnin með öðrum orðum að segja að uppsögn Helga sé liður í því að VÍS haldi áfram að selja tryggingar.

Sem kunnugt er þá hafa þekktir fjárfestar verið að bætast í hóp hluthafa VÍS að undanförnu og vafalaust sjá margir tækifæri í félaginu. Þá ekki síst í samstarfi við önnur fjármálafyrirtæki. Sem kunnugt er þá runnu Kvika og TM saman í eitt fyrir nokkru og Vörður er í eigu Arion banka. Þá er rekstrarkostnaður VÍS býsna hár eða um 800 milljónum króna hærri en hjá Sjóvá sem er eigi að síður að sambærilegri stærð.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 12. janúar 2023.