*

laugardagur, 30. maí 2020
Týr
12. janúar 2020 13:40

Hræsnin í Hollywood

Ricky Gervais var bara að djóka eða hvað? Viðbrögðin í salnum voru dræm, en mun fleiri klöppuðu sjálfsagt heima í stofu.

Ricky Gervais gerði garðinn einna frægastann í breska skrifstofudramanu The Office.
epa

Ricky Gervais er fyndinn náungi. Þó hann hefði aldrei gert neitt annað en að skapa The Office, þá ætti það að vera öllum lesendum Viðskiptablaðsins nógsamleg staðfesting þess. Þeir sem fylgjast með honum á Twitter vita líka að þar fer lunkinn samfélagsrýnir, þó að hann standi nær vinstrikantinum en Týr telur óhætt. En ætli kynningarræða hans á Golden Globes-hátíðinni í Hollywoood um helgina hafi ekki verið ein þarfasta ádrepa, sem sá yfirborðskenndi söfnuður hefur mátt þola? Og fleiri réttilega tekið til sín.

                                                               ***

Gervais tók fram í upphafi að hann væri að kynna hátíðina í síðasta sinn og þess vegna væri honum sama hvað hann léti flakka, þetta væru bara brandarar, við myndum öll deyja innan skamms og það væri engin framhaldsmynd. Tók svo til við að rakka salinn niður í háði, hlífði hvorki stórstjörnum né aukaleikurum, ekki síst fyrir yfirborðsmennsku og hræsni, sem hann kryddaði með vel völdum dæmum um siðferðisbresti í bæði einkalífi og hinu opinbera. Hláturinn í salnum var vandræðalegur, en verst auðvitað hvað þetta var allt fyndið.

                                                               ***

Hann minnti á hvernig menn hefðu árum saman horft hjá hegðun Harvey Weinstein og horfðu enn hjá dálæti Leonardo DiCaprio á stúlkum á barmi lögaldurs, hvernig ofurhetjumyndirnar snerust ekki um leik heldur steraát leikaranna, hvernig gervöll Hollywood væri að missa sig í vökulu dyggðabrölti með mærðarfullu heimsósómatali yfir lýðnum, meðan enginn hirti um viðskiptasiðferði stóru stúdíóanna.

„Svo ef þú vinnur til verðlauna í kvöld, ekki nota pallinn til þess að halda pólitíska ræðu. Þú ert ekki í nokkurri stöðu til þess að lesa yfir almenningi um neitt. Flest ykkar voru skemur í skóla en Greta Thunberg. Svo ef þú vinnur, komdu upp og taktu þessi litlu verðlaun þín, þakkaðu umboðsmanni þínum og Guði þínum, og fokkaðu þér burt."

                                                               ***

Viðbrögðin í salnum voru dræm. En þeim mun fleiri klöppuðu sjálfsagt heima í stofu. Því það er leiðinlegt til lengdar að hlusta á prédikanir um kolefnisfótspor frá fólki í einkaþotum; feminískar trúarjátningar þessa kynóða bransa; friðarboðskap úr mestu ofbeldisfabrikku heims; fyrirmæli um hvað megi segja og hvað ekki frá annáluðum klámkjöftum. Því auðvitað hefur þetta breyska fólk ekkert að segja almenningi annað en replikkuna. Og Ricky Gervais var bara að djóka.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.