*

mánudagur, 1. júní 2020
Huginn og muninn
13. september 2019 18:04

Hreinsanir í Arion banka?

Á nokkrum dögum hafa tveir yfirmenn hjá Arion banka látið af störfum.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Aðsend mynd

Hrafnarnir velta því fyrir sér hvort hreinsanirnar í Arion banka séu hafnar með tilkomu nýs bankastjóra, Benedikts Gíslasonar. Fyrsti yfirmaðurinn í bankanum til að taka pokann sinn er Jónína S. Lárusdóttir, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs. Hún hefur starfað í bankanum frá árinu 2010 en áður var hún ráðuneytisstjóri í Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.

Staða yfirlögfræðings Arion banka er eitt af betri lögmannsstörfum í landinu og verður fróðlegt að sjá hver kemur í stöðu hennar. Markaðurinn ýjaði að því í miðvikudaginn að Birna Hlín Káradóttir hjá Fossum væri sú manneskja. Rekstur Arion banka hefur verið plagaður af útlánatöpum, eins og t.d. United Silicon, Wow air og Primera Air. Eflaust rýnir nýr bankastjóri í ástæðurnar fyrir þessum töpum og greinir hverjir bera þar helst ábyrgð. Þar er hlutur fyrrverandi bankastjóra, Höskuldar Ólafssonar, eflaust nokkur, sem og stjórnar bankans þótt formaður Lánanefndar hennar, Guðrún Johnsen sé farin úr stjórn bankans og í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Í gær, sama dag og þessi moli birtist í Viðskiptablaðinu, barst tilkynning frá Arion banka þess efnis að Rakel Óttarsdóttir, framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Arion banka, hefði óskað eftir að láta af störfum. Rakel hefur setið í framkvæmdastjórn bankans frá árinu 2011.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.