*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Leiðari
30. júní 2018 16:01

Hreyfing fer í stríð

Gylfi hefur sætt harðri gagnrýni. Ekki frá viðsemjendum sínum heldur frá samherjum sem álíta hann ekki nógu herskáan.

Haraldur Guðjónsson

Við brotthvarf Gylfa Arnbjörnssonar úr forystusveit ASÍ verða ákveðin vatnaskil innan verkalýðshreyfingarinnar. Gylfi tók við embættinu af Grétari Þorsteinssyni í október árið 2008. Sama október og Geir bað Guð að blessa Ísland. Gylfi hefur starfað innan hreyfingarinnar allt frá árinu 1989.

Undanfarin ár hefur Gylfi sætt harðri gagnrýni. Ekki frá viðsemjendum sínum í hinum enda Borgartúnsins heldur frá samherjum sem álíta hann ekki nógu herskáan. Í viðtali í blaði dagsins rifjar Gylfi upp átök bolsévika, það er kommúnista, og krata á öndverðri síðustu öld.

„Í gegnum verkalýðssöguna þá hefur stundum komið til átaka. Í gamla daga voru það bolsévikar en helstu andstæðingar þeirra voru kratar, ekki íhaldið eða auðvaldið. Átökin á vinstri væng stjórnmálanna, sem náðu djúpt inn í verkalýðshreyfinguna á sínum tíma, voru átök milli byltingarsinna og hófsamra þar sem byltingarsinnarnir töldu hófsemdaröflin vera stéttsvikara. Þannig er það enn í dag.“

Þegar Gylfi kom inn í verkalýðshreyfinguna þótti forystunni rétt að hverfa frá þeirri leið í kjarasamningum að krefjast bara nógu mikilla hækkana og skeyta engu um að nánast sama dag væri gengi krónunnar fellt. Fyrir þessum 30 árum var mörkuð sú stefna innan verkalýðshreyfingarinnar að leggja áherslu á aukningu kaupmáttar og verðmætasköpunar. Þessi leið hefur skilað árangri. Þessa leið hefur Gylfi viljað feta áfram. Hann segist sjálfur telja sig til hófsamari afla. Og gagnrýni á hann kemur úr röðum þeirra sem vilja hverfa til þess tíma þegar réttar kröfur voru nógu miklar og háværar kröfur, óháð öllu öðru.

Ekki er ljóst hver verður arftaki Gylfa. Stefán Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags á Austfjörðum, hefur boðið fram krafta sína og Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, útilokar ekki framboð. Þeir sem til þekkja velta hins vegar fyrir sér hverjum hin herskáu, Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir, formenn VR og Eflingar og helstu gagnrýnendur á stéttsvikarana, tefli fram. Þar hefur nafn Stefáns Ólafssonar, félagsfræðiprófessorsins og hlutastarfsmanns Eflingar, borið á góma.

Hvernig sem fer eru líkur á að nýjan tón kveði við í málflutningi verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjarasamningum. Undanfarna áratugi hefur áherslan verið á hið norræna módel. Hóflegar launahækkanir í takt við það svigrúm sem er innan fyrirtækja með það að markmiði að auka kaupmátt og halda niðri vöxtum og verðbólgu. Málflutningurinn sem hefur náð fótfestu innan áðurnefndra félaga er mun herskárri og í ætt við verkalýðsforkólfa fyrri tíma. Forkólfa sem sáu á endanum að krafa um miklar launahækkanir í engum takti við bolmagn fyrirtækjanna skiluðu á endanum engu.

Kaupmáttaraukningin hefur þó að einhverju marki ekki skilað sér til þeirra sem minnst hafa. Þar beinast spjótin að stjórnvöldum en verkalýðshreyfingin segir að sá árangur sem hafi náðst með kjarasamningum hafi í sömu andrá verið að engu gerður með því að láta bætur og skattleysismörk sitja eftir. Botnlausar hækkanir á húsnæðiskostnaði hafa ekki bætt úr skák.

Að sama skapi hefur kjararáð gert allt sem í þess valdi stendur til að gera aðilum vinnumarkaðarins eins erfitt fyrir og hugsast getur að ná saman. Þegar vel viðrar heyrist jafnvel í formanni VR að enginn ágreiningur sé um að fyrirtækin í landinu ráði ekki við meiri launakostnað og að málflutningurinn sé hugsaður til að hræða stjórnvöld að samningaborðinu. Um það hvort sú sé raunin og hvort það takist er ekki hægt að spá fyrir um. Engu að síður er ljóst að tilvonandi forseta Alþýðusambandsins bíður það óöfundsverða starf að stilla til friðar innan verkalýðshreyfingarinnar. Náist það ekki verður kjarasamningalotan í vetur með eindæmum erfið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is