Þann 11. júlí árið 1907 skrifaði hinn 43 ára gamli Belgi Leo Baekeland í dagbókina sína: „Ef mér skjátlast ekki þeim mun meira, þá mun þessi uppfinning mín hafa mikil áhrif á framtíðina.“ Leo hafði á lítilli heimatilbúinni rannsóknarstofu á heimili sínu í New York blandað saman formaldehýði og fenól undir þrýstingi og hita svo úr varð fyrsta gerviplastið, svokallað bakelít. Og plastpartýið var hafið!

Uppfinning plastsins hefur sannarlega haft í för með sér aukin lífsgæði fyrir okkur mennina. Ýmis öryggisbúnaður eins og hjálmar og barnabílstólar eru úr plasti, bílar og flugvélar eru að miklu leyti úr plasti sem gerir þau léttari og sparar þar með eldsneyti og notkun plasts hefur reynst bylting í matvælaiðnaði og heilbrigðisþjónustu.

Einnota vara sem endist í hundruði ára

Það er ekki að ástæðulausu að framleiðendur velja plast fram yfir önnur efni. Plastið er ódýrt, létt og hægt að móta í nánast hvaða form og liti sem er. Og svo er það endingartíminn; plast endist í hundruði og jafnvel þúsundir ára. En einmitt þessi eiginleiki er það sem gerir plastið einstaklega óhentugt í einnota vörur.

Í dag er helmingur alls plasts sem framleitt er á heimsvísu einnota plast. Á Íslandi notar hver fjögurra manna fjölskylda tæplega 200 kg af einnota plastumbúðum á hverju ári. Náðuð þið þessu, 200 kg? Einungis 28% af þessu plasti ratar svo í endurvinnslu. Restin endar í náttúrunni, annaðhvort í urðun eða á víðavangi, og verður þar næstu árhundruðin.

Við þurfum að hugsa samband okkar við plast uppá nýtt

Þetta er ekki vandi sem við endurvinnum okkur út úr. Við þurfum fyrst og fremst að útrýma óþarfa plasti og skapa hringrás fyrir það plast sem við þurfum. Þetta getur vissulega reynst áskorun fyrir fyrirtækin í landinu en þetta getur sömuleiðis opnað á ýmis tækifæri, svo sem á sviði hönnunar, vöruþróunar, viðskiptaþróunar og tækni.

Mörg dæmi eru um íslensk fyrirtæki sem hafa sýnt frumkvæði og prófað sig áfram með lausnir sem draga úr óþarfa plastnotkun og auka hringrás plasts. Segull 67 brugghús notar bjórkippuhringi úr lífrænum efnum í stað þeirra hefðbundnu úr plasti, Matarbúðin Nándin er plastlaus búð sem býður viðskiptavinum m.a. upp á að kaupa matvæli í gleri sem er svo skilað inn og notað aftur, Pure North Recycling fæst við innlenda endurvinnslu plasts sem knúin er af jarðvarma og sprotafyrirtækið Marea þróar lausnir úr þara og þörungum sem leysa matvælaumbúðir úr hefðbundnu plasti af hólmi. Öll þessi fyrirtæki eru fyrrum eða núverandi handhafar Bláskeljarinnar sem er viðurkenning umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir.

Neytendur bíða eftir nýjum lausnum

Það er sannarlega verkefni samfélagsins alls að vinna á þeim mikla og margþætta vanda sem ofnotkun okkar á plasti hefur skapað. Atvinnulífið leikur hér lykilhlutverk enda eru það fyrirtækin sem framleiða plast, flytja inn plast, pakka vörunum sínum í plast og selja plast. 70% svarenda í Umhverfiskönnun Gallup árið 2022 segjast hafa minnkað plastnotkun til að draga úr umhverfisáhrifum sínum. Að sama skapi segist helmingur svarenda ekki geta gert sín innkaup umhverfisvænni þar sem það skorti umhverfisvænni kosti. Neytendur eru tilbúnir og þeir bíða spenntir eftir nýjum lausnum sem hjálpa þeim að minnka sína plastnotkun enn frekar og auka á hringrás plasts.

Leo Baekeland hafði rétt fyrir sér, uppfinningin hans átti eftir að hafa mikil áhrif á framtíðina. Nú er það okkar að sjá til þess að áhrif plasts inn í nánustu framtíð verði bæði okkur og umhverfinu til góða.

Við hjá Umhverfisstofnun buðum til opins fyrirlestrar um ábyrga notkun plasts í atvinnulífinu þann 13. október síðastliðinn, upptaka er nú aðgengileg á www.samangegnsoun.is.