*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Leiðari
23. ágúst 2014 17:10

Hristum upp í kerfinu

Pólitískt kann að vera erfitt að mæla fyrir fækkun kennara, en slíkt leitt til þess að hækka meðallaun í stéttinni.

Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að fáar þjóðir verja jafn stórum hluta af sinni landsframleiðslu í menntamál og Íslendingar. Framlögunum er hins vegar misskipt milli skólastiga og er t.d. ekkert ríki á EES-svæðinu sem ver hlutfallslega eins miklu til leikskólastigsins og gert er hér. Eins er Ísland framarlega í útgjöldum á grunnskólastigi. Þegar kemur að háskólastiginu eru framlög hér á landi hins vegar vel undir meðaltali og umtalsvert minni en gerist og gengur á hinum Norðurlöndunum.

Eins kemur fram að fjöldi nemenda á hvern kennara er óvíða minni en hér. Í ljósi kostnaðarhlutfallanna sem nefnd eru í málsgreininni hér að ofan kemur e.t.v. ekki á óvart að það er helst á leikskóla- og barnaskólastigi þar sem munurinn á Íslandi og öðrum löndum er mestur.

Að öllu þessu sögðu mætti ætla að íslenska menntakerfið væri það besta í heimi. Það kostar meira og færri nemendur eru um hvern kennara. Niðurstöður hinnar alræmdu PISA-könnunar benda þó til annars. Ísland er þar með lökustu frammistöðu allra Norðurlandanna og hefur íslenskum nemendum hrakað sem nemur hálfu námsári frá fyrstu könnuninni. 30% pilta eru á tveimur neðstu þrepum lesskilnings og um 20% á neðstu þrepum stærðfræðilæsis. Svona mætti lengi telja.

Tvennt kemur hér upp í hugann. Annars vegar það hvort ekki sé hægt að nýta þá fjármuni betur sem varið er í menntakerfið og hins vegar hvort ekki megi skoða af alvöru hvort hægt sé að virkja betur krafta einkaframtaksins í menntakerfinu.

Eins og bent er á í umfjöllun Viðskiptablaðsins þá eru kennarar hér hlutfallslega mun fleiri en almennt gerist í OECD- og EES-ríkjunum. Íslenskir kennarar kenna að meðaltali færri kennslustundir á ári – ef horft er framhjá leikskólakennurum, sem samkvæmt tölum OECD vinna þrekvirki á hverju ári. Þá eru íslenskir kennarar verr launaðir en í öðrum ríkjum.

Pólitískt kann að vera erfitt að mæla fyrir fækkun kennara, en slík fækkun gæti leitt til þess að hækka meðallaun í stéttinni og gera hana meira aðlaðandi fyrir hæfa og metnaðarfulla einstaklinga. Hér er ekki ætlunin að gera lítið úr þeim sem starfa við kennslu, en lögmál markaðarins segja okkur að ef launin yrðu hækkuð yrði eftirspurnin eftir störfunum meiri og hægt væri að velja þá bestu út úr stærri hópi.

Samkvæmt tölum OECD eru íslenskir skólar fjármagnaðir af hinu opinbera í mun meiri mæli en almennt gerist, ef aftur er horft framhjá leikskólastiginu. Aðeins koma um 3,8% fjármagns grunnskóla- og framhaldsskóla frá einkaaðilum, en meðaltalið í OECD er 8,5%. Þegar kemur að háskólastiginu er hlutfallið hér á landi 8,8%, en 31,6% að meðaltali í ríkjum OECD.

Hér eru pólitísku erfiðleikarnir líklega minni. Í könnun sem Viðskiptaráð lét gera kom fram að tæpur helmingur þátttakenda var hlynntur skólagjöldum á háskólastigi. Þá var meirihluti fylgjandi fjölbreyttara rekstrarformi á öllum skólastigum. Hér er að finna möguleika til að hrista upp í menntakerfinu, virkja krafta einstaklingsframtaksins og gera tilraun til að laga kerfi, sem samkvæmt hlutlægu mati er of dýrt og ekki nógu gott.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu 21. ágúst 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.