*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Týr
11. júlí 2021 12:48

Hroki Fjölmiðlanefndar

Vonandi tekst að efla miðlalæsi almennings, sama hvað það kostar!

Aðsend mynd

Á meðan flest einkafyrirtæki þurfa að horfa í hverja krónu í kjölfar heimsfaraldurs hefur Fjölmiðlanefnd, sem ætti með réttu að heita Fjölmiðlaeftirlit ríkisins, ráðið til sín tvo nýja starfsmenn á árinu sem bera titilinn verkefnastjóri og sérfræðingur. Eflaust eru þetta mætustu menn, en það kom Tý á óvart þegar annar þeirra hóf að framleiða hlaðvarpsþátt í nafni ríkisstofnunarinnar.

Það felst ekki gífurlegur kostnaður í því að hefja framleiðslu á hlaðvarpi en það þarf samt að kaupa til þess sérstakan búnað. Þess utan þarf starfsmann sem undirbýr þáttinn. Hann gerir ekki mikið annað á meðan, en vonandi eru hinir fjórir starfsmenn fjölmiðlaeftirlitsins að vakta miðlana á meðan. Hlaðvarp fjölmiðlaeftirlitsins var síðan birt á erlendu efnisveitunum Spotify og YouTube, sem lúta ekki eftirliti þess. 

* * *

Þrátt fyrir að hafa aðeins starfað hjá ríkinu í nokkra mánuði svaraði Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri hjá fjölmiðlaeftirlitinu og umsjónarmaður hlaðvarpsins, gagnrýni á þennan nýja fjölmiðil eins og sannur ríkisstarfsmaður:

„Mitt starf þar er að vinna rannsóknir og vinna úr þeim til að efla miðlalæsi. [...]Það gerir mitt starf mjög erfitt ef ég þarf að senda bréfdúfur eða meitla þetta í stein úti á götu. Ég þarf að koma efninu til almennings því þetta efni á svo sannarlega erindi til almennings," sagði hann í viðtali við Ríkisútvarpið, eina íslenska fjölmiðilinn sem berst ekki í bökkum þessa dagana.

* * *

Rólegur kúreki, myndi kannski einhver segja við nýráðinn ríkisstarfsmann sem telur starf sitt og hlutverk svo mikilvægt að það eigi „sannarlega erindi til almennings" og leita þurfi allra leiða - og kosta til þess fjármagni skattgreiðenda - til að miðla því.

Týr vonar bara að það trufli ekki önnur brýn verkefni Fjölmiðleftirlitisins á borð við að benda almenningi á að ekki sé allt satt á internetinu, biðja valin hlaðvörp um að skrá sig sem fjölmiðla, halda skrá yfir hluthafa fjölmiðla, sem fyrirtækjaskrá gerir vel að merkja einnig, fylgja eftir banni við áfengisauglýsingum á meðan heilbrigðiseftirlitið passar upp á tóbaksauglýsingabannið, og nýlega að álykta um störf einstaka blaðamanna sem siðanefnd Blaðamannafélagsins hefur sinnt um árabil. Vonandi tekst að efla miðlalæsi almennings, sama hvað það kostar!

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.