*

laugardagur, 6. júní 2020
Týr
22. apríl 2017 16:02

Hrós á Skúla Eggert

Það má virða það og hrósa þegar forsvarsmenn ríkisstofnana sýna almenningi þá virðingu að viðurkenna að þeir eru að vinna fyrir fólkið í landinu en ekki stofnunina sjálfa.

Týr er enginn sérstakur áhugamaður um skatta, nema þá það að honum er umhugað um að skattar séu sem einfaldastir og sem lægstir þannig að bæði einstaklingar og fyrirtæki geti haldið sem mestu eftir af þeim verðmætum sem þeir vinna sér inn eða skapa. Á sama tíma er ágætt að ríkið fái aðeins þær skatttekjur sem nauðsynlegar eru til að sinna aðeins þeim verkefnum sem nauðsynleg eru. Það væri draumastaðan en Týr er þó meðvitaður um það að þessi ósk hans á seint eftir að rætast, þó hann haldi auðvitað alltaf í vonina.

***

En fyrst það eru skattar þá þarf skattaeftirlit og ákveðna þjónustu við skattgreiðendur. Hér á landi er það Ríkisskattstjóri sem sér um meginþorrann af þeirri þjónustu. Týr er öllu jafna frekar skeptískur á ríkisstofnanir og þar er embætti ríkisskattstjóra að sjálfsögðu engin undantekning.

***

Eitt má embættið nefnilega eiga og þá ekki síst Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. Það er að því er umhugað um að auðvelda almenning öll samskipti og alla úrvinnslu skattamála, s.s. við gerð skattaframtala, með rafrænum skattkortum, miklum vilja til að leiðbeina almenningi og fyrirtækjum o.s.frv. Nú stendur einnig til að opna nýja rafræna fyrirtækjaskrá sem auðveldar einstaklingum að stofna fyrirtæki svo fleiri dæmi séu nefnd.

***

Týr ætlar því að bregða út af venjunni og hrósa ríkisstofnuninni. Það er ágætt að hafa ekki ofurtrú á ríkinu eða ríkisstofnunum, en skattaframtal er engu að síður eitthvað sem allir þurfa að fylla út og skila og það má virða það þegar almenningi er gert það auðveldara um vik. Hið sama gildir um alls kyns úrvinnslu skattamála, stofnun fyrirtækja o.s.frv. Það má virða það og hrósa þegar forsvarsmenn ríkisstofnana sýna almenningi þá virðingu að viðurkenna að þeir eru að vinna fyrir fólkið í landinu en ekki stofnunina sjálfa. Það mættu fleiri forsvarsmenn ríkisstofnana, þá sérstaklega eftirlitsstofnana, taka til sín.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.