*

miðvikudagur, 21. október 2020
Andrés Magnússon
27. júlí 2020 07:46

Hugarvíl og hneykslan

Spurning hvort fólk sé orðið viðkvæmara fyrir nafnbirtingum á tímum félagsmiðla en áður.

Aðsend mynd

Sögð var frétt af því í lok síðasta mánaðar, að ung fótboltakona í Breiðabliki, nýkomin úr ferð til Bandaríkjanna, hefði greinst með smit af plágunni og því væri Íslandsmótið í nokkru uppnámi, heilu liðin á leið í sóttkví og þar fram eftir götum. Þetta var vitaskuld fréttnæmt, en hins vegar stöldruðu ýmsir við að konan væri nafngreind í fréttinni, sem upphaflega birtist á fotbolti.net.

Engum brá þó eins mikið í brún og konunni sjálfri, en hún lýsti því í viðtölum í síðustu viku, hvernig sér hefði orðið við. Nógu slæmt hafi verið að hafa greinst með heimsfaraldurinn og vita til þess að fjöldi manns hafi þurft að fara í sóttví af hennar völdum, en að hafa verið nafngreind og myndir birtar af henni (fleiri miðlar tóku fréttina upp). Fjölskyldan hennar hefur því kært Fótbolta.net til bæði Persónuverndar og siðanefndar Blaðamannafélagsins.

                                                                        ***

Hér er úr vöndu að ráða, því auðvitað finnst flestum sjúkrasaga sín algert einkamál. Undir venjulegum kringumstæðum myndi Persónuvernd sjálfsagt vera sama sinnis, þó að fréttaflutningur sé um margt undanþeginn því regluverki.

Vegna heimsfaraldursins hefur almenningur mátt þola ómak og jafnvel frelsisskerðingar, vegna þess að veiran varðar ekki aðeins þá sem veikjast. Eins má benda á að þegar sjúkdómur eins hefur afleiðingar fyrir aðra, þá eiga sömu persónuverndarsjónarmið ekki alltaf við. Loks má spyrja hvaða gildi það hefði haft að greina ekki frá nafni konunnar, heldur segja aðeins að þar hafi rætt um leikmann Breiðabliks nýkominn frá Bandaríkjunum. Fullyrða má að nafnið hefði ekki lengi legið í þagnargildi þó að fjölmiðlar hefðu haldið sér saman um það.

Svo er hitt að fréttin þarna að baki snýr þó að fleiru en fótbolta, því þegar konan kom til landsins fékk hún neikvætt svar úr skimun við komuna. Herbergisfélagi hennar vestra hafði hins vegar samband síðar þar sem hún var smituð svo íslenska konan fór aftur í skimun þó einkennalaus væri. Þá hafi hins vegar komið jákvætt svar, en á milli prófanna hafði hún leikið tvo leiki í fótbolta, farið í útskriftarveislur og þar fram eftir götum. Þar er fréttin sú að konan gerði allt rétt, en smitvarnirnar héldu ekki. Sem er frétt, sem varðar okkur öll. Um nafnbirtinguna má lengi deila, en sá sem þetta skrifar á erfitt með að áfellast Fótbolta. net fyrir hana. Sömuleiðis að hún varði í nokkru við siðareglur blaðamanna.

                                                                        ***

Kannski fólk sé viðkvæmara fyrir svona löguðu en áður (í gamla daga voru bílstjórar og bílnúmer tiltekin þegar þeir lentu í árekstri!). Sem tengist e.t.v. því hvað það er stutt í hugaræsinguna á félagsmiðlum, líkt og sjá má af tíðum og reglulegum hneykslunarbylgjum þar, oft af sáralitlu tilefni. Og það sem fólk í mesta lagi hnussaði yfir áður fyrr verður ótal mörgum nú ástæða til þess að fara hamförum í hneykslan og fordæmingu um nánast hvað sem er. Oft er engu líkara en að yfir standi keppni í uppnámi og tilfinningasemi, þar sem sá vinnur sem er sárreiðastur og hefur uppi svakalegustu svigurmælin.

gustu svigurmælin. Gott dæmi um það var tíst Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, þar sem hann talaði um að sameinuð myndum við sigrast á „Kínaveirunni“ og lét svo fylgja myndtákn fána Íslands og Bandaríkjanna. Það var eins og við manninn mælt að upp risu ótal vandlætarar, sem óhætt er að segja að hafi ekki vandað sendiherranum kveðjurnar, sumir sögðu hann rasista og aðrir skoruðu á hann að snáfa úr landi. Frá þessu var svo skilmerkilega sagt í ýmsum miðlum, svo enn fleiri töldu nauðsynlegt að greina frá sálarangist sinni vegna þessa alls á félagsmiðlum, þar á meðal nokkrir þingmenn, svo þá gátu miðlarnir sagt frá því, m.a. þeirri kröfu að hann fjarlægði íslenska fánann úr tístinu.

Nú er ekki gott að segja hvað olli þessari miklu viðkvæmni, sennilega eru ýmsar ástæður fyrir því, mishaldbærar eins og gengur, en svo hafa örugglega margir hrifist með æsingunni og ekki viljað láta sitt eftir liggja. Þegar veiran lét fyrst á sér kræla í vetur var nokkuð rætt um hvað hún eða plágan af hennar völdum ættu að heita og þá kom m.a. fram orðið Kínaveira, þó ekki næði það fótfestu, en hins vegar var hún um nokkra hríð nefnd Wuhan-veiran, án þess að almenn skelfing hafi gripið um sig. Jafnvel ekki í Kópavogi, vinabæ Wuhan.

Annað nýlegt dæmi um hneykslunaráráttuna má nefna, en hún fékk ótrúlega mikla útrás í kjölfar þess að leikkonan Þórdís Björk Þorfinnsdóttir tjáði sig í gamni um náttúrufegurð og veðurblíðu á Melrakkasléttu, þar sem hún átti leið um í leikferð um landið. Margir tóku þetta afar óstinnt upp, þó fram kæmi að þetta væri grín og leikkonan bæðist skjótt afsökunar. Sumir viðhöfðu hreint ógeðslegan munnsöfnuð á félagsmiðlum og höfðu jafnvel í þvílíkum hótunum, að lögregla hlýtur að hafa skoðað það ótilkvödd, en Þórdís Björk hefur einnig kært hótanirnar.

Frá þessu sögðu ýmsir miðlar og birtu með ógeðfelldustu athugasemdirnar, svo ekkert færi nú milli mála. Sem aftur varð til þess að fleiri sáu sig knúna til þess að leggja orð í belg á félagsmiðlum, og þannig vall málið áfram enn um hríð, þar sem vitaskuld var ekki aðeins hjólað í leikkonuna og henni sagt hollast að sýna sig ekki á sviði aftur, heldur líka hvatt til þess að landsbyggðarfólk léti alfarið vera að fara á sýningar leikhóps hennar.

Þessi dæmi eru bæði um lítilfjörleg og í sjálfu sér sárasaklaus ummæli, sem kalla varla á svör, hvað þá þá heift og jafnvel múgæsingu, sem raun bar vitni. Auðvitað er það ekkert nýtt að víða leynist tröll á netinu, en þá má spyrja um fréttamat og efnistök fjölmiðla, sem gera úr stórfréttir um banal athugasemdir réttlætisriddara eða sorakjaft dóna og óberma, sem yfirleitt kunna ekki stafsetningu. Við blasir að það er ekki málsmetandi fólk, svo af hverju að vera að vitna í rausið og gallið? Hvað þá að endurbirta það í heild sinni?

Þá eru miðlarnir að gera sér það að leik (og féþúfu) að útbreiða hið versta á félagsmiðlum og setja það í einhvers konar fréttabúning. En þá eru þeir ekki aðeins að stækka málið úr öllu hófi, heldur líka að smækka sjálfa sig.

                                                                         ***

Fjölmiðlarýnir hafði vistaskipti í upphafi vikunnar þegar hann réðist til Morgunblaðsins. Það líður því að leiðarlokum á þessari síðu, en ekki alveg strax. Ég lofaði víst að skrifa út mánuðinn, svo það kemur einn pistill enn.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.