*

laugardagur, 4. desember 2021
Óðinn
21. apríl 2021 07:04

Hugmyndir BSRB og áhyggjur Seðlabankans

„Óðinn vill að allir launþegar hafi sem hæst laun en of há laun draga úr getu fyrirtækjanna til að ráða fólk.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri.
Gunnhildur Lind Photography

BSRB - áður Bandalags starfsmanna ríkis og bæjar - hefur veitt álit sitt á fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026.

Helstu áhyggjur ríkis- og borgarstarfsmannanna eru að ríkisstjórnin, sem er að skuldsetja komandi kynslóðir í áður óþekktum mæli í nafni Covid-19, stöðvi skuldsöfnunina of snemma og muni þannig hægja á efnahagsbatanum. BSRB vill heldur fjölga opinberum störfum en eins og segir í álitinu:

BSRB bendir á að það er hægt að skapa góð störf, bæði tímabundið og til lengri tíma, í heilbrigðiskerfinu, félags- og velferðarþjónustu, skólakerfinu og í löggæslu. Mjög mikilvægt er að styrkja þessi samfélagslega mikilvægu kerfi til að forða starfsfólki frá alvarlegum afleiðingum þess álags sem faraldurinn hefur valdið og til að veita mikilvæga þjónustu.

Það er rétt sem kemur fram í umsögn BSRB að það er gríðarlega mikilvægt að berjast við atvinnuleysið. En það er ekki hægt að búa til störf hjá ríkinu og þar með stórauka halla ríkissjóðs. Slík framleiðsla starfa er ekki sjálfbær og skuldasöfnunin mun á endanum þýða niðurskurð og þá fækkun starfsfólks í heilbrigðiskerfinu, félags- og velferðarþjónustu, skólakerfinu og í löggæslu.

* * *

Er launakostnaðurinn of hár?

Atvinnuleysi mun ekki minnka varanlega nema fyrirtækin í landinu hafi burði og sjá hag í að ráða nýtt starfsfólk. Þar skiptir launakostnaðurinn miklu. Annars vegar eru það launin sjálf og hins vegar launatengdu gjöldin, lífeyrissjóðsframlagið og tryggingagjaldið.

Óðinn vill að allir launþegar hafi sem hæst laun en of há laun draga úr getu fyrirtækjanna til að ráða fólk. Þetta mættu starfsmenn á skrifstofu BSRB hafa í huga í næstu kjaraviðræðum.

Hitt er að lífeyrisgreiðslur, og þá helst mótframlag atvinnurekenda, er orðið of hátt. Í dag eru greiðslur í lífeyrissjóð 15,5% af launum og allir þeir sem hafa kynnt sér málið sjá að hlutfallið er óþarflega hátt.

Tryggingagjaldið er sögulega mjög hátt. Eins og Óðinn rifjaði upp í pistli í október þá var gjaldið 4,25% þegar það var sett á en þar sem mótframlagið var ekki í álagningarstofninum var það í raun í kringum 3,8%. Í dag er gjaldið 6,35% og það er ekki nokkur vafi á því að gjaldið veldur atvinnuleysi. En BSRB og aðrir ríkisútgjaldasinnar tala ekki fyrir lækkun þess, m.a. vegna þess að það heldur uppi fæðingarorlofssjóði og er orðin almenn tekjulind fyrir ríkissjóð.

Það er líka rétt að benda BSRB á það, að íslenski ríkissjóðurinn hefur gengið einna lengst í aðgerðum vegna COVID-19 af öllum löndum heims, eða um 9,2% af vergri landsframleiðslu - sem er og hæsta hlutfallið á Norðurlöndum.

Seðlabankinn birti í gær rit sitt, Fjármálastöðugleiki 2021/1. Helstu áhyggjur Seðlabankans er verðbólgan sem nú mælist 4,3%.

* * *

En hvað með launakostnaðinn?

Í samtali við visi.is í gær sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri:

„Verðbólgan sem verið hefur núna stafar að miklu leyti af veikingu gengisins á síðasta ári. Núna höfum við séð gengisstyrkingu og ég bara býst við því að hærra gengi leiði til þess að verðlag í verslunum lækki og við náum verðbólgunni niður aftur. Ef það gerist ekki verðum við að grípa til aðgerða."

Óðinn er sammála seðlabankastjóranum en veltir þó fyrir sér hvort gríðarlegar launahækkanir séu ekki líka að valda verðhækkunum. Það er nefnilega engin innistæða fyrir hækkun launa og styttingu vinnuviku. Þeir þekkja það líka sem hafa unnið langan dag að það gefst síður tími til að eyða peningum þannig að stytting vinnuvikunnar mun kalla á enn hærri laun. Þetta mun allt saman enda með ósköpum.

* * *

Óðinn hafði ekki nokkrar áhyggjur af verðbólgunni þar til að ljóst var að Covid myndi dragast á langinn, ekki síst vegna þess að vanhæfir embættismenn og heilbrigðisráðherra höfðu ekki fyrir því að taka upp símann og panta bóluefni - heldur treystu á Evrópusambandið. Reyndar er það svo að Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir eru einu stjórnmálamennirnir í allri Evrópu sem enn telja að Evrópusambandið hafi ekki brugðist í bóluefnaöfluninni.

* * *

Það væri kaldhæðni örlaganna að korteri fyrir kosningar myndu stýrivextir - og þá óverðtryggðir húsnæðisvextir - fara að hækka vegna þess að landið væri enn lokað og krónan veik þar sem ekkert innflæði gjaldeyris væri frá ferðamönnum. Það verður þó að teljast ólíkleg staða.

* * *

Opnunaráætlun er nauðsynleg

Það er hins vegar umhugsunarefni í allri umræðu um bóluefni og Covid, að sóttvarnayfirvöld skuli þrátt fyrir að búið sé að bólusetja þá sem viðkvæmastir eru, fólk eldra en 70 ára, ekki hafa tekið í mál að opna sundlaugar og líkamsrækt fyrir þessu fólki.

* * *

Það er rétt sem kom í grein Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, í Morgunblaðinu um síðustu helgi, að það skortir algjörlega fyrirsjáanleika í opnun landsins. Danir ætli til dæmis að afnema helstu frelsisskerðingar þegar bólusetningu 50 ára og eldri verður lokið.

Íslendingar ættu að fara svipaða leið. Fólk og fyrirtæki þurfa að geta séð fyrir næstu skref. Það gengur ekki lengur að fólk sem hefur ekkert lýðræðislegt umboð til að skerða frelsi fólks og leggja heilu atvinnugreinarnar í rúst taki ákvarðanir um svo viðurhlutamikið mál. Svo ekki sé minnsta á einn ríkasta kommúnista landsins, Kára Stefánsson, sem bæði skiptir um skoðun á nokkurra daga fresti og hefur nær alltaf haft rangt fyrir sér þegar hann hefur spáð fyrir um framgang veirunnar.

* * *

Fyrst heilbrigðisráðuneytið hefur gefið út að bólusetningu ljúki í júlí, er þá nokkuð til fyrirstöðu að segja að landið opni þá?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.