*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Óðinn
4. febrúar 2019 18:01

Hugo Chavez og ástandið í Venesúela

Fréttaskýring Ríkisútvarpsins um ástandið í Venesúela 25. janúar var ekki stofnun sem fær 4,7 milljarða af skattfé almennings til sóma.

Hugo Chavez, fyrrum forseti Venesúela.
Aðsend mynd

Hagkerfið í Venesúela er í frjálsu falli og hefur verið megnið af valdatíma Maduros. Stuttu eftir að hann tók við reið yfir alda blóðugra mótmæla vegna efnahagsástandsins. Venesúela er með öll eggin í sömu körfu, ef svo má segja, og treysta nær alfarið á olíuútflutning. Þegar olíuverð hrundi fyrir nokkrum árum varð vandlifað í landinu, vöruskortur og verðbólga upp úr öllu valdi.

Úr kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 25. janúar 2019

Lýðskrumarinn Hugo Chavez var kjörinn forseti Venesúela og tók við stjórn landsins í febrúarbyrjun árið 1999 með alls kyns fyrirheitum um fyrirmyndarríki sósíalismans, sem féllu mörgum vinstrimönnum á Vesturlöndum vel í geð, þar á meðal hér á landi. Þrátt fyrir gorgeirinn voru fyrstu árin tíðindalítil, en árið 2003 setti Chavez á gjaldeyrishöft og hámarksverð á neysluvörur.

* * *

Þessi verðstýring olli því að framleiðendum og innflytjendum var gert að selja vörur sínar undir kostnaðarverði og þá var viðskiptunum hjá mörgum sjálfhætt. Svartur markaður myndaðist með margar vörur. Fljótlega fóru erlendir fjölmiðlar flytja fréttir af vöruskorti og stöðvun framleiðslu.

* * *

Vöruskortur í meira en áratug

Financial Times flutti frétt hinn 5. janúar 2006 um kaffiframleiðendur í Venesúela. Hámarksverð á kílói af kaffi var 7.400 venesúelskra bólívara, en baunirnar, pökkun og dreifing kostuðu 7.440 bólívara. Formaður kaffiframleiðenda í Merida-fylki í Venesúela sagði þar að 30.000 tonn af kaffibaunum myndu skemmast ef framleiðendum verði gert að selja undir kostnaðarverði.

Wall Street Journal flutti frétt 15. febrúar 2006 um að Elimentos Polar, stærsti matvælaframleiðandi Venesúela, ætlaði hugsanlega að hætta framleiðslu á maís vegna verðstýringar stjórnvalda. Margir fóru hins vegar framhjá reglunum sem voru mjög götóttar. Sumar verslanir hættu að selja kjöt sem var framleitt í landinu og seldu mun dýrara innflutt kjöt, því engin verðstýring var á því.

The Economist fjallaði í pistli hinn 9. ágúst 2007 um „Bólígarkana" og lagði þar út af olígörkunum í Rússlandi. Þar kallaði blaðið efnahagsstefnu Chavez „petrolíusósíalisma" og lýsti henni sem blöndu af her-popúlisma og miðstýringu í anda ný-marxisma. Forsetinn réðist hvað eftir annað á auðstéttina, enda segðist hann málsvari fátæka mannsins. „Að vera ríkur er slæmt" hefur blaðið eftir Chavez. Í ljósi þess væri þó undarlegt að sjá stóra nýja fjórhjóladrifna jeppa, sérstaklega Hummer-jeppa, fylla götur höfuðborgarinnar Caracas, erfitt væri að fá borð á bestu veitingastöðum, nú væri blómatími listaverkasala og viskíinnflytjenda. Ný auðmannastétt sósíalistanna þrifist vel í Venesúela í skjóli Bólivar-byltingarinnar að sögn The Economist, en þar var auðvitað enn á ný komin „hin nýja stétt", sem, Milovan Djilas lýsti svo vel á upphafsdögum Kalda stríðsins.

* * *

Fimmta stærsta olíuríki heims

Hugo Chavez lýsti yfir stríði við framleiðendur og innflytjendur þegar verðstýringin virkaði ekki, en það fór að bera á vöruskorti árið 2005. Margir hættu því rekstri. Verðbólgan árið 2005 var 14% samkvæmt opinberum tölum, en þar sem svartur markaður var um margar vörur var hún í raun mun meiri.

* * *

Talið er að Venesúela sé ríkust allra þjóða af olíu í jörðu og árið 2006 var ríkið 5. mesti olíuframleiðandi heims. Til þess að vega upp á móti vöruskortinum reyndi Chavez því að nota hagnaðinn af olíuframleiðslunni til að niðurgreiða matvæli. Þrátt fyrir þetta var vöruskorturinn verulegur. Seðlabankinn landsins taldi hann vera 5% árið 2005, hann fór hæst í 15% 2006, 20% árið 2007 og 25% árið 2008. Árin á eftir var skorturinn um 15% en fór aftur hækkandi árið 2012 og í dag er hungursneið í landinu.

* * *

Olían „mis"notuð snemma

En aðferðir Chavez voru engin nýlunda. Olíuframleiðsla hófst í Venesúela árið 1913. Upp úr 1960 hófu stjórnvöld að nota hagnaðinn af olíunni í meiri mæli til að niðurgreiða vörur og velferðina, nota brauð og leika til þess að halda ólgu alþýðunnar í skefjum. Árið 1976 var olíuiðnaðurinn þjóðnýttur en stjórnvöld hótuðu að reglulega að taka olíuiðnaðinn yfir frá 1970. Vegna þess dró verulega úr fjárfestingu og framleiðslan minnkaði um 70% frá 1970 til 1985.

* * *

Ræktarlönd í órækt

Chavez notaði fleiri tól sósíalismans en verðstýringu. Ríkið þjóðnýtti framleiðslufyrirtækin og landbúnaðinn. „Land er ekki einkaeign. Það er eign ríkisins," sagði Chavez . Afleiðingin var sú að ræktarland, sem áður framleiddi mat liggur nú í órækt undir óstjórn ríkisins.

* * *

Stefna Chavez hefði valdið því skelfilega ástandi sem nú er mun fyrr ef olíuverð hefði ekki margfaldast fljótlega eftir að hann tók við. Olíuauðnum var nýttur til að vega upp á móti sósíalismanum sem stórskaðaði efnahagslífið.

* * *

Ólíkt hafast menn að

Mörg lönd voru í svipaðri stöðu á síðustu öld og Venesúela. Noregur er ágætt dæmi. Þar var snemma tekin sú ákvörðun að velta ekki olíuauðnum inn í hagkerfið af fullu afli eins í Venesúela. Árið 1967 var olíusjóðurinn stofnaður. Eign hans er um 24 milljónir króna á hvern íbúa landsins. Norðmenn hafa seilst í sjóðinn undanfarin ár. Árið 2015 voru 2,8% af heildarverðmæti sjóðsins færðar yfir í ríkissjóð. Þessu varaði seðlabankastjóri Noregs eindregið við og sagði að lækkandi olíuverð myndi hafa mikil áhrif á efnahag landsins og eyðsla úr sjóðnum væri ekki góð leið til að tryggja stoðir Noregs.

* * *

Chavez forseti gerði landið hins vegar enn háðara olíunni. Þegar hann tók við var olía um 70% af útflutningnum. Þegar hann lést árið 2013 var hún orðin 98%. Þrátt fyrir ótrúlegar hækkanir á olíuverði frá aldamótum er enn ótrúlegra að strax árið 2005 hafið borið á vöruskorti. Það er sósíalismanum að kenna og íbúar landsins fengu að kenna enn frekar að kenna á honum þegar olíuverð lækkaði árið 2008.

* * *

Systir sósíalismans

Systir sósíalismans er spillingin. Eftir því sem meira er á hendi stjórnvalda er meiri hætta á spillingu. Árið 2016 var núverandi forseti sakaður um stórfellda spillingu og mútuþægni. Nicolas  Maduro var varaforseti Chavez forseta þegar hann lést. Hann er sakaður um að hafa persónulega tekið við 35 milljónum Bandaríkjadala frá brasilíska verktakafyrirtækinu Odebrecht í maí 2013, mánuði eftir að hafa verið kosinn í embætti forseta. Félagið fékk 4 milljarða dala verkefni hjá venesúelska ríkinu. Að sögn Euzenando  Prazeres  de  Azevedo, sem stýrði rekstri fyrirtækisins í landinu, var  Maduro tilbúinn að semja um múturnar. „Hann bað um fimmtíu (milljónir  dala) og ég samþykkti að greiða honum 35 milljónir." Saksóknarinn Tarek Saab útilokaði strax að málið yrði rannsakað. Saab var um tíma leiðtogi flokksins sem Chavez stofnaði, Fimmtu lýðræðislegu hreyfingarinnar, sem rann inn í núverandi stjórnarflokk.

* * *

Rannsóknarblaðamennska Ríkisútvarpsins

Venesúela er með öll eggin í sömu körfu vegna sósíalismans. Sú þjóðfélagstilraun sem Chavez forseti, og Maduro hélt áfram, hefur mistekist með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúða landsins. Hungursneið er í landinu, lyfjaskortur er algjör og barnadauði hefur stóraukist. Margfaldast raunar.

* * *

Fréttaskýring Ríkisútvarpsins um ástandið í Venesúela á föstudaginn var ekki stofnun sem fær 4,7 milljarða af skattfé almennings til sóma. Óðinn er ekki viss um að þetta hafi endilega með ráðum gert. Fréttamaður hefur líklega lesið þann hálfsannleik á Twitter-straumi Jeremy Corbin, leiðtoga Verkamannaflokksins í Bretlandi. Og víst er að Wall Street Journal, Financial Times og The Economist berast ekki í Efstaleiti. En Viðskiptablaðið gerir það hugsanlega enn og því finnst Óðni mikilvægt að koma þessari leiðréttingu á framfæri.

* * *

Engum er þó alls varnað. Á Ríkisútvarpinu er starfar fólk sem hefur áttað sig. Egill Helgason segir á vefsíðu sinni „Hið algjöra hrun samfélagsins í Venesúela er áfall fyrir vinstri sósíalista - sem þeim gengur mörgum illa að horfast í augu við. Maður sér því haldið fram á vefsíðum þeirra að í gangi sé plott heimsvaldasinna til að fella hina ágætu sósíalistastjórn í Venesúela. En afhroðið er algjört, stjórnin í Venesúela er gjaldþrota bæði efnahagslega og hugmyndalega. Útkoman er verri en nokkuð sem var fyrir þjóðfélagsbyltinguna."

* * *

Kannski Egill fái sér göngutúr inn á fréttastofu og fari yfir stöðuna í Venesúela. Eftir það myndu ef til vill fleiri horfast í augu við hið algjöra hrun.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.